Mælt fyrir frumvarpi um nýja Náttúrufræðistofnun
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra mælti þriðjudaginn 14. nóvember fyrir frumvarpi um nýja Náttúrufræðistofnun. Frumvarpið felur í sér að Landmælingar Íslands (LMÍ) og Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn (RAMÝ) verði hluti af Náttúrufræðistofnun Íslands (NÍ), sem við breytingarnar fær heitið Náttúrufræðistofnun.
Nýrri stofnun er ætlað að fara með hlutverk og verkefni stofnananna þriggja, sem og að efla faglegt starf á sviði gagnaöflunar, rannsókna, kortlagningar og vöktunar á náttúru Íslands. Þá á hún að tryggja markvissa uppbyggingu gagnasafna og rannsóknainnviða með góðu aðgengi að gögnum og áreiðanlegum rauntímamælingum, öflugar grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir sem verða unnar á grundvelli samráðs milli stofnana.
Skipaður hefur verið verkefnahópur til að vinna að undirbúningi sameiningar framangreindra þriggja stofnana. Í hópnum eru forstjórar NÍ, LMÍ og RAMÝ auk fulltrúa ráðuneytisins og stýrir forstjóri NÍ vinnunni. Með hópnum starfar ráðgjafi frá fyrirtækinu Strategíu. Hópurinn hefur það meginverkefni að tryggja framkvæmd samrunaáætlunar ráðuneytisins og tengd verkefni vegna sameiningar NÍ, LMÍ og Ramý. Starfstími verkefnahópsins er til loka árs 2023 eða þar til lögin taka gildi verði frumvarpið samþykkt.
Í ljósi þess að lögð eru til ný heildarlög um Náttúrufræðistofnun felur frumvarpið í sér talsverðar breytingar frá lögum nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur. Hlutverk og verkefni Landmælinga Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn eru tilgreind í frumvarpinu auk þess sem frumvarpið hefur að geyma sambærileg ákvæði og núverandi lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur. Í frumvarpinu eru þá lagðar til breytingar á öðrum lögum til samræmis.
Frumvarp um náttúrufræðistofnun
Frumvörp um Náttúru- og minjastofnun og Umhverfis- og orkustofnun
Yfirlestri dómsmálaráðuneytis vegna draga að frumvarpi um Umhverfis- og orkustofnun er að mestu lokið og komin umsögn frá fjármála- og efnahagsráðuneyti vegna kostnaðar. Drög að frumvarpi um Náttúru- og minjastofnun eru farin til yfirferðar þessara ráðuneyta. Að þessari vinnu lokinni verða frumvörpin lögð fram í ríkisstjórn, send til þingflokka og til samþykktar forseta áður en þau verða lögð fram á Alþingi.
Gert er ráð fyrir að mælt verði fyrir frumvörpunum á þessu ári. Árið 2024 mun svo fara í undirbúningsvinnu. Gert er ráð fyrir að frumvarp um Náttúrufræðistofnun taki gildi í byrjun árs 2024 og frumvörp um Umhverfis- og orkustofnun og Náttúruverndar- og minjastofnun taki gildi í ársbyrjun 2025.
Upplýsingatækni og tölvumál
Nú liggur fyrir lokaútgáfa af skýrslu Heimis Fannars Gunnlaugssonar um upplýsingatæknimál stofnana og hefur hún verið send forstöðufólki þeirra stofnana sem hún fjallar um.
Skýrslan gefur góða yfirsýn yfir stöðu mála hjá stofnunum, styrkleika þeirra og veikleika í upplýsingatæknimálum, en í henni eru tekin saman svör sem bárust við matsramma sem kynntur var í vor og setur hún UT-umhverfi stofnana í samhengi við áform um endurskipulagningu.
Rætt um staðsetningu verkefna
Undanfarnar vikur hafa fulltrúar umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins átt fundi með öðrum ráðuneytum til að ræða hugmyndir um verkefni eða stofnanir sem gætu faglega fallið vel að nýju stofnanaskipulagi umhverfis- orku- og loftslagsráðuneytisins. Einnig hefur verið rætt um verkefni sem ættu mögulega að færast til stofnana annarra ráðuneyta. Ráðuneytin sem fundað hefur verið með eru dómsmálaráðuneytið, forsætisráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið, matvælaráðuneytið, innviðaráðuneytið og menningar- og viðskiptaráðuneytið. Almennt hefur verið tekið vel í þær hugmyndir sem ræddar hafa verið og verður samtalinu haldið áfram samhliða þeim breytingum á skipulagi stofnana ráðuneytisins sem nú er unnið að.
Samstarf við ríkiskaup
URN hefur gert samning við Ríkiskaup um að vinna gæðamat og ráðgjöf fyrir ráðuneytið og undirstofnanir þess á sviði opinberra innkaupa. Gæðamatinu er ætlað að auka yfirsýn yfir sameiginlegar innkaupaþarfir innan stofnanakerfis ráðuneytisins og greina tækifæri til aukinnar sjálfbærni og hagkvæmni í innkaupum.
Samningurinn felur í sér að Ríkiskaup munu vinna greiningar á innkaupagögnum ráðuneytisins og stofnana þess, með það að markmiði að veita gæðamat á innkaupum, m.a. með ráðgjöf varðandi lög um opinber innkaup og umbætur í rekstri.
Gæðamatið á að liggja fyrir í lok þessa árs og er því ætlað að gera stofnanir ráðuneytisins betur í stakk búnar til að mæta umfangsmiklum faglegum og rekstrarlegum áskorunum sem við blasa með enn frekari árangur, skilvirkni og hagræðingu í huga.
URN flutt í Borgartún 26
Loks má nefna að umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið flutti um mánaðamótin úr Skuggasundi 1 og yfir í Borgartúni 26b, þar sem matvæla- og dómsmálaráðuneytið eru einnig til húsa. URN er á 8. hæð hússins og verður þar til húsa þar til vinnu við endurbætur ráðuneytisbygginga á Stjórnarráðsreitnum er lokið.
Annað
Spurningum og ábendingum um stofnanabreytingarnar sem óskað er eftir að koma á framfæri skal beint til mannauðstjóra/forstöðumanna stofnana. Einnig er hægt að senda fyrirspurnir og ábendingar til mannauðsstjóra ráðuneytisins sem safnar saman þeim saman og sendir spurningar og svör til stofnana sem þau geta dreift til starfsfólks.
Sameiningunni er m.a. ætlað að ná þeim markmiðum að:
- Til verði stærri, kröftugri og faglega öflugri stofnanir sem geti tekist á við áskoranir til framtíðar og unnið að markmiðum Íslands í umhverfismálum.
- Efla þekkingar- og fræðasamfélag og nýsköpun í opinberum rekstri.
- Fjölga störfum á landsbyggðinni og störfum óháð staðsetningu
- Nýta betur þekkingu og innviði og auka sveigjanleika til að takast á við stór verkefni.
- Einfalda áætlanagerð og auka rekstrarhagkvæmni.
- Tryggja aðkomu nærsamfélaga að þjóðgörðum og friðlýstum svæðum.