Fjármálaráðherra ávarpar ársfund asíska fjárfestingabankans, AIIB
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra flutti í dag ávarp á ársfundi asíska innviðafjárfestingarbankans (AIIB) sem haldinn var með fjarfundi en Bjarni er varaformaður bankaráðs bankans (e. board of governors). Í ávarpinu lagði Bjarni m.a. áherslu á málefni hafsins og hvatti til þess að bankinn byggði upp getu og sérþekkingu til að fjármagna verkefni sem stuðla að sjálfbærri nýtingu auðlinda hafsins og hreinsun mengaðra hafsvæða. Forseti Kína Xi Jinping flutti opnunarávarp fundarins en kínverjar höfðu forystu um stofnun bankans og eru leiðandi í starfsemi bankans. Á fundinum var Jin Liqun kjörinn forseti AIIB í annað sinn en hann hefur gengt stöðunni frá stofnun bankans.
AIIB er ört vaxandi alþjóðafjármálastofnun hóf starfsemi í janúar 2016. Ísland var meðal 57 stofnenda, ásamt öllum Norðurlöndunum, en meðlimir eru nú orðnir 102. Við skipulag bankans er byggt á reynslu alþjóðaþróunarbanka og er áhersla lögð á opna, óháða og gagnsæja stjórnarhætti og skýr ábyrgðarskil. AIIB var stofnaður utan um samstarf þjóða til að taka á innviðafjárfestingarþörf í Asíu, styrkja tengingar og hagræna þróun á svæðinu og styðja þannig við hagvöxt og aðgengi íbúa að grunnþjónustu. AIIB hefur þegar lánað til meira en 19 ma. bandaríkjadala til 87 verkefna víðsvegar í Asíu en hlutafé bankans er 100 milljarðar bandaríkjadala.