Sex milljarðar í samgönguframkvæmdir á þessu ári
Samgönguframkvæmdir fyrir sex milljarða króna, sem allar koma til framkvæmda árið 2020, eru veigamikill liður í efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19 faraldursins, sem leiðtogar ríkisstjórnarinnar kynntu í Hörpu um helgina. Þessi fjárhæð bætist við fyrri áform um fjárframlög til samgönguframkvæmda samkvæmt tillögu til samgönguáætlunar tímabilið 2020-2034.
Samgönguframkvæmdirnar eru hluti af 20 milljarða kr. fjárfestingaátaki ríkisstjórnarinnar, þar sem hið opinbera og félög þess munu setja aukinn kraft í samgöngubætur, fasteignaframkvæmdir, og upplýsingatækni, auk þess sem framlög verða aukin í vísinda- og nýsköpunarsjóði.
„Fjárfestingar í samgöngum er með arðbærustu verkefnum sem skila sér strax út í hagkerfið og byggir undir hagvöxt til lengri tíma. Nú þarf samfélagið á kröftugri innspýtingu að halda. Það skiptir máli að bregðast hratt við breyttum aðstæðum og halda hjólum atvinnulífsins gangandi eins og kostur er. Á næstu vikum og mánuðum mun hefjast vinna við að undirbúa framkvæmdir við vega, hafna- og flugvallamannvirki sem kalla á verðmæt og fjölbreytt störf, allt frá hönnun á verkfræðistofum til véla- og byggingavinnu. Auk þess sjáum við fram á gríðarlegan samfélagslegan ávinning eftir að framkvæmdum lýkur eins og aukið umferðaröryggi og bætt umferðarflæði,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Endanlegri forgangsröðun verkefna í fjárfestingaátaki um samgönguframkvæmdir er ekki lokið. Gert er ráð fyrir að yfirlit yfir verkefni, sem fjármögnuð verða á grundvelli átaksins, verði lagt fram í sérstakri þingsályktunartillögu ráðherra.
Aðgerðir stjórnvalda eiga að veita öflugt mótvægi við efnahagsáhrif vegna COVID-19. Þær miða fyrst og fremst að því að verja störf og auðvelda heimilum og fyrirtækjum að takast á við það tímabundna tekjutap sem þau kunna að verða fyrir.