Ungtfólk 2015 – niðurstöður rannsókna
Skýrslan er byggð á gögnum Ungt fólk rannsóknarinnar sem safnað var meðal nemenda á miðstigi grunnskóla landsins í febrúar 2015. Líkt og áður er athygli beint að högum og líðan barnanna; stuðningi og eftirliti foreldra, þátttöku í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi, viðhorfum þeirra til náms og skóla og líðan í skóla. Þá er fjallað um tengsl nemenda við jafnaldra, notkun þeirra á netmiðlum, lestur bóka og viðhorf þeirra til jafnréttis. Í skýrslunni í ár er einnig birtur samanburður á völdum þáttum úr rannsókninni í ár við niðurstöður rannsóknanna árin 2007, 2009, 2011 og 2013.
Ungt fólk rannsóknirnar hafa verið lagðar fyrir grunn- og framhaldsskólanemendur landsins allt frá árinu 1992. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur stuðlað að rannsóknunum frá upphafi en frá árinu 1999 hefur rannsóknarmiðstöðin Rannsóknir og greining við Háskólann í Reykjavík séð um framkvæmd þeirra.
Æskulýðsrannsóknirnar Ungt fólk eru mikilvægt tæki til að fylgjast með ýmsum þáttum í lífi ungs fólks s.s. menntun, menningu, tómstundum, íþróttaiðkun, heilsuhegðun og heilsuvísum, líðan og framtíðarsýn svo nokkuð sé nefnt. Þær hafa reynst afar mikilvægar bæði fyrir stjórnvöld og þá aðila er vinna með börnum og ungmennum, svo sem sveitarfélög, skóla, æskulýðssamtök, íþróttasamtök, stofnanir, fagaðila og fjölmarga aðra. Niðurstöður rannsóknanna hafa m.a. komið sveitarfélögum að góðum notum við stefnumótun í málaflokkum sem snerta börn og ungmenni.
Niðurstöður eldri rannsókna eru á vef ráðuneytisins og hjá Rannsóknum og greiningu.
Upplýsingar um frekari úrvinnslu úr rannsókninni veitir starfsfólk Rannsókna og greiningar, Menntavegi 1, 101 Reykjavík, sími: 599 6431, netfang; [email protected]