Um 14 milljarðar til vegamála á síðasta ári
Í skýrslu samgönguráðherra um framkvæmd vegáætlunar 2006, sem dreift hefur verið á Alþingi, kemur meðal annars fram að tæplega 14 milljarðar króna fóru til hvers kyns vegamála á síðasta ári. Einnig hefur verið dreift á Alþingi skýrslu um stöðu umferðaröryggismála á síðasta ári.
Í skýrslunni er að finna ýmsan fróðleik varðandi vegamál, til dæmis að alls telur bílafloti landsmanna nú 227.320 bíla, þar af 197 þúsund fólksbíla.
Af 14 milljarða framlagi fóru tæpir sjö milljarðar króna til stofnframkvæmda á þjóðvegakerfinu. Rúmlega 2,8 milljörðum var varið til viðhalds á vegakerfinu og rúmir 2,7 milljarðar fóru til þjónustu. Þá rann rúmlega milljarður til almenningssamgangna og er stærstur hluti þess vegna ferja og flóabáta.
Í skýrslunni kemur fram að þjóðvegakerfi landsins er 13.038 km langt og er því skipt í stofnvegi, tengivegi, safnvegi og landsvegi. Bundið slitlag er á 4.674 km, einkum á stofnvegum, en 933 km eru á tengivegum og 239 km á safn- og landsvegum. Áætluð umferð á stofn- og tengivegum í fyrra var rúmir tveir milljarðar km. Þá má í skýrslunni sjá töflu um vetrarþjónustu og kemur þar fram að unnið er að hreinsun á nokkrum fjallvegum í yfir 100 daga á ári, til dæmis 137 daga á Öxnadalsheiði, 135 daga á Fjarðarheiði og 121 dag á Steingrímsfjarðarheiði.
Í skýrslu um stöðu umferðaröryggismála 2006 kemur fram að í fyrsta skipti síðustu sex árin hafa ekki náðst markmið umferðaröryggisáætlunar en í fyrra lést 31 af völdum umferðarslysa og 153 slösuðust alvarlega. Árið 2005 létust 19 manns og 129 slösuðust alvarlega. Í skýrslunni er að finna yfirlit um ýmsa þætti í aðgerðum á sviði umferðaröryggis, svo sem að lækka ökuhraða, gera vegi öruggari og auka eftirlit og löggæslu.
Skýrslu um framkvæmd vegáætlunar má sjá hér.
Skýrslu um stöðu umferðaröryggismála er að finna hér.