Nr. 61/2023 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 16. febrúar 2023 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 61/2023
í stjórnsýslumáli nr. KNU22110063
Kæra [...]
á ákvörðun Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 23. nóvember 2022 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Íraks (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. nóvember 2022, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.
Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Að lokum er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og málinu verði vísað til Útlendingastofnunar til nýrrar meðferðar.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsmeðferð
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi 10. október 2020. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, 16. október 2020, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Ungverjalandi. Í svari frá ungverskum yfirvöldum, dags. 2. desember 2020, kom fram að honum hefði verið veitt viðbótarvernd þar í landi 16. apríl 2015 og að hann væri enn handhafi alþjóðlegrar verndar þar í landi. Útlendingastofnun ákvað 23. febrúar 2021 að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Hinn 16. júní 2021 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar.
Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans barst kærunefnd 11. október 2021. Hinn 4. nóvember 2021 féllst kærunefnd á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans og var lagt fyrir Útlendingastofnun að taka mál hans til efnismeðferðar.
Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun 6. janúar 2022 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 17. mars 2022, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála 5. apríl 2022. Með úrskurði nr. 233/2022, uppkveðnum 16. júní 2022, var ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og málið sent til nýrrar meðferðar hjá stofnuninni. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun 24. og 29. júní 2022. Með ákvörðun, dags. 8. nóvember 2022, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála 23. nóvember 2022. Kærunefnd barst greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum 7. desember 2022.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna trúarbragða sinna, þjóðernis síns og aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi.
Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.
Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda er vísað til greinargerðar, dags. 22. apríl 2022, sem lögð var fram til kærunefndar í fyrra kærumáli hans fyrir nefndinni. Í þeirri greinargerð sé að finna ítarlegri reifun á málsástæðum kæranda ásamt athugasemdum við ákvörðun Útlendingastofnunar frá 17. mars 2022. Kærandi telur að umræddar málsástæður og athugasemdir eigi enn við í máli hans.
Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi byggir framangreinda kröfu á því að hann eigi á hættu ofsóknir í heimaríki vegna trúarbragða hans og þjóðernis og aðildar hans að tilteknum þjóðfélagshópi. Kærandi sé súnní múslimi og Túrkmeni frá Kirkuk og af þeirri ástæðu hafi hann ástæðuríkan ótta við ofsóknir vopnaðra hópa, yfirvalda og almennings í Írak. Þá stafi kæranda hætta af hópi Araba sem tilheyri Al-Jaburi ættbálknum. Kærandi telur að íröksk stjórnvöld hafi hvorki vilja né getu til að vernda hann.
Til vara gerir kærandi kröfu um að honum verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi telur sig sannanlega eiga á hættu að verða fyrir ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð í Kirkuk auk þess sem líkur séu á að hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki sé greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka.
Til þrautavara gerir kærandi þá kröfu að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi telur að aðstæður hans falli vel að hugtaksskilyrðum ákvæðisins vegna þeirra félagslegu aðstæðna sem bíði hans í Írak. Fyrir það fyrsta tilheyri kærandi minnihlutahópi súnní Túrkmena sem hafi verið áreittur og þurft að þola mismunun af hálfu Araba, Kúrda, vopnaðra hópa og stjórnvalda á heimasvæði kæranda. Í öðru lagi þá bíði hans erfiðar félagslegar aðstæður í heimaríki en hann hafi ekkert bakland í heimaríki þar sem fjölskyldumeðlimir hans séu ýmist látnir eða hafi flúið Írak.
Að lokum gerir kærandi þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga þar sem liðnir séu meira en 18 mánuðir síðan hann hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd. Fyrir liggi í málinu að skýrslur hafi verið teknar af kæranda, sbr. a-lið 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þá hafi kærandi framvísað afriti af íröksku kennivottorði sínu og lagt fram ungverskt dvalarleyfisskírteini sitt. Þar að auki hafi kærandi framvísað ungversku ferðaskilríki sínu. Hafi öll skírteinin að geyma mynd af kæranda. Kærandi telur að samkvæmt framangreindu sé ljóst að ekki leiki vafi á því hver hann sé, sbr. b-lið 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þá telur kærandi að stjórnvöldum sé heimilt að beita undanþáguheimild í 4. mgr. 74. gr. laga um útlendinga vegna skilyrða 2. mgr. greinarinnar þrátt fyrir að mistök hafi orðið við lagasetningu ákvæðisins. Kærandi hafi verið samvinnuþýður við vinnslu málsins og gert allt sem í hans valdi stendur til að veita allar nauðsynlegar upplýsingar. Ljóst sé að Írak hafi ekki sendiráð hér á landi og því illmögulegt fyrir kæranda að afla nýrra kennivottorða að svo stöddu. Með vísan til framangreinds telur kærandi að b-liður 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga eigi ekki að standa í vegi fyrir því að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Í greinargerð gerir kærandi ýmsar athugasemdir við málsmeðferð Útlendingastofnunar, einkum hvað varðar trúverðugleikamat á framburði kæranda. Kærandi gerir athugasemd við mat Útlendingastofnunar á gögnum frá ungverskum stjórnvöldum og vægi þeirra í trúverðugleikamati stofnunarinnar á framburði hans, það er að misræmi hafi verið í framburði hans. Kærandi hafi greint frá því að ágallar hefðu verið á málsmeðferð hans í Ungverjalandi. Kærandi hafi í þeirri málsmeðferð ekki fengið rými til að tjá mál sitt og túlkurinn ekki túlkað rétt. Kærandi hafi beðið um nýjan túlk en verið tjáð að hann þyrfti þá að bíða í sex mánuði. Með því að leita til dómstóla hafi kærandi fengið vernd í Ungverjalandi en fyrir dómstólum hafi hann ekki tjáð sig um mál sitt. Kærandi telur að þau atriði sem Útlendingastofnun telji fela í sér misræmi og hann hafi verið spurður út í í viðtali 8. september 2022 séu öll minni háttar atriði varðandi frásögn atvika sem verði öll skýrð á grundvelli tungumálaerfiðleika. Þá vísar kærandi til þess að áreiðanleiki gagnanna frá Ungverjalandi sé takmarkaður í ljósi framgangs ungverskra stjórnvalda í málefnum flóttafólks þar í landi. Kærandi vísar til þess að í skýrslu AIDA frá árinu 2014 um aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd í Ungverjalandi, á þeim tíma þegar kærandi hafi verið í málsmeðferð þar í landi, komi fram að viðtöl vegna umsókna um alþjóðlega vernd hafi ekki verið tekin upp á hljóð og mynd og að algengt hafi verið að umsækjendur hafi upplifað það að túlkar væru hvorki sjálfstæðir né áreiðanlegir í störfum sínum. Með vísan til framangreinds telur kærandi að Útlendingastofnun hafi ekki verið stætt á því að byggja á gögnum frá Ungverjalandi við mat á trúverðugleika framburðar hans hjá íslenskum stjórnvöldum.
Þá gerir kærandi athugasemd við þá afstöðu Útlendingastofnunar að stofnunin telji það ekki ósanngjarnt að kærandi leggi fram einhver gögn sem renni stoðum undir frásögn hans. Kærandi vísar til þess að hvorki lög um útlendinga nr. 80/2016 né reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 geri það að skilyrði að gögn séu lögð fram til stuðnings umsóknum um alþjóðlega vernd. Þau atvik sem kærandi hafi greint frá hafi átt sér stað á árunum 1989 til 1993, þegar hann var sjálfur aðeins barn og ungmenni að aldri. Kærandi hafi verið á flótta í ýmsum löndum allar götur síðan. Þá hafi atvikin átt sér stað fyrir tíma stafrænnar tækninotkunar almennings. Kærandi telur að ljóst sé að erfitt sé fyrir hann að hafa enn undir hönum einhver gögn sem geti sýnt fram á raunir hans fyrir öllum þessum árum. Kærandi hafi lagt fram það sem hann geti, svo sem læknisvottorð sem staðfesti að hann hafi leitað staðfestingar heilbrigðisstarfsfólks á að ör hans og önnur líkamleg einkenni stafi af pyndingum sem hann hafi greint frá að hafa orðið fyrir í fangelsi í heimaríki. Þá hafi kærandi einnig lagt fram ljósmyndir til kærunefndar af þeim örum sem hann beri. Þá vísar kærandi til þess að misjafnt sé milli mála hvenær Útlendingastofnun gerir kröfu um að umsækjendur leggi fram gögn til stuðnings umsóknum sínum. Í málum þar sem um sé að ræða umsækjendur frá Sómalíu sem óttist Al-Shabaab sé til að mynda ekki gerðar kröfu um gögn því til stuðnings. Að mati kæranda sé erfitt að festa fingur á því hver munurinn sé á aðstæðum þeirra aðila og kæranda í máli þessu þegar komi að möguleikanum á gagnaöflun og sé það skýrt brot á jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar.
Kærandi gerir athugasemd við þann rökstuðning Útlendingastofnunar að hann uppfylli ekki skilyrði alþjóðlegrar verndar samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem hann hafi ekki yfirgefið heimaríki fyrr en árið 1995. Kærandi telur að sú staðreynd að hann hafi ekki flúið heimaríki sitt fyrr en árið 1995 hafi ekkert með það að gera hvort skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt enda geti eðlilegar ástæður verið fyrir því að fólk sem hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir sé ekki kleift að flýja með hraði. Þá gerir kærandi athugasemd við umfjöllun Útlendingastofnunar um aðstæður í Kirkuk og að honum sé óhætt að snúa þangað. Kærandi telur að frásögn hans af einstaklingsbundnum aðstæðum hans leiði til þess að hann sé í meiri hættu en hinn almenni borgari í Kirkuk héraði og því beri að veita honum alþjóðlega vernd. Þar að auki sé hann súnní-Túrkmeni sem geri það að verkum að einstaklingsbundnir þættir séu til staðar óháð gildi frásagnar hans. Jafnframt gerir kærandi athugasemd við mat Útlendingastofnunar á því hvort skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt í máli hans. Kærandi byggir á því að ef hann verði sannarlega ekki talinn uppfylla skilyrði viðbótarverndar þá hljóti hann að uppfylla vægari mælikvarða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Að lokum mótmælir kærandi því mati Útlendingastofnunar að hann hafi ekki veitt aðstoð við úrlausn málsins og uppfylli þar af leiðandi ekki skilyrði d-liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi telur að hann hafi sannarlega veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn málsins. Í því sambandi vísar kærandi til þess að hann hafi sjálfur óskað eftir því að fá að hlusta á endurrit viðtals frá 4. nóvember 2020 sem hafi falið í sér misræmi við síðari frásögn hans og hann hafi við þá hlustun staðfest framburð sinn í því viðtali.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagagrundvöllur
Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Auðkenni
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram gögn sem séu til þess fallin að sanna á honum deili og sé auðkenni hans því ósannað. Að mati Útlendingastofnunar þyki ekki ástæða til að draga í efa að kærandi sé ríkisborgari Íraks og verði því gengið út frá því við úrlausn málsins. Að virtum gögnum málsins telur kærunefnd ekki ástæðu til að draga í efa þá niðurstöðu Útlendingastofnunar og verður því lagt til grundvallar að kærandi sé írakskur ríkisborgari.
Landaupplýsingar
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Írak m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:
- 2021 Country Reports on Human Rights Practices: Iraq (U.S. Department of State, 12. apríl 2022);
- 2021 Report on International Religious Freedom: Iraq (U.S. Department of State, 2. júní 2022);
- Country Guidance: Iraq (European Union Agency for Asylum (EUAA), júní 2022);
- Country Guidance: Iraq; Common analysis and guidance note (European Asylum Support Office, janúar 2021);
- Country of Origin Information Report - Iraq - Actors of Protection (European Asylum Support Office, nóvember 2018);
- Country of Origin Information Report - Iraq: Internal Mobility (European Asylum Support Office, febrúar 2019);
- Country of Origin Information Report - Iraq - Security situation (European Union Agency for Asylum, janúar 2022);
- Country Policy and Information Note – Iraq: Actors of protection (UK Home Office, desember 2020);
- Country Policy and Information Note - Iraq: Internal relocation, civil documentation and returns (UK Home Office, maí 2020);
- Country Policy and Information Note - Iraq: Humanitarian situation (UK Home Office, ágúst 2022);
- Country Policy and Information Note - Iraq: Security situation (UK Home Office, nóvember 2022);
- Country Policy and Information Note - Iraq: Sunni Arabs (UK Home Office, janúar 2021);
- DFAT Country Information Report Iraq (Australian Government, Department of Foreign Affairs and Trade, 16. janúar 2023);
- Sixteenth report of the Secretary-General on the threat posed by ISIL (Da´esh) to international peace and security and the range of United Nations efforts in support of Member States in countering the threat (UN Security Council, 1. febrúar 2023);
- Freedom in the World 2022 - Iraq (Freedom House, 28. febrúar 2022);
- Iraq: Fixing Security in Kirkuk (International Crisis Group, 15. júní 2020)
- Iraq: Relevant COI for Assessments on the Availability of an Internal Flight or Relocation Alternative (IFA/IRA) (UNHCR, 12. apríl 2017);
- Iraq - Targeting of Individuals (European Union Agency for Asylum, janúar 2022);
- Iraqi Turkmen: The Controversy of Identity and Affiliation (Friedrich-Ebert-Stiftung, Jordan & Iraq Office, ágúst 2021);
- Northern Iraq. Security situation and the situation for internally displaced persons (IDPs) in the disputed areas, incl. possibility to enter and access the Kurdistan Region of Iraq (KRI) (Danish Immigration Service, 5. nóvember 2018);
- UNHCR position on returns to Iraq (UNHCR, 14. nóvember 2016);
- Wilting in the Kurdish Sun – The Hopes and fears of Religious Minorities in Northern Iraq (United States Commission on International Religious Freedom, maí 2017);
- The World Factbook – Iraq (Central Intelligence Agency, uppfært 6. febrúar 2023);
- UNHCR Fact Sheet – Iraq (UNHCR, 13. febrúar 2022);
- Upplýsingasíða United States Institute of Peace (Iraq Timeline: Since the 2003 War | United States Institute of Peace (usip.org), sótt 9. febrúar 2023);
- World Report 2023 – Iraq (Human Rights Watch, 12. janúar 2023);
Írak er lýðræðisríki með tæplega 40 milljónir íbúa. Árið 1945 gerðist Írak aðili að Sameinuðu þjóðunum og fullgilti ríkið bæði alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1971. Ríkið fullgilti samning um afnám allrar mismununar gagnvart konum árið 1986, alþjóðasamning um vernd allra gegn mannshvörfum árið 2010 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2011.
Samkvæmt upplýsingasíðu leyniþjónustu Bandaríkjanna eru flestir Írakar arabar, n.t.t. 75-80%, og Kúrdar eru u.þ.b. 15-20%. Önnur þjóðarbrot séu til að mynda Túrkmenar, Yezidi, Shabak, Kaka´i og Bedouin. Í skýrslu EASO frá janúar 2021 kemur fram að Túrkmenar séu þriðja stærsta þjóðarbrotið í Írak. Séu Túrkmenar bæði súnní og sjía múslímar.
Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2021 um trúfrelsi kemur fram að íslam sé hin opinbera trú í Írak. Um 97% íbúa Íraks séu múslímar og flestir þeirra séu sjía-múslímar eða um 55-60% íbúa landsins. Þá séu um 40% íbúa landsins súnní-múslímar en um 15% íbúa séu súnní-múslímskir Kúrdar og 24% súnní-múslimískir arabar. Sjía-múslimar séu ráðandi í suður- og austurhlutum landsins auk þess sem flestir íbúar höfuðborgarinnar Bagdad séu sjía-múslimar. Íbúar norður- og vesturhluta landsins séu flestir súnní-múslimar sem og íbúar miðsvæðisins, þó að undanskilinni Bagdad.
Á vefsíðu Friðarstofnunar Bandaríkjanna (e. United States Institute of Peace) kemur fram að eftir að Saddam Hussein var steypt af stóli árið 2003, hafi nýir leiðtogar Íraks átt í erfiðleikum með að marka lýðræðislega stefnu eftir áratuga einræði og hafi einkum tvær aðgerðir átt veigamikinn þátt í því. Í fyrsta lagi hafi ákvörðun Bandaríkjanna um að útiloka Baath-flokkinn, sem hafi lengi verið við völd og hvernig það hafi verið útfært, frá stjórn ríkisins skapað pólitískt tómarúm. Í öðru lagi hafi sú aðgerð að leysa upp her landsins og útiloka hundruð þúsunda þjálfaðra manna frá störfum við varnir ríkisins, án þess að koma á fót öðrum valkostum, skilið eftir öryggistóm. Í kjölfarið hafi Írak mátt þola borgarastyrjöld, pólitíska ringulreið, víðtæka spillingu, spennu á milli flokka og öfgahópa sem hafi hertekið þriðjung landsins. Við þessa atburði hafi hið pólitíska valdajafnvægi sem ríkt hefði undir stjórn súnníta um aldir riðlast verulega. Sjítar hafi krafist forsætisráðuneytisins og haft nægilegt vald til að stjórna helstu ráðuneytum. Þá hafi í fyrsta skipti verið kúrdískur forseti í Írak og urðu Kúrdar, sem lengi höfðu krafist sjálfstjórnar frá Bagdad, hluti af ríkinu; stjórnarskráin viðurkenndi sjálfstjórn Kúrdistans héraðs (KRG) og formlega stöðu Peshmerga herafla hennar. Súnnítar, sem höfðu drottnað yfir ríkinu undir stjórn Saddams, hafi haldið lykilstöðu forseta þingsins en misst aðrar valdastöður. Árið 2011 ákváðu Bandaríkin að hverfa frá Írak með því samkomulagi við stjórnvöld í Bagdad að þau myndu innlima súnníta í íröksku öryggissveitirnar til að halda aftur af starfssemi sértrúarsafnaða. Íröksk stjórnvöld hafi hins vegar ekki fylgt því eftir að ráða minnihlutahópi súnníta í sína þjónustu og það hafi leitt til þess öfgasamtökin Islamic State in Iraq (ISI) hafi endurskipulagt sig og fengið til liðs við sig þúsundir súnníta innan og utan Íraks, þar á meðal fyrrverandi stjórnarhermenn. Árið 2013 hafi hernaður samtakanna færst yfir til Sýrlands og endurnefndu þau sig sem Islamlic State in Iraq and Syria (ISIS). Samtökin séu einnig þekkt sem ISIL (Islamic State in Iraq and the Levant (ISIL)) og Daesh (hér eftir verður Daesh notað). Fram kemur að hersveitir Daesh hafi hertekið Fallujah borg í desember 2013 og hafi írakski herinn, þrátt fyrir mun fleiri meðlimi, hrunið í kjölfarið. Í júní 2014 hafi Daesh náð þriðjungi landsins á sitt vald og hafi leiðtogi Daesh, Abu Bakr al-Baghdadi, lýst yfir stofnun íslamsks ríkis í Mósúl, næststærstu borg Íraks, og nefnt sig kalífa. Á árunum 2015 til 2017 hafi írakskar öryggissveitir, kúrdískar Peshmerga-sveitir og PMF sveitir, studdar af flugherjum frá bandalagi undir forystu Bandaríkjanna, smám saman náð landsvæðum frá Daesh. Í desember 2017 lýsti Haider al-Abadi forsætisráðherra yfir sigri gegn Daesh.
Af skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytis frá árinu 2021 má ráða að spilling sé mikið vandamál í Írak, þar á meðal í stjórnmálum, löggæslu- og réttarkerfinu. Á undanförnum árum hafi talsvert verið unnið að því að uppræta spillingu af hálfu embættismanna í landinu og eitthvað hafi miðað áfram í þeim málum. Í upplýsingaskýrslu EEAS frá árinu 2014 kemur fram að á tímabilinu 2005 til 2013 hafi íröksk stjórnvöld unnið í samstarfi við Evrópusambandið að umbótum á stofnunum ríkisins, svo sem lögreglu, dómstólum og fangelsum landsins. Áætlunin nefnist The European Union Integrated Rule of Law Mission for Iraq (EUJUST-LEX-Iraq) og hafi m.a. 7000 opinberir starfsmenn undirgengist þjálfun í því skyni að koma á skilvirkri laga- og mannréttindavernd í landinu.
Í skýrslu EASO (nú EUAA) frá janúar 2021 kemur fram að Kirkuk sé hérað í norðurhluta Íraks sem samanstandi af fjórum héruðum: Kirkuk, þar sem Kirkuk borg er staðsett, Dibis, Hawija (Al-Hawiga) og Daquq. Fram kemur að frá 2014 til 2017 hafi héraðið verið undir stjórn Daesh samtakanna og Peshmerga öryggissveita Kúrdistan. Hafi hersveitir írakska ríkisins náð stjórn yfir stærstum hluta héraðsins í október 2017. Nú séu engin svæði héraðsins undir yfirráðum Daesh en samtökin séu með virkni í héraðinu, einkum í Hawija og Daquq. Þá kemur fram að frá árinu 2020 hafi margir öryggisaðilar verið með starfssemi í Kirkuk héraði, svo sem írakski herinn, the Counter Terrorism Service, fylkingar PMU (Popular Mobilization Forces), svæðis- og ríkislögreglan og ýmsar leyniþjónustur. Séu PMF regnhlífarsamtök sem samanstandi af tæplega 67 mismunandi fylkingum sem telji um það bil 128 þúsund hermenn sem séu aðallega sjíta-múslimar. Í skýrslu EUAA frá árinu 2022 kemur fram að viðvera Daesh sé nokkur í Kirkuk héraði, einkum í Hawija og Daquq. Daesh hafi staðið að baki árásum á öryggissveitir og óbreytta borgara og ástandið sé verst á þeim svæðum sem enn ríki deilur um yfirráð á milli írakskra stjórnvalda og stjórnvalda í Kúrdistan. Sé það einkum vegna þess að á þeim svæðum ríki skipulagsleysi og óvissa um skipan öryggismála og eftirlits og Daesh nýti sér það ástand til þess að sækja fram. Árásum Daesh hafi fjölgað sumarið 2021 en dregið hafi úr þeim síðar það ár, en fjöldi atvika séu skráð mánaðarlega um allt héraðið.
Í skýrslu EASO (nú EUAA) frá október 2020 kemur fram að langvarandi deilur og átök um Kirkuk hérað hafi ríkt á milli íröksku miðstjórnarinnar og stjórnvalda í Kúrdistan en miklar olíulindir í Kirkuk héraðinu geri héraðið hernaðarlega mikilvægt. Í kjölfar hrun írakska hersins eftir átök við Daesh samtökin í Kirkuk árið 2014 hafi hersveitir Kúrda, Peshmerga, flutt sig inn á svæðið og leyst írakska herinn af hólmi. Hafi Kirkuk borg verið næstu þrjú árin undir stjórn kúrdíska PUK stjórnmálaflokksins (e. Patriotic Union of Kurdistan). Á þessum þremur árum hafi átök geisað milli Peshmerga sveitanna og Daesh samtakanna í Kirkuk. Í október 2017 hafi átt sér stað nokkrar breytingar á öryggisástandi í Kirkuk héraðinu og hafi íröksk stjórnvöld gripið til aðgerða til þess að hrekja Daesh frá síðasta vígi sínu í héraðinu, borginni Hawija. Í kjölfar ákvörðunar kúrdískra stjórnvalda um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Kúrdistan í september 2017, þar á meðal í Kirkuk, hafi stjórnvöld í Bagdad sent hersveitir sínar og lögreglu ásamt hersveitum PMF til Kirkuk. Eftir átök 15. til 21. október 2017 hafi alríkisstjórn Íraks náð aftur yfirráðum yfir stærstum hluta Kirkuk-héraðs. Í skýrslu EUAA frá janúar 2022 kemur fram að í ágúst 2021 hafi alríkisstjórnin í Írak og stjórn Kúrdistan samþykkt að stofna sameiginlegar öryggissveitir til að starfa á varnarsvæðum sem aðskilja þeirra svæði í Kirkuk, Ninawa og Diyala héruðunum. Þá hafi ennfremur verið lýst yfir að sex sameiginlegar samhæfingarmiðstöðvar hefðu verið settar á laggirnar, þar af ein í Kirkuk. Í september 2021 hafi svo verið tilkynnt um sameiginlega starfsemi Peshmerga og alríkisherja til að elta uppi meðlimi Daesh á varnarsvæðunum. Í skýrslu UK Home Office frá nóvember 2022 kemur fram að samkvæmt skýrslu Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna frá apríl sama ár hafi Daesh haldið áfram að gera árásir í Írak, aðallega í Anbar, Bagdad, Babil, Diyala, Kirkuk, Ninawa og Salah al-Din héruðunum. Frá 24. febrúar til 2. apríl 2022 hafi 69 árásir, aðallega á öryggissveitir, verið raktar til Daesh. Þá kemur fram að Daesh herji aðallega á öryggissveitir í Írak, auk leiðtoga samfélagsins, óbreytta borgara sem þeir telji hafa átt í samstarfi við íröksk yfirvöld og flutningabíla írakskra fyrirtækja sem flytji vistir fyrir aðila sem beiti sér gegn Daesh. Samkvæmt skýrslu EUAA frá júní 2022 á sér stað handahófskennt ofbeldi í Kirkuk héraði sem þó sé ekki á háu stigi. Að mati stofnunarinnar nái ástandið í héraðinu ekki því alvarleikastigi að írakskir ríkisborgarar eigi, vegna þess eins að þeir snúi aftur til héraðsins, á hættu að verða fyrir ofbeldi eða vanvirðandi meðferð sem nái því stigi að þeir eigi rétt á viðbótarvernd í skilningi 15. gr. (c) reglugerðar nr. 2011/95/EU.
Fram kemur í framangreindri skýrslu EASO frá janúar 2021 að fjölbreyttur og blandaður hópur íbúa af ýmsum þjóðernum, s.s. arabar, Kúrdar og Túrkmenar, og trúarbrögðum búi í Kirkuk en langstærsti trúarhópur í héraðinu sé súnní-múslímar. Þá kemur fram að PMF sveitirnar beini sjónum sínum aðallega að súnní-Túrkmenum og súnní-aröbum vegna gruns um tengsl þeirra við Daesh. Fram kemur að hersveitir Íraks og KRI hafi skimað þúsundir einstaklinga á flótta frá svæðum sem hafi verið undir yfiráðum Daesh vegna gruns um aðild að samtökunum. Grunur um tengsl einstaklings við Daesh sé byggður á ýmsum þáttum; svo sem að vera karlmaður eða drengur á bardaga aldri, fjölskyldutengsl viðkomandi við meinta Daesh meðlimi, heita svipuðu nafni og nafn á lista yfir þá sem séu eftirlýstir og meint tengsl við ættbálk sem talinn sé hafa veitt Daesh stuðning, hvort sem einstaklingur hafi búið á og/eða flúið frá svæði sem áður hafi verið í haldi Daesh. Fram kemur að stór hópur fólks á flótta innanlands í Írak séu Túrkmenar. Þá hafi verið heimildir um það að hersveitir Peshmerga og PMF hafi komið í veg fyrir að súnní-Túrkmenar sem séu á flótta innanlands gætu snúið aftur til heimasvæða sinna sem hafi verið frelsuð undan yfirráðum Daesh.
Í sömu skýrslu EUAA kemur fram að ekki allir súnní-Túrkmenar standi frammi fyrir hættu að nægji til að um sé að ræða rökstuddan ótta við ofsóknir. Einstaklingsmat á því hvort sanngjarnar líkur séu á að umsækjandi verði fyrir ofsóknum eða ekki ætti að taka tillit til áhættuþátta, svo sem: upprunasvæðis (t.d. sjía-Túrkmena á svæðum þar sem Daesh heldur áfram að starfa) og grunaðra tengsla við Daesh (sérstaklega fyrir súnní-túrkmena), trú, kyn o.s.frv. Tiltækar upplýsingar bendi til þess að ofsóknir gegn þessu hópi séu vegna kynþáttar (þjóðernis) og/eða trúarbragða og í sumum tilfellum, sérstaklega fyrir súnní-Túrkmena, (ætlaðar) stjórnmálaskoðanir.
Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:
Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.
Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
Ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.
Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:
a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök samkvæmt b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.
Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.
Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).
Kærandi byggir kröfu sína um alþjóðlega vernd á því að hann eigi á hættu ofsóknir vegna trúarbragða og þjóðernis og aðildar tilteknum þjóðfélagshópi. Auk þess byggir kærandi á því að samsafn ástæðna eigi við í máli hans. Kærandi sé súnní múslími og Túrkmeni frá Kirkuk og af þeirri ástæðu hafi hann ástæðuríkan ótta við ofsóknir af hálfu vopnaðra hópa, yfirvalda og almennings í Írak. Kærandi hafi sætt ofbeldi og pyntingum um nokkurra mánaða skeið þegar hann hafi setið í fangelsi í heimaríki. Þá óttist kærandi hóp Araba sem tilheyri Al-Jaburi ættbálknum. Auk þess að óttast vopnahópa og stjórnvöld Kirkuk vegna þess að hann sé súnní múslími og Túrkmeni.
Í viðtali hjá Útlendingastofnun 6. janúar 2022 greindi kærandi frá því aðspurður um ástæður flótta frá heimaríki að Arabar sem hefðu átt búgarð nálægt bóndabýli fjölskyldu kæranda hafi skotið bróður hans. Kærandi og bræður hans hefðu ákveðið að hefna fyrir morðið. Einn af Aröbunum hafi komið til þeirra og hótað föður þeirra með byssu. Faðir kærandi hafi lent í átökum við Arabann og kærandi náð byssunni og skotið manninn þrisvar sinnum. Kærandi hafi verið tekinn af lögreglunni og hafi dómstólar dæmt hann í fimm ára fangelsi. Í fangelsinu hafi kærandi sætt pyntingum. Þetta hafi gerst árið 1989 þegar kærandi hafi verið 13 ára og árið 1993 hafi honum verið sleppt úr fangelsinu.
Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurritum af viðtölum við hann hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda.
Í ákvörðun sinni reifaði Útlendingastofnun misræmi í framburði kæranda í viðtölum hjá stofnuninni og misræmi í viðtölum í málsmeðferð hans í Ungverjalandi. Kærandi hafi við málsmeðferð hjá ungverskum stjórnvöldum byggt umsókn sína um alþjóðlega vernd í Ungverjalandi á sambærilegum málsástæðum og hann byggi á hér á landi. Það er, að hann hafi flúið heimaríki af ótta við Araba af Jaburi ættbálknum, sem hafi viljað hefna fyrir skotárás hans á meðlim ættbálksins. Að mati Útlendingastofnunar hefði kærandi ekki fært fram trúverðugar skýringar á ástæðum misræmis í framburði og ástæðum þess að hann hafi gefið íslenskum og ungverskum stjórnvöldum villandi upplýsingar. Var það mat Útlendingastofnunar að framangreint leiddi, heildstætt metið, til þess að frásögn kæranda og lýsingar á ástæðum flótta væri með öllu ótrúverðug og yrði því ekki lögð til grundvallar í máli hans. Þá var það niðurstaða Útlendingastofnunar að kærandi hefði ekki með rökstuddum hætti gert það sennilegt að hann ætti á hættu að sæta viðbrögðum, snéri hann aftur til Kirkuk borgar, frá meðlimum Al-Jaburi ættbálksins vegna deilu um land sem hafi átt sér stað 1989.
Þrátt fyrir að misræmi hafi verið í framburði kæranda fyrir íslenskum og ungverskum stjórnvöldum um atriði sem kærandi ætti að geta verið staðfastur um á milli viðtala þá hefur hann nokkurn veginn haldið sig við þann framburð hjá báðum stjórnvöldum að hafa skotið mann í heimaríki árið 1989, verið dæmdur í fangelsi og afplánað refsingu en hafi svo flúið landið árið 1995 vegna ótta við hefndaraðgerðir meðlima Al-Jaburi ættbálksins. Að mati kærunefndar er ekki ástæða til að draga þá frásögn í efa þrátt fyrir misræmi í framburði kæranda um hvernig aðdragandinn að skotinu hafi verið, hver hafi hvatt til hefnda á morði bróður kæranda og hversu mörgum skotum kærandi hafi skotið. Samkvæmt framangreindu leggur kærunefnd því til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi hafi skotið á mann í heimaríki við þrettán ára aldur, verið dæmdur í fimm ára fangelsi, þar sem hann hafi orðið fyrir pyntingum, og yfirgefið heimaríki sitt árið 1995.
Kærandi hefur hins vegar ekki lagt gögn fram eða leitt líkur að því að honum stafi enn ógn af meðlimum Al-Jaburi ættbálknum, tæpum 34 árum eftir umræddan atburð. Af tölvubréfi talsmanns kæranda til kærunefndar 8. júní 2022 má ráða að kærandi eigi fjölskyldu og kunningja í heimaríki og af frásögn kæranda í viðtölum hjá Útlendingastofnun verður ekki séð að þau hafi orðið fyrir áreiti vegna framangreindrar atburðarrásar. Þá hefur kærandi greint frá því að ættbálkur hans telji á bilinu 10 til 100 þúsund manns og að Túrkmenar telji margar milljónir og séu dreifðir um fjölda landa. Aðspurður í viðtölum hjá Útlendingastofnun um hvað hann óttaðist í heimaríki kvaðst kærandi óttast að einhver af Al-Jaburi ættbálkinum myndi drepa sig en að vandamál á milli ættbálks hans og þessa ættbálks væru ekki aðeins landadeilur og að Túrkmenar, þá sérstaklega ættbálkur kæranda séu ekki hrædd við dauðann. Kærandi kvaðst ekki geta leitað til yfirvalda þar sem þau séu glæpamenn. Það er mat kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti lagt grunn að þeirri málsástæðu sinni að hann eigi á hættu að verða beittur ofbeldi eða myrtur af hálfu meðlima Al-Jaburi ættbálksins vegna þeirra atburða sem áttu sér stað árið 1989.
Umsókn kæranda um alþjóðlega vernd er einnig byggð á því að hann sé í aukinni hættu í Írak vegna þess að hann sé súnní múslimi og Túrkmeni. Af þeim sökum telur kærandi að samsafn athafna eigi að leiða til þess að honum verði veitt alþjóðleg vernd, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Líkt og að framan er rakið eru súnní múslimar í miklum meirihluta í Kirkuk héraðinu. Af framangreindum gögnum um aðstæður í Írak verður ráðið að einstaklingar af túrkmenskum uppruna hafi orðið fyrir mikilli mismunun og skerðingu á réttindum á valdatímum Saddam Hussein og verið kerfisbundið fjarlægðir úr valdastöðum, svo sem úr embættum í hernum. Þá verður af framangreindum gögnum ráðið að yfirvöld beini spjótum sínum einkum að súnní-aröbum og súnní-Túrkmenum vegna gruns um tengsl þeirra við Daesh samtökin. Eigi það einkum við um karlmenn eða drengi á bardagaaldri, fjölskyldutengsl þeirra við meinta meðlimi Daesh, einstaklinga sem heita svipuðu nafni og nafn á lista yfir þá sem séu eftirlýstir og meint tengsl þeirra við ættbálka sem taldir séu hafa veitt Daesh stuðning. Að mati kærunefndar er ekkert í frásögn kæranda sem gefur til kynna að hann falli undir framangreind viðmið sem gætu valdið grunsemdum hjá yfirvöldum í Írak. Þá má ráða af framburði kæranda í viðtölum hjá Útlendingastofnun að fjölskylda kæranda hafi búið að mestu óáreitt í heimaríki hans. Samkvæmt frásögn kæranda hafi hann yfirgefið heimaríki sitt árið 1995 og dvalið í Tyrklandi og Evrópu síðan þá.
Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar má ráða að einstaklingar af þjóðarbroti Túrkmena kunni að eiga hættu á einhverri mismunun í heimaríki kæranda af þeirri ástæðu að þeir tilheyri þjóðarbrotinu. Ekkert í þeim gögnum gefur þó til kynna að sú mismunun nái því marki að teljast ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að staða kæranda sé verri en almennt gerist fyrir einstaklinga í hans stöðu. Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að aðstæður kæranda vegna uppruna hans og trúar séu því ekki þess eðlis að þær eigi undir 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna. Í ljósi þess, og að virtum gögnum málsins, telur kærunefnd að samlegðaráhrif þeirra atriða sem kærandi hefur vísað til sem hugsanlegar ástæður ofsókna séu ekki þess eðlis eða nái því marki að hann teljist eiga á hættu ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi ástæðu til að óttast ofsóknir í heimaríki af öðrum ástæðum.
Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að óttast ofsóknir af hálfu írakskra yfirvalda sem gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að kærandi eigi slíkar ofsóknir á hættu. Þrátt fyrir að gögn um Írak beri það með sér að skilvirkni lögregluyfirvalda og dómstóla í heimaríki kæranda geti verið að einhverju leyti ábótavant þá er það mat kærunefndar að kærandi geti leitað til yfirvalda verði hann fyrir refsiverðum brotum. Þá benda heimildir um heimaríki kæranda ekki til þess aðgangur kæranda að aðstoð yfirvalda sé takmarkaður á grundvelli þess að hann sé Túrkmeni. Að framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar að ekki hafi verið sýnt fram á að stjórnvöld í heimaríki kæranda skorti vilja eða getu til að veita honum viðeigandi aðstoð eða vernd gegn athöfnum sem feli í sér hótanir, áreiti eða ofbeldi, m.a. með því að ákæra og refsa fyrir þær athafnir, sbr. 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga telji hann sig þurfa á slíkri aðstoð að halda.
Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.
Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.
Við mat á því hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).
Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur lagst gegn endursendingum einstaklinga til Íraks sem koma frá þeim svæðum þar sem átök geisa; þar sem ástandið er brothætt eða óöruggt eftir að hafa verið undir stjórn Daesh samtakanna, eða þeim svæðum þar sem Daesh er enn við völd. Þá telur Flóttamannstofnun óráðlegt að senda einstaklinga frá slíkum svæðum til annarra svæða innan Íraks. Líkt og rakið er að framan í umfjöllun um aðstæður í Kirkuk héraðinu var héraðið frelsað undan yfirráðum Daesh í september árið 2017. Hins vegar hafa Daesh haldið áfram hryðjuverkaárásum í héraðinu. Árásirnar hafa einkum beinst gegn hersveitum yfirvalda á dreifbýlissvæðum héraðsins. Nýlegar skýrslur um öryggisástand í héraðinu, þ. á m. skýrslur EUAA frá júní 2022 og UK Home Office frá nóvember 2022, benda til þess að ástandið í héraðinu sé nokkuð stöðugt, einkum í Kirkuk borg.
Samkvæmt EASO eigi írakskir ríkisborgarar, sem snúi aftur til héraðsins, almennt ekki á hættu að verða fyrir ofbeldi eða vanvirðandi meðferð sem nái því stigi að þeir eigi rétt á viðbótarvernd. Þá benda framangreindar heimildir um aðstæður í Írak til þess að lögregla og öryggissveitir hafi að mestu leyti stjórn á aðstæðum í Kirkuk. Verður því ekki talið að viðvörun Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna eigi við um einstaklinga sem séu í sambærilegri stöðu og kærandi.
Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefnd að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga
Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.
Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Þá segir í athugasemdunum að með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti sé einnig vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum.
Líkt og að framan er rakið er í greinargerð til kærunefndar vísað til greinargerðar kæranda, dags. 22. apríl 2022, sem lögð var fram til kærunefndar í fyrra kærumáli hans fyrir nefndinni hvað varðar helstu málsástæður og lagarök fyrir kröfum hans. Í framangreindri greinargerð kemur fram að kærandi byggi kröfu sína um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða á því að hans bíði erfiðar félagslegar aðstæður í Írak. Kærandi tilheyri minnihlutahópi súnní Túrkmena sem hafi verið áreittur og þurft að þola mismunun af hálfu Araba, vopnahópa og stjórnvalda á heimasvæði hans. Þá eigi kærandi ekkert bakland í heimaríki en fjölskyldumeðlimir hans séu ýmist látnir eða hafi flúið Írak.
Líkt og að framan er rakið hefur kærunefnd komist að því að kæranda sé óhætt að snúa aftur til heimasvæði síns við Kirkuk borg. Af þeim gögnum og skýrslum sem kærunefnd hefur farið yfir má draga þá ályktun að þrátt fyrir að ótryggt ástand ríki á ákveðnum landsvæðum í heimaríki kæranda þá teljist svæðið þar sem kærandi hafði búsetu nægilega öruggt svæði. Í Kirkuk borg sé jafnframt virkt refsivörslukerfi sem geti veitt kæranda viðeigandi vernd. Þá hefur kærunefnd komist að því að þrátt fyrir að einstaklingar af túrkmenskum uppruna verði fyrir einhverri mismunun í Írak, þar með talið í Kirkuk, þá verður ekki ráðið af framangreindum gögnum að einstaklingar af túrkmenskum uppruna verði nú fyrir kerfisbundnum ofsóknum eða verði almennt fyrir illri meðferð eða mismunun í Írak.
Af gögnum málsins má ráða að kærandi sem er tæplega 44 ára gamall maður sé almennt heilsuhraustur og vinnufær. Þá má af gögnum málsins ráða að hann eigi fjölskyldumeðlimi og kunningja í heimaríki og tilheyri stórum ættbálki í heimaríki. Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að félagslegar aðstæður kæranda við endurkomu til heimaríkis séu ekki með þeim hætti að þær teljist erfiðar í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæðinu, að því tilskildu að skorið hafi verið úr um að hann uppfylli ekki skilyrði 38. gr. og 39. gr. laganna. Frekari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis í þeim tilvikum koma fram í a- til d-lið 2. mgr. 74. gr. laganna en þau er að tekin hafin hafi verið skýrsla af umsækjanda um alþjóðlega vernd, ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er, ekki liggi fyrir ástæður sem geta leitt til brottvísunar umsækjanda og að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls.
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd 10. október 2020. Kærandi hefur ekki enn fengið niðurstöðu í máli sínu hjá kærunefnd útlendingamála. Frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þar til úrskurður þessi er kveðinn upp, dags. 16. febrúar 2020, eru liðnir rúmir 28 mánuðir. Kærandi telst því ekki hafa fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan þeirra tímamarka sem getið er í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Við komuna til landsins lagði kærandi fram ungversk skilríki sem staðfestu að hann hefði verið handhafi alþjóðlegrar verndar þar í landi. Í viðtali hjá Útlendingastofnun 6. janúar 2022 greindi kærandi frá því að ungversk yfirvöld hefðu haldlagt auðkennisgögn hans. Í svari frá ungverskum yfirvöldum, dags. 26. apríl 2022, kom fram að kærandi hefði ekki lagt fram nein gögn til þeirra þar sem hann hefði fullyrt í viðtali hjá þeim að hann hefði glatað öllum skilríkjum sínum. Hinn 8. júní 2022 lagði talsmaður kæranda fram með tölvubréfi til kærunefndar afrit af íröksku kennivottorði kæranda. Fram kom í tölvubréfi frá talsmannsins að að kennivottorðið hafi verið útgefið árið 1994 af írökskum stjórnvöldum og sé það ritað á arabísku. Kærandi hefði hins vegar ekki frumrit vottorðsins undir höndum en hann hefði reynt að fá fjölskyldumeðlimi og kunningja til að senda frumrit þess hingað til lands. Þar sem um er að ræða óskýrt afrit af kennivottorði er ekki hægt að senda það til skilríkjarannsóknar í áreiðanleikakönnun í því skyni að meta sönnunargildi þess. Að framangreindu virtu verður því ekki lagt til grundvallar að kærandi hafi sýnt fram á auðkenni sitt.
Að mati kærunefndar er skilyrði b-liðar 2. mgr. 74. gr. því ekki uppfyllt. Þar sem kærandi uppfyllir ekki skilyrði b-liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verður honum ekki veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laganna.
Bann við endursendingu samkvæmt 42. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.
Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.
Athugasemdir kæranda við málsmeðferð Útlendingastofnunar
Í greinargerð kæranda eru gerðar ýmsar athugasemdir við málsmeðferð Útlendingastofnunar. Kærandi telur að við trúverðugleikamat sitt hafi Útlendingastofnun virt að vettugi málsástæðu hans um tungumálaörðugleika við túlkanir í viðtölum. Hafi þessir tungumálaörðugleika leitt til þess að misræmi hafi verið í framburð hans á milli viðtala og í viðtölum við málsmeðferð í Ungverjalandi. Kunnátta kæranda í arabísku sé um 60% og þá skilji hann illa mismunandi mállýskur í arabísku.
Kærunefnd hefur farið yfir öll gögn málsins er lúta að viðtölum við kæranda. Verður ekki betur séð en að almennt hafi kærandi skilið arabíska túlkun þar sem hann gefur alla jafna viðeigandi svör við spurningum fulltrúa Útlendingastofnunar og heilbrigðisstarfsmanna. Af endurritum viðtala við kæranda hjá Útlendingastofnun má sjá að við upphaf þeirra hafi kærandi verið spurður að því hvort hann skildi túlkinn sem hafi túlkað á arabísku. Þá hafi kæranda einnig verið kynnt þær leiðbeiningar að láta fulltrúann vita ef hann skildi ekki túlkinn almennilega. Í endurriti viðtals hjá Útlendingastofnun 24. júní 2022 var bókað að viðtalinu yrði frestað þar sem kærandi skildi ekki símtúlkinn. Kærandi hefur notið aðstoðar talsmanns frá því í fyrsta viðtali kæranda hjá Útlendingastofnun 4. nóvember 2020. Síðan þá hefur kærandi komið í fjögur viðtöl og þá hefur hann lagt fram samtals sex greinargerðir til stjórnvalda vegna mála sinna. Kærandi hefur því haft næg tækifæri til að koma á framfæri ósk um sérstakan túlk en hvorki kærandi né talsmenn hans hafa séð ástæðu til að óska eftir því. Þá liggja fyrir leiðbeiningar Útlendingastofnunar, dags. 4. nóvember 2020, á arabísku sem kærandi undirritaði. Með hliðsjón af framangreindu fellst kærunefnd ekki á það með kæranda að kunnátta hans í arabísku sé með þeim hætti að allt misræmi í framburði hans fyrir Útlendingastofnun eigi að rekja til misskilnings á milli hans og þeirra túlka sem hafi túlkað fyrir hann.
Kærunefnd hefur farið yfir hina kærðu ákvörðun og málsmeðferð stofnunarinnar og telur ekki tilefni til þess að gera athugasemdir þar um. Þá hefur kærunefnd endurskoðað alla þætti málsins og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun.
Frávísun og frestur til að yfirgefa landið
Kærandi kom hingað til lands 10. október 2020 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.
Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.
Samantekt
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.
Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.
Tómas Hrafn Sveinsson
Sindri M. Stephensen Þorbjörg I. Jónsdóttir