Hoppa yfir valmynd
4. apríl 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

ILO horfir til árangurs Norðurlanda á sviði jafnlaunastefnu og símenntunar

Fremsta röð frá vinstri: Ásmundur Einar Daðason, félags og barnamálaráðherra, Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, Ylva Johansson, atvinnumálaráðherra Svíþjóðar og Guy Ryder, forstjóri Alþjóðavinnumálsastofnunarinnar. Fyrir miðju í annarri röð er Anniken Hauglie, atvinnu- og félagsmálaráðherra Noregs. Á myndinni má einnig sjá fulltrúa aðila vinnumarkaðarins og embættismenn þeirra atvinnumálaráðherra Norðurlandanna sem ekki gátu þegið boð á fundinn. - myndFélagsmálaráðuneytið. Myndir: BIG

„Það besta við vinnumarkaðslíkan Norðurlanda er að það virkar.“ Þetta sagði Guy Ryder, forstjóri Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, á fundi með atvinnumálaráðherrum Norðurlanda í Reykjavík á miðvikudag. Norðurlönd þurfa eins og önnur lönd að leggja sig fram um að viðhalda háu menntunarstigi, félagslegu réttlæti og efnahagslegu öryggi á vinnumarkaði framtíðar en þau hafa þegar tekið veigamikil skref á sviði símenntunar.

Atvinnumálaráðherrar Norðurlanda hittu Guy Ryder 3. apríl síðastliðinn og ræddu hvernig tryggja megi sjálfbæran vinnumarkað í framtíðinni í gegnum stefnumótun og samstarf milli aðila. Fundurinn var haldinn í tengslum við skýrslu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar „Work for a brigther future“, en stofnunin fagnar aldarafmæli sínu um þessar mundir. Í skýrslunni eru kynntar tíu aðgerðir til að varðveita eða efla rétt fólks til efnahagslegs öryggis, félagslegs réttlætis og kynjajafnréttis á vinnumarkaði framtíðar - þar sem takast verður á við hraða tækniþróun, hækkandi meðallífaldur og ójöfnuð á alþjóðavísu.

Norræna líkanið er lausnamiðað

Alþjóðavinnumálastofnunin telur að Norðurlönd geti verið fyrirmynd fyrir önnur lönd og veitt þeim innblástur. Vinnumarkaðslíkan Norðurlanda er lausnamiðað og lagar sig að breyttum aðstæðum á sama tíma og það stendur vörð um samstarfið á milli aðila vinnumarkaðarins, sem er grundvöllur líkansins, segir Guy Ryder. Umræðurnar snerust um hvernig mætti tryggja að fólk hafi rétta menntun fyrir störf framtíðar og einnig að konur og karlar hafi sömu tækifæri til starfsframa.

Frá orðum til athafna

Við höfum lengi talað um símenntun og nú er kominn tími til að halda áfram. Í Svíþjóð erum við að undirbúa ný tækifæri fyrir starfsfólk til að taka sér eins árs námsleyfi og fá greiðslur sem jafnast á við atvinnuleysisbætur á meðan. Vinnuveitandinn þarf þá að ráða afleysingarmann á meðan, sagði Ylva Johansson, ráherra atvinnumála í Svíþjóð.
Anniken Hauglie, ráðherra atvinnu- og félagsmála í Noregi, sagði að menntunarþörf á norskum vinnumarkaði væri greinilega orðin meiri. Eftir margra ára tímabil þar sem fyrirtæki og störf voru færð úr landi, eru þau nú byrjuð að snúa aftur heim til Noregs. Þessi fyrirtæki þurfa hámenntað starfsfólk og það er næstum ómögulegt að fá starf án þess að hafa réttu menntunina. Í Noregi ákváðum við nýlega framlög á fjárlögum og sömdum við aðila vinnumarkaðarins til að geta fjárfest í framhaldsmenntun í fjölda atvinnugreina, sagði hún.

Þríhliða samkomulag um framhaldsmenntun í Danmörku
Troels Blicher Danielsen deildarstjóri, sem sat fundinn í stað danska atvinnumálaráðherrans, sagði að þótt störf væru ekki að hverfa í Danmörku gæti 40% vinnustunda sjálfvirknivæðst fyrir árið 2025 með núverandi tækni. Við þessari þróun er aðeins ein lausn og hún er menntun. Við höfum gert þríhliða samkomulag um framhaldsmenntun upp á 2,5 milljarða danskra króna. Það mun gera fleirum kleift að afla sér frekari menntunar eða þjálfunar og hjálpa okkur að koma í veg fyrir flöskuhálsa á vinnumarkaði.

Fjárfestum í kynjajafnrétti

Ein þeirra tíu nauðsynlegu aðgerða sem kynntar eru í skýrslu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar snýr að því að þjóðir heims innleiði umbætur sem tryggja raunverulegt kynjajafnrétti á vinnumarkaði – til dæmis með því að fjárfesta í fæðingarorlofi og umönnunarúrræðum fyrir börn og aldraða. Á Norðurlöndum hefur Ísland verið í forystu bæði þegar kemur að jafnlaunastefnu og því að hvetja feður til að taka lengra fæðingarorlof.
Það var ákveðin bylting þegar við innleiddum ný lög um fæðingarorlof sem eyrnamerkti feðrum þrjá mánuði og mæðrum þrjá mánuði, því að það varð til þess að feður nýttu fæðingarorlofið sitt. Þessi lagabreyting hefur haft í för með sér verulegar samfélagslegar breytingar og hún er ein af ástæðum þess að atvinnuþátttaka kvenna er hærri hér en í nokkru öðru OECD-landi, sagði Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Launatölur eftir kyni

Guy Ryder sagði að íslenska jafnlaunastefnan hefði þegar orðið öðrum löndum innblástur, til dæmis þyrftu fyrirtæki í Bretlandi nú að framvísa skýrslum um launatölur eftir kyni.
Þetta eru lykilatriði í umræðum um framtíðina á vinnumarkaði. Það sem við höfum reynt að gera síðustu áratugi til að jafna laun og auka kynjajafnrétti er ekki nóg. Við þurfum skapandi lausnir. Fæðingarorlof mun verða mjög mikilvægt málefni og þar eru Norðurlönd í fararbroddi, sagði Guy Ryder.

Nýtt verkefni um konur í raungreinum

Atvinnumálaráðherrar Norðurlanda ákváðu einnig á fundinum að setja af stað nýtt verkefni sem snýr að jafnrétti á hátæknivæddum vinnumarkaði framtíðar. Markmiðið með verkefninu er að skoða hvernig Norðurlönd geta fjölgað konum í tækni- og verkfræðinámi.

Ráðstefna í Reykjavík

Í kjölfar ráðherrafundarins hófst tveggja daga ráðstefna í Reykjavík þar sem saman koma sérfræðingar, fræðimenn, fulltrúar verkalýðsfélaga og atvinnurekenda auk stjórnmálamanna. Á fyrri degi ráðstefnunnar í dag var fyrst og fremst fjallað um þær áskoranir sem vinnumarkaðslíkan Norðurlanda stendur frammi fyrir. Á öðrum degi hennar á morgun verður fjallað um jafnrétti kynjanna og jafnlaunastefnu.

Nánari upplýsingar og frekari dagskrá ráðstefnunnar er að finna á ilo2019.is

Þar má auk þess nálgast beint streymi.

 

  • ILO horfir til árangurs Norðurlanda á sviði jafnlaunastefnu og símenntunar - mynd úr myndasafni númer 1
  • ILO horfir til árangurs Norðurlanda á sviði jafnlaunastefnu og símenntunar - mynd úr myndasafni númer 2
  • ILO horfir til árangurs Norðurlanda á sviði jafnlaunastefnu og símenntunar - mynd úr myndasafni númer 3
  • ILO horfir til árangurs Norðurlanda á sviði jafnlaunastefnu og símenntunar - mynd úr myndasafni númer 4
  • ILO horfir til árangurs Norðurlanda á sviði jafnlaunastefnu og símenntunar - mynd úr myndasafni númer 5
  • ILO horfir til árangurs Norðurlanda á sviði jafnlaunastefnu og símenntunar - mynd úr myndasafni númer 6

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta