Mál nr. 209/2023 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 209/2023
Miðvikudaginn 10. maí 2023
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.
Með rafrænni kæru, móttekinni 24. apríl 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 14. desember 2022, þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur með umsókn 20. september 2022. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 14. desember 2022, var umsókn kæranda synjað á þeim forsendum að hún uppfyllti ekki skilyrði staðals og var henni bent á áframhaldandi endurhæfingu. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi stofnunarinnar og var hann veittur með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. desember 2022.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 24. apríl 2023. Með bréfi, dags. 26. apríl 2023, var kæranda tilkynnt að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og var henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hún að skilyrði, sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, gætu átt við í málinu. Athugasemdir bárust frá kæranda 1. maí 2023.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru kemur fram að kærandi óski eftir endurmati hjá öðrum skoðunarlækni. Læknisskoðunin hafi orsakað kvíðakast hjá kæranda og hún hafi ekki náð ekki að tjá sig rétt í skoðuninni. VIRK, sálfræðingar og geðlæknar hafi bent kæranda á að örorka væri besti kosturinn fyrir hana, að svo stöddu. Auk þess hafi henni verið bent á að endurhæfing væri langsótt fyrir hana að sinni, þrátt fyrir aðkomu Janusar endurhæfingar, VIRK, þunglyndis- og kvíðateymis Landspítalans og annarra. Þess vegna hafi það komið kæranda á óvart að henni hafi verið synjað og telji hún að það megi reka til kvíða hennar og meðvirkni.
Í athugasemdum kæranda frá 1. maí 2023 greinir kærandi frá því að í langan tíma hafi hún verið langt niðri sökum þunglyndis og kvíða. Henni hafi láðst að athuga skilaboð frá Tryggingastofnun í langan tíma þar sem hún hafi átt erfitt með að halda athygli og áhuga á minnstu hlutum. Kærandi hafi talið sig hafa verið að fylgjast með tölvupóstinum en skilaboðin hafa greinilega farið fram hjá henni. Kærandi sé einungis að fara fram á endurmat þar sem vanlíðan og meðvirkni hafi borið hana ofurliði í viðtalinu og ef til vill hafi hún fegrað ástand sitt. Kærandi hafi reynt að taka þátt í öllum þeim endurhæfingarúrræðum sem hafi verið í boði. Vegna COVID-19 hafi sum af þessum úrræðum frestast sem hafi ekki bætt andlegu heilsu hennar. Kærandi sé alls ekki vinnufær og hafi ekki verið lengi og sé því alveg tekjulaus. Að sjálfsögðu sé markmiðið að komast aftur út á vinnumarkaðinn en að sögn fagaðila séu endurhæfingarúrræði fullreynd núna og þess vegna hafi hún sótt um örorkulífeyri.
III. Niðurstaða
Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 14. desember 2022 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur hafi verið synjað.
Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun.
Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.
Samkvæmt 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefst kærufrestur ekki fyrr en rökstuðningur hefur verið tilkynntur aðila, fari hann fram á rökstuðning samkvæmt 21. gr. laganna.
Samkvæmt gögnum málsins liðu rúmir fjórir mánuðir frá því að kæranda var tilkynnt um rökstuðning fyrir hinni kærðu ákvörðun 22. desember 2022 þar til kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 24. apríl 2023. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar var því liðinn þegar kæran barst nefndinni.
Í 28. gr. stjórnsýslulaga segir:
„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:
1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða
2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.
Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“
Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort atvik séu með þeim hætti að afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.
Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 22. desember 2022 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Í kæru kemur fram að ástæður þess að kæra hafi borist seint séu meðal annars þær að kærandi hafi ekki tekið eftir því að henni hafi borist skilaboð í tölvupósti og í því sambandi nefnir hún kvíða, þunglyndi og athyglisskort. Úrskurðarnefndin telur að skýringar kæranda á ástæðum þess að kæra hafi borist að liðnum kærufresti séu ekki þess eðlis að unnt sé að líta svo á að afsakanlegt sé að kæran hafi ekki borist fyrr. Þá verður ekki heldur séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, enda virðist ekkert vera því til fyrirstöðu að kærandi geti sótt um örorkulífeyri á ný.
Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
_______________________________________
Rakel Þorsteinsdóttir