Ingi Valur Jóhannsson settur umboðsmaður skuldara
Ingi Valur Jóhannsson hefur verið settur tímabundið til að gegna embætti umboðsmanns skuldara í kjölfar þess að Runólfur Ágústsson sagði sig frá embættinu í gær.
Ingi Valur er deildarstjóri í félags- og tryggingamálaráðuneytinu. Hann er félagsfræðingur að mennt og hefur til margra ára unnið að húsnæðismálum í félags- og tryggingamálaráðuneytinu, auk annarra verkefna. Ingi Valur tók þátt í að koma á fót Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna og sat í framkvæmdastjórn hennar frá upphafi til ársins 2007, lengst af sem formaður hennar.
Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, hitti starfsfólk umboðsmanns skuldara í morgun ásamt Inga Val Jóhannssyni. Ráðherra leggur áherslu á að embætti umboðsmanns skuldara muni sinna af krafti lögbundnum verkefnum sínum eins og ekkert hafi í skorist og að allt verði gert til að styrkja það og efla:
„Hjá Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna starfaði hópur af öflugu starfsfólki sem nú hefur gengið til liðs við embætti umboðsmanns skuldara. Í þessum hópi hefur byggst upp mikilvæg reynsla og þekking sem mun koma að góðu haldi við uppbyggingu embættisins.“
Ekki liggur fyrir hvort embætti umboðsmanns skuldara verður auglýst að nýju og er framhald málsins til skoðunar í ráðuneytinu. Ákvörðun verður kynnt um leið og hún liggur fyrir.