Hoppa yfir valmynd
12. ágúst 2010 Innviðaráðuneytið

Hröð uppbygging hjá nýju embætti umboðsmanns

Starfsfólki umboðsmanns skuldara verður fjölgað á næstu vikum og ráðist í kynningu á embættinu og hlutverki þess. Tekið verður í notkun rafrænt upplýsingakerfi sem mun flýta verulega fyrir allri gagnaöflun og vinnslu mála hjá embættinu.

Embætti umboðsmanns skuldara tók til starfa 1. ágúst síðastliðinn. Hlutverk umboðsmanns er að gæta hagsmuna og réttinda skuldara eins og nánar er kveðið á í lögum um embættið nr. 100/2010. Öll fjármálaráðgjöf sem áður var sinnt af Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna er nú á hendi umboðsmanns skuldara, auk allra annarra verkefna sem honum eru falin samkvæmt lögum.

Ásta S. Helgadóttir, umboðsmaður skuldara, segir ljóst að margir muni leita til embættisins á næstu vikum og mánuðum, meðal annars til að nýta sér úrræði sem felast í nýjum lögum og lagabreytingum sem tóku gildi 1. ágúst síðastliðinn. Miklu skipti að byggja hratt upp starfsemi embættisins til að anna öllum þeim verkefnum sem eru framundan.

Í samræmi við bráðabirgðaákvæði í lögum um umboðsmann skuldara hefur þriggja manna starfshópur unnið að gildistöku laganna frá því að þau voru samþykkt í lok júní. Starfshópurinn er skipaður til eins árs og er ætlað að vera umboðsmanni skuldara til ráðgjafar um starfsemi stofnunarinnar fyrsta starfsárið. Öllum starfsmönnum Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna var boðið starf hjá umboðsmanni skuldara og eru starfsmenn embættisins nú um þrjátíu. Fyrir skömmu voru auglýstar til umsóknar nokkrar stöður lögfræðinga og fleiri sérfræðinga hjá umboðsmanni, umsóknarfrestur er útrunninn og mun umboðsmaður skuldara ráða í þessi störf á næstunni.

Rafrænt upplýsingakerfi mun flýta fyrir gagnaöflun og vinnslu mála

Stór þáttur í starfsemi umboðsmanns skuldara felst í því að aðstoða þá sem sækja um úrræði eða þjónustu embættisins við að afla margvíslegra gagna um fjárhagsstöðu þeirra í samræmi við það sem áskilið er í lögum. Ákveðið hefur verið að taka í notkun rafrænt upplýsingakerfi í þessu skyni þar sem mögulegt verður að kalla fram tilteknar upplýsingar úr öðrum gagnagrunnum, s.s. frá Þjóðskrá Íslands, Ríkisskattstjóra og fjármálastofnunum. Með kerfi sem þessu verður unnt að flýta verulega fyrir allri gagnaöflun og vinnslu mála hjá embættinu.

Ásta S. Helgadóttir, umboðsmaður skuldara, leggur áherslu á að öll vinna við uppbyggingu kerfisins og notkun þess muni fara fram í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þá bendir hún á að engin upplýsingaöflun um fjárhagsstöðu einstaklinga fari fram á vegum embættisins nema fyrir liggi skriflegt samþykki viðkomandi.

Á næstunni verður áhersla lögð á að kynna embætti skuldara og hlutverk hans samhliða kynningu á þeim úrræðum sem standa til boða fjölskyldum og einstaklingum sem eiga í greiðsluerfiðleikum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta