Hoppa yfir valmynd
18. ágúst 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Námstækifæri í tækni- og raungreinum fyrir 150 atvinnuleitendur

Kynningarbréf um námstækifæri í tækni- og raungreinumFélags- og tryggingamálaráðuneytið, Vinnumálastofnun, Samtök iðnaðarins, háskólar landsins og tækni- og hugverkafyrirtæki hafa efnt til sameiginlegs átaks um menntun einstaklinga í tækni- og raungreinum. Markhópurinn er fólk á atvinnuleysisskrá á aldrinum 20 – 60 ára og er áætlað að um 150 einstaklingar án atvinnu muni setjast á skólabekk í haust. 

Vinnumálastofnun greiðir skráningar- og skólagjöld

Námið sem er í boði tekur til aðfararnáms í frumgreinadeildum og B.Sc. náms á háskólastigi. Því er gert ráð fyrir að þátttakendur í átakinu hafi annað hvort lokið framhaldsskólanámi eða uppfylli skilyrði til inntöku í frumgreinadeildir. Vinnumálastofnun kemur til móts við þá sem áhuga hafa á að sækja slíkt nám og fá inngöngu með því að greiða skóla- og skráningargjöld fyrir skólaárið 2010-2011, þ.e. tvær annir í fullu námi. Verkefnið er fjármagnað úr Atvinnuleysistryggingarsjóði.

Mikil eftirspurn eftir fólki með menntun á þessu sviði

Eftirspurn eftir fólki með menntun í tækni- og raungreinum er mikil og fyrirsjáanlegt að hún aukist mikið á næstu árum. Til dæmis er gert ráð fyrir að það þurfi um 3.000 nýja tæknimenntaða einstaklinga á íslenskan vinnumarkað á næstu þremur árum, meðal annars innan hugverkaiðnaðarins.

Iðnaðurinn býður upp á fjölbreytileg störf á sviði heilbrigðistækni, hönnunar, fata- og listiðnaðar, leikjaiðnaðar, líftækni, orku- og umhverfistækni, tónlistar-, kvikmynda- og afþreyingariðnaðar, vél- og rafeindatækni fyrir matvælavinnslu, ásamt störfum innan mannvirkjagerðar og málmtækni.

Kynningarfundir á næstu dögum

Boðið verður upp á nám í fjölmörgum greinum við Háskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands, auk náms við Háskólann á Bifröst á frumgreinasviði og námslínu um nýsköpun við frumgreinasvið Keilis.

Vinnumálastofnun hefur sent út bréf til fólks á atvinnuleysisskrá og boðað það á kynningarfundi um átakið dagana 19. – 24. ágúst. Samtök Iðnaðarins hafa skipulagt fundina sem verða haldnir hjá þeim fyrirtækjum sem koma að átakinu en það eru: Ístak hfStiki ehf., Roche NimbleGen, Bláa lónið, CCP hf., Héðinn hf. Marel Food, ORF Líftækni, MarOrka og Vélaverkstæði Hjalta Einarssonar.

Árni Páll Árnason félags- og tryggingamálaráðherraÁrni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, segir samstarfið marka straumhvörf í baráttunni við atvinnuleysi. „Við þurfum að auka möguleika fólks á að bæta við þekkingu til að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði. Á sama tíma auðveldum við útflutningsfyrirtækjum sjálfbæran vöxt hér á landi, en þvingum þau ekki úr landi vegna erfiðra starfsskilyrða. Frumkvæði Jóns Ágústs Þorsteinssonar, forstjóra Marorku, hefur verið sérstaklega mikilvægt í þessu máli. Við stefnum að enn frekari verkefnum til að gera okkur kleift að mennta okkur út úr atvinnuleysi og kreppu.“

Tengt efni: Um 190 námspláss tryggð í framhaldsskólum fyrir atvinnulaus ungmenni

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta