Hoppa yfir valmynd
16. maí 2024 Forsætisráðuneytið

1190/2024. Úrskurður frá 16. maí 2024

Hinn 16. maí 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1190/2024 í máli ÚNU 23010009.
 

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 16. janúar 2023, kærði A, aðstoðarfréttastjóri hjá mbl.is, synjun Skattsins á beiðni hans um gögn.
 
Með erindi til Skattsins, dags. 23. nóvember 2022, óskaði kærandi eftir upplýsingum um það hvaða fyrirtæki hefðu fengið endurgreiddan rannsóknar- og þróunarkostnað samkvæmt lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009, og hver væri upphæð til hvers fyrirtækis. Kærandi bað um að upplýsingarnar yrðu sundurliðaðar eftir árum frá árinu 2010.
 
Í svari Skattsins, dags. 14. desember 2022, kvaðst stofnunin ekki hafa heimild til að birta upplýsingar um stuðning við einstök fyrirtæki umfram það sem þegar væri birt á vef Skattsins og í miðlægri vefgátt Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Árið 2020 hefði fjármála- og efnahagsráðuneyti sent Morgunblaðinu skjal sem náði yfir tímabilið 2010 til 2019, þar sem fram kom fjöldi fyrirtækja miðað við ákveðið fjár­hæðabil. Meðfylgjandi svari Skattsins nú væri skjal þar sem fram kæmu sömu upplýsingar og þá, að viðbættum árunum 2020 og 2021.
 
Í kæru kemur fram að Skatturinn birti þær upplýsingar sem óskað sé eftir, en aðeins um staka styrki umfram 500 þús. evrur á ári. Stofnuninni sé það skylt samkvæmt reglugerð um stuðning við nýsköp­un­arfyrirtæki, nr. 758/2011. Kærandi telji hins vegar að það komi ekki í veg fyrir að Skattinum sé óheimilt að veita upplýsingar um styrki undir 500 þús. evrum.
 
Endurgreiðsla rannsóknar- og þróunarkostnaðar hafi aukist til muna frá árinu 2010. Skilgreining á því hvað geti flokkast sem rannsóknar- og þróunarkostnaður sé að hluta til byggð á huglægu mati. Kærandi hafi fengið óstaðfestar ábendingar um að fyrirtæki hafi nýtt sér þetta úrræði til að draga úr kostnaði við almennan rekstur og hafi þannig náð samkeppnisforskoti á aðra sem hafi talið að slíkur kostnaður flokk­aðist ekki sem rannsóknar- og þróunarkostnaður. Ábendingarnar virðist ríma við það sem fram kemur í um­sögn Skattsins við frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 152/2009 (þingskjal 910 í 544. máli á 151. löggjafarþingi 2020–2021) um að flókið geti verið að skilja á milli venjubundins rekstr­ar­kostnaðar og kostnaðar vegna ný­­sköpunarverkefna, og að brögð hafi verið að því að við skattskil væri m.a. almennur rekstrarkostn­aður færður undir kostnað vegna staðfestra nýsköpunar­verk­efna.
 
Kærandi telur að upplýsingar um fyrirtæki sem fái styrk undir 500 þús. evrum á ári eigi erindi við al­menning og bendir til samanburðar á að birtar séu upplýsingar um endurgreiðslur vegna kvikmynda­gerðar, stuðning við fyrirtæki í kórónuveirufaraldrinum, rekstrarstuðning við fjölmiðla og skattgreiðsl­ur einstaklinga á ákveðnum tíma ársins.
 

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Skattinum með erindi, dags. 18. janúar 2023, og stofnuninni veittur kostur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að Skatturinn léti úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.
 
Umsögn Skattsins barst úrskurðarnefndinni hinn 1. febrúar 2023. Í henni kemur fram að í 117. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, sé þagnarskylduákvæði sem nái til upplýsinga um tekjur og efnahag skatt­aðila. Frá þagnarskyldunni sé vikið í 98. gr. sömu laga, þar sem segir að ríkisskattstjóri skuli leggja fram álagningarskrá yfir álagða skatta og gjöld skattaðila, og leggja fram skattskrá að kæruafgreiðslu lokinni. Skrárnar skuli lagðar fram til sýnis fyrir almenning annars vegar í 15 daga og hins vegar í tvær vikur. Í álagningar- og skattskrám lögaðila á hverjum tíma séu upplýsingar um endurgreiðslu vegna þróunar­kostnaðar. Ríkisskattstjóra sé hvorki skylt að veita aðgang að framangreindum upplýsingum utan þeirra tímamarka sem séu lögboðin, né sé skattaðilum gert að sæta birtingu upplýsinganna utan framlagn­ing­ar­­daga.
 
Ákvæði 9. gr. reglugerðar nr. 758/2011 feli í sér að þrátt fyrir þagnarskylduákvæði 117. gr. laga um tekjuskatt sé fyrirtækjum sem notið hafa styrks í formi skattfrádráttar sem nemur að minnsta kosti 500 þús. evrum skylt að þola birtingu styrkfjárhæðar, en öðrum ekki. Tekið sé fram að umbeðin gögn séu ekki fyrirliggjandi á öðru formi en að framan greinir.
 
Umsögn Skattsins var kynnt kæranda með bréfi, dags. 2. febrúar 2023, og honum veittur kostur á að koma á fram­færi frekari athugasemdum. Þær bárust hinn 10. febrúar sama ár. Óþarft er að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins, sbr. 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.
 

Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Skattsins að synja kæranda um aðgang að upplýsingum um hvaða fyrir­tæki hafi fengið endurgreiddan rannsóknar- og þróunarkostnað samkvæmt lögum um stuðning við nýsköp­unarfyrirtæki og upphæð til hvers fyrirtækis. Skatturinn vísar einkum til þess að upplýsingarnar séu undirorpnar þagnarskyldu samkvæmt lögum um tekjuskatt, en kveður einnig að ekki liggi fyrir gagn sem innihaldi upplýsingarnar sem óskað er eftir, heldur sé þær að finna í álagningar- og skattskrám lög­aðila á hverjum tíma.
 
Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál að liðnum þeim 30 daga fresti sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Hins vegar var kæranda hvorki leiðbeint um kæru­heimild til úrskurðarnefndarinnar né kærufrest í hinni kærðu ákvörðun. Verður kærunni því ekki vísað frá úrskurðarnefndinni af þeim sökum að kærufresturinn sé liðinn.
 
Í 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga kemur fram að almenn ákvæði laga um þagnar­skyldu takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögunum. Andspænis slíkum ákvæðum eru sér­stök þagnar­skyldu­ákvæði, þar sem upplýsingar þær sem þagnarskyldan tekur til eru sérgreindar. Með gagn­ályktun frá 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga hefur verið á því byggt að sérstök þagn­ar­skyldu­ákvæði geti takmarkað rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum. Það fer eftir efni og orða­lagi við­komandi ákvæð­is hvernig það verður skýrt og samræmt ákvæðum upplýsingalaga, sbr. athuga­­semdir í frumvarpi því sem varð að gildandi upplýsingalögum.
 
Í 1. mgr. 117. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, segir eftirfarandi:
 

Á ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra og yfirskattanefnd hvílir þagnarskylda skv. X. kafla stjórn­sýslulaga. Þeim er bannað, að viðlagðri ábyrgð eftir ákvæðum XIV. kafla almennra hegn­ingarlaga um brot í opinberu starfi, að skýra frá því er þeir komast að í sýslan sinni um tekj­ur og efnahag skattaðila. Þagnarskyldan helst þótt menn þessir láti af störfum.

 
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur í úrskurðarframkvæmd sinni lagt til grundvallar að ákvæðið hafi að geyma sérstaka þagnarskyldu, sbr. úrskurði nr. 984/2021 og 935/2020, og gangi af þeirri ástæðu almennt framar rétti til aðgangs að gögnum samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga. Nefndin telur að þagn­arskyldan sé sér­greind þannig að hún taki til upplýsinga „um tekjur og efnahag skattaðila.“ Réttar­áhrif þessa eru þau að ef óskað er eftir upplýsingum sem varða tekjur og efnahag skattaðila hjá þeim sem tilgreindir eru í 117. gr. laga nr. 90/2003 má synja beiðninni án þess að mat fari fram um það hvort hagsmunir almennings af aðgangi að upplýsingum vegi þyngra en hagsmunir af því að þær fari leynt.  
 
Frá ákvæði 1. mgr. 117. gr. laga nr. 90/2003 eru mikilvæg frávik, sbr. ekki síst 98. gr. laga nr. 90/2003, þar sem segir að álagningarskrá og skattskrá þar sem fram kemur álagður tekjuskattur, bæði einstak­linga og lögaðila, skuli lagðar fram og hafðar aðgengilegar með tilteknum og afmörkuðum hætti eftir því sem greinir í lagaákvæðinu.
 
Þær upplýsingar sem kæra máls þessa lýtur að varða framkvæmd laga nr. 152/2009. Samkvæmt þeim lögum getur fyrirtæki árlega í skattframtali gert grein fyrir tilgreindum kostnaði sem tengist rannsóknar- og þróunarverkefnum sem áður hafa verið staðfest af Rannís. Ef skilyrði eru fyrir hendi, og einnig innan tiltekinna viðmiða, getur kostnaður við þessi verkefni leitt til sérstaks frádráttar frá álögðum tekjuskatti fyrirtækisins, sbr. 10. gr. laganna. Sé álagður tekjuskattur lægri en ákvarðaður frádráttur eða sé lögaðila ekki ákvarðaður tekjuskattur vegna skattalegs taps kann frádrátturinn jafnframt að verða greiddur út, sbr. 11. gr. sömu laga.
 
Álagning skatta, þ.m.t. um frádrátt frá tekjuskatti samkvæmt þessum lagaákvæðum, er á hendi ríkis­skatt­stjóra. Upplýsingar um þá frádrætti frá tekjuskatti og um mögulega útgreiðslu sem ákveðnir eru á grund­velli laga nr. 152/2009 teljast því upplýsingar um „tekjur og efnahag skattaðila“ sem falla undir 1. mgr. 117. gr. laga nr. 90/2003. Um þær gildir því sérstök þagnarskylda samkvæmt ákvæðinu, enda geri aðrar réttarreglur ekki undantekningu þar á að einhverju leyti.
 
Samkvæmt 2. gr. laga um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, skal meginmál EES-samningsins, auk til­greindra gerða, hafa lagagildi hér á landi. Þáttur í meginmáli samningsins eru reglur hans um takmörk og skilyrði ríkisaðstoðar, sbr. 2. kafla samningsins. Í 63. gr., sem tilheyrir 2. kafla samningsins, er sér­stak­lega vísað til XV. viðauka samningsins þar sem fram koma sérstök ákvæði um ríkisaðstoð. Með ákvörð­un nr. 152/2014, 27. júní 2014 um breytingu á umræddum XV. viðauka, felldi sameiginlega EES-nefndin inn í EES-samninginn reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 651/2014 frá 17. júní 2014 um ríkisaðstoð. Af 9. gr. þeirrar reglugerðar leiðir að aðildarríki skal tryggja að upplýs­ing­ar sem fram koma í III. viðauka með reglugerðinni skulu birtar „um hverja úthlutun stakrar að­stoð­ar sem fer yfir 500 000 evrur.“
 
Ákvæði laga nr. 152/2009 kveða samkvæmt efni sínu á um tiltekið form ríkisaðstoðar við ný­sköp­un­ar­fyrirtæki í skilningi tilvitnaðra reglna um ríkisaðstoð. Á þeim grundvelli hefur ráðherra ákveð­ið með 9. gr. reglugerðar nr. 758/2011, eins og henni var breytt með 8. gr. reglugerðar nr. 833/2016, að eftir­far­andi upplýsingar um aðstoð á grundvelli laga nr. 152/2009 skuli birtar opin­ber­lega:  
 

Ríkisskattstjóri skal birta á vefsvæði sínu upplýsingar um nýsköpunarfyrirtæki sem hlotið hefur stað­fest­ingu á verkefni sínu af hálfu Rannís samkvæmt lögum nr. 152/2009, um stuðning við ný­sköp­un­ar­fyrir­tæki, og skattfrádrátt nýsköpunarfyrirtækis ef fjárhæð skatt­frá­drátt­arins er yfir 60.000.000 kr. á ári. Upp­lýsingarnar skulu vera í samræmi við III. viðauka reglu­gerðar (ESB) nr. 651/2014, um almenna hóp­undanþágu. Ríkisskattstjóri skal birta upp­lýsingarnar innan sex mánaða frá þeim degi þegar álagning opin­berra gjalda er ákvörðuð og skulu upplýsingarnar vera tiltækar í a.m.k. 10 ár frá sama degi.

 
Með tilvitnaðri reglugerð nr. 758/2011, sem sett er á grundvelli 16. gr. laga nr. 152/2009, hefur sam­kvæmt þessu verið ákveðið að afmarkaðar upplýsingar um stuðning á grundvelli laga nr. 152/2009 skuli birtar opin­berlega. Þessar upplýsingar eru aðgengilegar á vefsvæði Skattsins. Þá eru upplýsingar um endur­greiðslu vegna þróunarkostnaðar í skilningi laga nr. 152/2009 birtar í álagningar- og skatt­skrám á grund­velli 98. gr. laga nr. 90/2003, þann tíma sem þær skrár liggja frammi. Að öðru leyti er ekki í settum réttarreglum kveðið á um frávik frá þeirri þagnarskyldu sem leiðir af fyrirmælum 1. mgr. 117. gr. laga nr. 90/2003 vegna þeirra upplýsinga sem kæra málsins lýtur að. 
 
Samkvæmt framangreindu er ekki hjá því komist að staðfesta ákvörð­un Skattsins í máli þessu.
 
Vakin er athygli á því að í hinni kærðu ákvörðun var ekki leiðbeint um kæruheimild til úrskurðar­nefnd­ar­innar samkvæmt 20. gr. upplýsingalaga, líkt og skylt er að gera þegar beiðni um aðgang að gögnum er synjað, sbr. 1. mgr. 19. gr. laganna. Var ákvörðun Skattsins að þessu leyti ekki í samræmi við ákvæði upplýsingalaga.
 

Úrskurðarorð

Staðfest er ákvörðun Skattsins, dags. 14. desember 2022, að synja A um aðgang að upplýsingum um endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar.
 
 
 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta