Mál nr. 2/2007: Dómur frá 15. maí 2007
Ár 2007, þriðjudaginn 15. maí, var í Félagsdómi í málinu nr. 2/2007:
Alþýðusamband Íslands vegna
Matvís matvæla og veitingafélags Íslands
gegn
Sambandi íslenskra sveitarfélaga vegna
Launanefndar sveitarfélaga.
kveðinn upp svofelldur
D Ó M U R:
Mál þetta var dómtekið 18. apríl sl. að loknum munnlegum málflutningi.
Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Erla Jónsdóttir, Lára V. Júlíusdóttir og Gísli Gíslason.
Stefnandi er Alþýðusamband Íslands, kt. 420169 6209 vegna MATVÍS, matvæla og veitingafélags Íslands, kt. 500976 3089.
Stefndi er Samband íslenskra sveitarfélaga, kt. 550269 4739, vegna Launanefndar sveitarfélaga.
Dómkröfur stefnanda
Stefnandi gerir þær dómkröfur að viðurkennt verði með dómi lögmæti uppsagnar, dags. 30. nóvember 2006, á launalið kjarasamnings aðila sem undirritaður var 3. mars 2005, með vísan til gr. 16.1.1 í samningnum.
Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins, auk álags er nemi virðisaukaskatti.
Dómkröfur stefnda
Stefndi gerir þær dómkröfur að vera sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda og að viðurkennt verði að uppsögn stefnanda, dags. 30. nóvember 2006, á launalið kjarasamnings aðila sem undirritaður var 3. mars 2005 með vísan til gr. 16. 1.1 í samningnum sé ólögmæt.
Þá er þess krafist að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.
Málsatvik
Helstu málsatvik eru þau að hinn 3. mars 2005 undirrituðu málsaðilar kjarasamning vegna umbjóðenda sinna og var gildistími samningsins frá 1. janúar 2005 til 30. nóvember 2008.
Í 16. kafla samningsins um samningsforsendur er svohljóðandi ákvæði, grein 16.1.1:
„Samningsaðilar eru sammála um það markmið að stöðugleiki geti haldist í íslensku efnahagslífi. Samningsaðilar vænta þess að hagvöxtur og framleiðniaukning muni á næstu árum skapa forsendur fyrir því að launabreytingar samkvæmt samkomulagi þessu skili auknum kaupmætti á samningstímabilinu. Leiði ófyrirséð atvik til þess að framangreint mark náist ekki skulu samningsaðilar í nóvember árin 2006 og 2007 leggja mat á þróunina og gera tillögur um viðbrögð. Náist ekki samkomulag um viðbrögð getur hvor aðili um sig sagt launalið samkomulags þessa lausu með tveggja mánaða fyrrivara. Komi til uppsagnar falla síðari áfangahækkanir samningsins niður.“
Í almennum kjarasamningum Samtaka atvinnulífsins og aðildarfélaga ASÍ, dags. 24. apríl 2004, var samið um forsendur kjarasamninga.
16. grein samningsins fjallar um þetta og þar segir m.a.
1. Að verðlag þróist í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands.
2. Að sú launastefna og þær kostnaðarhækkanir sem í samningnum felast verði almennt stefnumarkandi fyrir aðra samningagerð á markaði.
Sérstakri nefnd, forsendunefnd, var falið að stuðla að framgangi markmiða samningsins og tryggja forsendur hans.
Þegar í ljós kom að verðbólguþróun hafði leitt til þess að forsendur samninganna höfðu ekki staðist var brugðist við því innan nefndarinnar með sérstöku samkomulagi um þróun launahækkana á samningstímabilinu, dags. 22. júní 2006. Á grundvelli þess var síðan gengið frá samkomulagi milli stefnanda og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs 22. september 2006.
Stefnandi byggir á því að framangreint ákvæði í grein 16.1.1 í kjarasamningi aðila máls þessa sé algerlega sambærilegt forsenduákvæði því sem hér að framan var getið í hinum almennu kjarasamningum Samtaka atvinnulífsins og aðildarfélaga ASÍ og vísast um það m.a. til töluliðar 2 í 16. grein almenna kjarasamningsins sem getið er hér að framan.
Forsenduákvæði kjarasamnings aðila kom til umræðu á samstarfsnefndarfundum þeirra 7. og 27. nóvember 2006. Afstaða fulltrúa LN var sú að aðstæður væru ekki með þeim hætti að tilefni væri til að gera tillögur um viðbrögð. Með bréfi dags. 30. nóvember 2006 sagði stefnandi upp launalið kjarasamnings aðila frá 3. mars 2005, með tveggja mánaða fyrirvara. Tilgreint var að það markmið samningsaðila með greindum kjarasamningi að samningurinn skilaði auknum kaupmætti hefði ekki gengið eftir og ekki náðst sátt um viðbrögð.
Stefnandi óskaði eftir fundi með aðilum í desember 2006 og með bréfi til stefnda, dags. 16. janúar 2007, var boðað til samningafundar hjá stefnanda.
Með bréfi, dags. 24. janúar 2007, óskaði svo stefnandi eftir því við Ríkissáttasemjara að hann tæki að sér stjórn viðræðna aðila.
Með bréfi stefnda, dags. 26. janúar 2007, var því hafnað að forsendur væru fyrir því að segja upp launalið í kjarasamningi aðila frá 3. mars 2005 og því haldið fram að sú uppsögn væri ógild. Stefnandi hefur ekki sætt sig við þá afstöðu stefnda og hefur höfðað mál þetta fyrir Félagsdómi til þess að fá úr þeim ágreiningi skorið.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því að mál þetta varði ágreining um túlkun og eða efndir kjarasamnings og eigi því undir dómsvald Félagsdóms, sbr. 2. tl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938.
Stefndi hafi lýst þeirri skoðun sinni að uppsögn stefnanda á launalið kjarasamnings aðila frá 3. mars 2005, sem gerð var í bréfi dags 30. nóvember 2006, sé ógild.
Þessu hafnar stefnandi.
Hann telur að hann sé í fullum rétti með að segja upp launalið kjarasamningsins.
Vafalaust sé að hans mati að þær forsendur sem samningsaðilar gáfu við undirritun hafi ekki staðist.
Forsenda nr. 1 hafi verið að stöðugleiki gæti haldist í íslensku efnahagslífi.
Forsenda nr. 2 hafi verið að hagvöxtur og framleiðniaukning skapi forsendur fyrir því að launabreytingar samkvæmt samkomulagi þessu skili auknum kaupmætti á samningstímabilinu.
Að mati stefnanda hafi hvorugt gengið eftir.
Hvað varðar stöðugleikann nægi að benda á eftirfarandi staðreyndir.
Gengi krónunnar hafi styrkst um 8,1% frá undirskrift samnings til 4. nóvember 2005, en hafi þá tekið að veikjast og hafi veikst um 33,4% frá þeim degi til 30. júní 2006, en hafi þá tekið að styrkjast aftur og sveiflist enn.
Með öðrum orðum gengissveiflur hafi numið tugum prósentna.
Verðbólga ársins 2005 hafi að meðaltali reynst vera 4% eða 1,5% yfir markmiðum Seðlabankans.
Verðbólga ársins 2006 varð um 7%, sem er tæplega þrefalt meira en verðbólgumarkmið Seðlabankans.
Þetta séu lykilstaðreyndir varðandi stöðugleikann og segi allt sem segja þurfi í þeim efnum.
Beint samband sé milli verðbólguþróunar og kaupmáttar og það þurfi því ekki frekari vitnanna við. Þegar verðbólgan sé eins og hún hafi verið á samningstímanum þá rýrni kaupmátturinn.
Hvað þetta varðar sé vísað til samkomulags í Forsendunefndinni frá 22. júní 2006 þar sem aðilar urðu ásáttir um tilteknar leiðréttingar launaliðs kjarasamninganna, þar sem viðurkennt var að samningsforsendur sem tilgreindar séu í gildandi kjarasamningum SA og aðildarfélaga ASÍ hafi ekki staðist vegna verðbólguþróunar.
Þetta hafi verið staðfest í samkomulagi stefnanda og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, dags. 22. september 2006. Það sama megi sjá á framlögðum töflum annars vegar um þróun launa og neysluvísitölu á samningstímanum, þ.e. frá byrjun árs 2005 til loka árs 2006, og hins vegar launa, verðlags og kaupmáttar.
Í ljósi þess sem að framan sé rakið varðandi forsendubrest kjarasamningsins frá 3. mars 2005, og þeirrar staðreyndar að stefndi hafi alfarið neitað viðræðum við stefnanda um ágreininginn, hljóti stefnandi með vísan til greinar 16.1.1 í kjarasamningi aðila að vera í fullum rétti að segja upp launalið samningsins, eins og hann gerði, og þess sé krafist að dómurinn staðfesti lögmæti uppsagnarinnar.
Málssókn sína styður stefnandi við lög nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur sem og meginreglur vinnuréttar og samningaréttar um skuldbindingagildi samninga. Krafa um málskostnað er studd við 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um álag er nemi virðisaukaskatti á málflutningsþóknun styðjist við lög nr. 50/1988, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi mótmælir sem rangri þeirri staðhæfingu stefnanda að forsenduákvæðið í kjarasamningi LN og MATVÍS sé algerlega sambærilegt við nefnd forsenduákvæði á almennum vinnumarkaði. Orðalag ákvæðanna og efnislegt innihald sé ólíkt. Þá sé rétt að ítreka það að í forsenduákvæði LN og MATVÍS sé engin tilvísun til starfa forsendunefndar ASÍ og SA. Aftur á móti hafi sérstaklega verið vísað til nefndarinnar í forsenduákvæðum kjarasamninga ríkisins og aðildarfélaga ASÍ, þar á meðal í samningi þess og MATVÍS. Þar hafi beinlínis verið tekið fram að kæmi til þess að nefndin næði samkomulagi um almenna launabreytingu eða að launaliðir kjarasamninga væru uppsegjanlegir, skyldi hið sama gilda um nefnda samninga við ríkið. Engin slík tilvísun sé í kjarasamningi MATVÍS og LN.
Stefndi mótmælir því jafnframt að umrædd forsenduákvæði í kjarasamningum aðildarfélaga ASÍ á almennum markaði og hjá ríkinu hafi þýðingu varðandi túlkun á því ákvæði sem ágreiningur þessa máls snúist um. Sveitarfélögin í landinu hafi að lögum sjálfstæðan samningsrétt og hafi í flestum tilfellum falið LN umboð til að gera kjarasamninga fyrir sína hönd. Launanefndin sé sjálfstæður aðili vinnumarkaðarins og geri sjálfstæða samninga sem enga skírskotun hafi til samninga annarra aðila vinnumarkaðarins nema um slíkt hafi sérstaklega verið samið. Svo hafi ekki verið gert í þessu tilfelli. Stefndi bendir aftur á móti á að LN hafi gert kjarasamninga á þessu tímabili við um 70 stéttarfélög þar sem forsenduákvæði séu sambærileg ákvæðum í samningi LN og MATVÍS. Hvergi sé að finna nokkra tilvísun til forsenduákvæða annarra aðila vinnumarkaðarins. Þá megi jafnframt geta þess að ekkert annað stéttarfélag með sömu forsenduákvæði og MATVÍS hafi séð ástæðu til að segja samningum upp á grundvelli ákvæðisins.
Í febrúar 2001 gerði LN kjarasamning við MATVÍS, en sá samningur var í gildi þar til núgildandi samningur tók gildi. Forsenduákvæðið í þeim samningi var með sérstökum hætti. Þar var vísað með beinum hætti til launanefndar ASÍ og SA á almennum markaði og sagt að ef til þess kæmi að nefndin myndi ná samkomulagi um almenna hækkun launataxta skyldi samstarfsnefnd aðila taka afstöðu til þeirrar niðurstöðu. Engin slík tilvísun sé í núgildandi samningi eins og áður hafi komið fram og því augljóst að samningsaðilar hygðust ekki taka mið af öðrum samningum við framkvæmd ákvæðisins.
Ágreiningur þessa máls snúist um það hvernig beri að skýra gr. 16.1.1 um samningsforsendur í kjarasamningi MATVÍS og LN. Verði þá að horfa eingöngu á þann samning en ekki aðra samninga alls óskyldra aðila.
Ákvæði kjarasamninga um samningsforsendur eru með misjöfnu móti. Það fari eftir efni og orðalagi hlutaðeigandi ákvæðis hvort og þá hverjar afleiðingar það hafi ef þær bresti, t.d. að samningur sé ekki lengur bindandi fyrir aðila eða að hann sé uppsegjanlegur. Sé um slíkar afleiðingar að ræða þurfi að skoða sérstaklega við hvaða mörk/forsendur nákvæmlega sé miðað í þeim efnum. Í því sambandi beri fyrst og fremst að fara eftir orðanna hljóðan. Þyki orðalag óljóst verði að telja rétt að beita þröngri skýringu, enda meginmarkmið hvers kjarasamnings að skapa frið og friðarskyldu milli aðila á samningstíma.
Samkvæmt orðanna hljóðan hafi umrætt ákvæði gr. 16.1.1 að geyma markmiðslýsingu varðandi stöðugleika í efnahagslífinu og væntingar til hagvaxtar og framleiðniaukningar en einungis eina mælanlega forsendu sem sé þess efnis að samningurinn skili auknum kaupmætti.
Í upphafi forsenduákvæðisins segir að samningsaðilar séu sammála um það markmið að stöðugleiki geti haldist í íslensku efnahagslífi. Hér sé um markmiðsyfirlýsingu að ræða en ekki eiginlega samningsforsendu. Það sem skipti launþega máli sé að ná fram kaupmáttaraukningu og gildir þá einu hvort stöðugleiki sé í efnahagslífinu eða ekki. Hitt sé annað að almennt megi ætla að stöðugleiki í efnahagslífinu sé mikilvægur þáttur til að halda verðbólgu niðri en aðrir þættir hafi þar einnig veruleg áhrif, s.s. hagvöxtur og framleiðniaukning. Stöðugleiki í efnahagslífinu sé því ekki hið endanlega markmið heldur frekar leið að markmiðinu sem sé að veðbólga sé lægri en launahækkanir.
Þá segi í forsenduákvæðinu að samningsaðilar vænti þess að hagvöxtur og framleiðniaukning muni á næstu árum skapa forsendur fyrir því að launabreytingar samkvæmt samningnum skili auknum kaupmætti. Í næstu setningu segir að leiði ófyrirséð atvik til þess að framangreint mark náist ekki skuli samningsaðilar árin 2006 og 2007 leggja mat á þróunina og gera tillögur um viðbrögð. Telja verður að með orðalaginu „framangreint mark“ sé átt við kaupmáttinn og að hin eiginlega samningsforsenda sé sú að kaupmáttur hafi aukist en ekki staðið í stað eða rýrnað. Þetta sé því megininntak ákvæðisins og þau mörk sem miða beri við líkt og MATVÍS hafi gert þegar það sagði samningnum upp með bréfi, dags. 30. nóvember 2006. Þar sé vísað til þess að markmið samningsaðila hefði verið að samningurinn frá 3. mars 2005 skilaði auknum kaupmætti.
Þá sé í raun komið að kjarna málsins. Hefur samningurinn leitt til kaupmáttarauka eða hefur kaupmáttur rýrnað eins og stefnandi heldur fram? Til þess að svara þeirri spurningu þurfi tvær forsendur að liggja fyrir. Annars vegar þróun vísitölu neysluverðs og hins vegar launahækkanir samkvæmt kjarasamningi aðila. Þá þurfi jafnframt að liggja fyrir hvert viðmiðunartímabilið sé.
Um vísitölu neysluverðs geti ekki verið ágreiningur enda vísitalan gefin út mánaðarlega af Hagstofu Íslands og almennt ekki um hana ágreiningur enda styðjist stefnandi við þá vísitölu í gögnum sínum.
Ágreiningur málsins virðist því snúa að þeim launahækkunum sem kjarasamningurinn hafði í för með sér og viðmiðunartímabilinu. Stefnandi fjalli reyndar lítið sem ekkert um launahækkanir kjarasamningsins. Meira sé hins vegar fjallað um meintan óstöðugleika í efnahagslífinu, gengissveiflur krónunnar og verðbólgumarkmið Seðlabankans. Þá sé fullyrt í stefnu að þegar verðbólgan sé eins og hún hafi verið á samningstímanum þá rýrni kaupmátturinn. Sú fullyrðing sé röng þegar tekið sé tillit til þeirrar grundvallarforsendu að launahækkanir hafi verið meiri en sem nemi hækkun verðlags.
Þrátt fyrir að hvergi í stefnunni sé að finna umfjöllun um launahækkanir kjarasamningsins, sem þó sé grundvallarforsenda fyrir uppsögn samningsins, megi lesa út úr framlögðu línuriti um launaþróun að stefnandi telji að launin hafi hækkað um u.þ.b. 6,3% við gildistöku samningsins og launin hafi svo aftur hækkað þann 1. janúar 2006 um 3% og þau hafi því samtals hækkað um u.þ.b. 9,5% á tímabilinu. Þessu mótmælir stefndi enda augljóslega rangt og ekki stutt neinum gögnum. Þar að auki sé framsetning þessa eina gagns stefnanda sem varpað geti einhverju ljósi á málið afar villandi og óskýr. Þannig virðist byrjað að telja, ef svo megi að orði komast, í janúar eða febrúar, líklega árið 2004, þrátt fyrir að ljóst sé að kjarasamningur sá sem um sé deilt í máli þessu hafi tekið gildi 1. janúar 2005 en áður gildandi kjarasamningur hafi gilt til nóvemberloka 2004. Samkvæmt þeim kjarasamningi hækkuðu laun um 3% þann 1. janúar 2004 en svo hækkuðu launin ekki meira það árið ef þessari hækkun sé sleppt. Línuritið sem stefnandi byggir á myndi líta öðruvísi út væri þessi hækkun, sem sannanlega varð 1. janúar 2004, tekin með í reikninginn.
Þessi nálgun sé reyndar röng því í máli þessu sé eingöngu verið að deila um núgildandi kjarasamning sem tók gildi þann 1. janúar 2005. Spurningin sem mál þetta snúist um sé hvort sá kjarasamningur hafi leitt til kaupmáttarauka á tímabilinu eða ekki. Til þess að komast að því sé nauðsynlegt að kanna hver vísitala neysluverðs hafi verið mánuðinn fyrir gildistöku samningsins og bera svo saman þróun samningsins frá og með upphafshækkun hans. Sé þetta gert miðað við forsendur stefnanda varðandi hækkanir kjarasamningsins komi í ljós að ekki sé hægt að halda því fram að kaupmáttur hafi rýrnað á tímabilinu. Í þessu sambandi sé nauðsynlegt að hafa í huga að það sé eðli kjarasamninga að launahækkanir verði mun sjaldnar en verðlag hækki en launahækkanirnar séu hins vegar almennt í mun hærri stökkum. Afleiðing af því sé að kaupmáttaraukinn sé mestur strax eftir launahækkanir en minnki svo smám saman fram að næstu launahækkun.
Grundvallarforsenda stefnanda sé hins vegar röng, þ.e. sú forsenda að laun hafi einungis hækkað um u.þ.b. 6,3% í upphafi samnings. Staðreynd málsins sé að kjarasamningurinn hafi við gildistöku hans leitt til launahækkunar sem nam 15,8%, eins og launasamanburður beri með sér samkvæmt framlögðu yfirliti. Upphafshækkun þann 1. janúar 2005 hafi því verið tæpum 10 prósentustigum hærri en stefnandi virðist halda fram.
Til þess að hægt sé að finna út hækkanir samkvæmt kjarasamningum verði að bera saman kjör þeirra sem undir samninginn falla fyrir og eftir gerð samningsins. LN vinni ætíð þannig við gerð kjarasamninga að sem bestar upplýsingar liggi fyrir um launahækkanir og hafi það einnig verið gert við gerð samningsins við MATVÍS. Það komi stefnda verulega á óvart ef nú sé uppi ágreiningur um þær hækkanir sem samningurinn hafði í för með sér þar sem samningsaðilar hafi verið sammála um þær forsendur þegar samningurinn var gerður.
Hvað sem því líði þá hafi stefndi kannað launahækkanirnar að nýju vegna þessa máls. Sú könnun hafi farið þannig fram að haft var samband við öll þau sveitarfélög sem veitt hafa LN samningsumboð til að semja við MATVÍS og óskað upplýsinga um launakjör þeirra og launaþróun frá því fyrir gildistöku samningsins. Þar sé notast við svokallaðan paraðan samanburð, þ.e. könnuð séu laun einstaklinga fyrir samning og svo hvernig kjarasamningurinn hafði áhrif á laun sömu einstaklinga. Þetta sé tiltölulega auðvelt að gera þar sem fjöldi þeirra sem undir samninginn heyri sé ekki mikill. Niðurstöður af þeirri könnun liggja fyrir í málinu. Niðurstaðan sé eins og áður segi að launin hækkuðu um 15,8% við gildistöku samningsins og höfðu hækkað um 20,5% í nóvember 2006.
Í sumum tilfellum sé jafnframt unnt að finna út launahækkanir á milli samninga með því að skoða eldri samning og bera saman við þann nýja með það fyrir augum að sjá launahækkunarákvæði. Til þess að þetta sé hægt verði samningar hins vegar að vera sambærilegir að uppbyggingu og fela í sér litlar breytingar aðrar en hreinar taxtahækkanir. Því hafi ekki verið að heilsa í kjarasamningi MATVÍS sem gerður var í mars 2005. Gerðar hafi verið verulegar breytingar á mikilvægum atriðum er varða launakjör starfsmanna. Helstu breytingar voru þær að gerð var ný launatafla með annarri uppbyggingu en áður. Nýja taflan var 7 þrepa en sú gamla 6 þrepa. Mismunur á milli þrepa sé 3,7% í nýju töflunni en var 3% í þeirri gömlu. Þá hafi reglum um röðun í þrep verið breytt þannig að starfsmenn komist mun fyrr í hærri þrep en áður. Starfsheitum hafi verið breytt og röðun í launaflokka endurskipulögð. Þá hafi reglum kjarasamningsins um símenntunarflokka verið breytt, starfsmönnum til hagsbóta. Einnig hafi ýmsum smærri atriðum verið breytt. Allar þessar breytingar megi sjá með samanburði á kjarasamningunum. Allt þetta leiði til þess að illmögulegt sé að finna út hver meðaltalslaunahækkun hafi verið við gerð samningsins nema með því að skoða laun hvers og eins starfsmanns, eða nægilega margra, fyrir samning og svo eftir samning. Slíkan samanburð má sjá í áðurnefndu yfirliti stefnda.
Þegar þessar réttu forsendur séu lagðar til grundvallar sé augljóst að starfsmenn sem taka laun eftir þessum kjarasamningi hafa notið kaupmáttaraukningar. Beri þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Til nánari skýringa er vísað í framlagt skjal, sem sýnir kaupmáttarþróun samkvæmt kjarasamningi LN og MATVÍS frá 3. mars 2005. Dómskjalið sýni þróun vísitölu neysluverðs og þróun raunverulegra launa félagsmanna MATVÍS frá gildistöku samningsins auk þróunar kaupmáttar á tímabilinu. Einnig sýni það vísitöluþróun neysluverðs og launa í línuriti, þróun kaupmáttaraukningar samkvæmt kjarasamningnum í línuriti og meðalkaupmáttaraukningu í línuriti. Í öllum tilfellum sé bæði sýnd þróun raunverulegra launa sem könnuð hafi verið eftir á og það mat sem LN hafi gert við gerð samningsins í mars 2005 en það mat sé nokkru lægra en raunin varð.
Að framansögðu virtu og í ljósi þess að umræddur samningur hafi leitt til mun meiri launahækkana en sem nemi hækkun vísitölu neysluverðs á tímabilinu, og þar með skilað auknum kaupmætti, sé vafalaust að mati stefnda að sú forsenda sem samningsaðilar sömdu um í kjarasamningi í mars 2005 hafi staðist og uppsögn launaliðar kjarasamnings aðila, dags. 30. nóvember 2006, sé ólögmæt.
Stefndi vísar m.a. til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, m.a. varðandi málskostnað o.fl. til meginreglna vinnuréttar og samningaréttar um skuldbindingargildi samninga o.fl.
Niðurstaða
Mál þetta á undir Félagsdóm samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.
Með bréfi stefnanda, Matvís, Matvæla- og veitingafélags Íslands, dags. 30. nóvember 2006, til stefnda, Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna Launanefndar sveitarfélaga, var sagt upp launalið kjarasamnings aðila þessa máls frá 3. mars 2005 með tveggja mánaða fyrirvara. Tilgreint var að það markmið samningsaðila með greindum kjarasamningi að samningurinn skilaði auknum kaupmætti hefði ekki gengið eftir og ekki náðst sátt um viðbrögð. Af hálfu stefnda var uppsögninni mótmælt, sbr. m.a. bréf stefnda, dags. 26. janúar 2007, til stefnanda þar sem því var haldið fram að forsendur skorti fyrir uppsögninni og hún teldist því ógild. Í kjölfar þessa hefur stefnandi höfðað mál þetta til viðurkenningar á því að greind uppsögn teljist gild, sbr. dómkröfu þar sem vísað er til greinar 16.1.1 í fyrrgreindum kjarasamningi aðila frá 3. mars 2005.
Í málinu er bæði tekist á um túlkun á umræddu ákvæði kjarasamningsins og hvort efnisleg skilyrði hafi verið fyrir greindri uppsögn launaliðar kjarasamningsins samkvæmt umræddri grein hans.
Grein 16.1.1 í kjarasamningi aðila hljóðar svo:
„Samningsaðilar eru sammála um það markmið að stöðugleiki geti haldist í íslensku efnahagslífi. Samningsaðilar vænta þess að hagvöxtur og framleiðniaukning muni á næstu árum skapa forsendur fyrir því að launabreytingar samkvæmt samkomulagi þessu skili auknum kaupmætti á samningstímabilinu. Leiði ófyrirséð atvik til þess að framangreint mark náist ekki skulu samningsaðilar í nóvember árin 2006 og 2007 leggja mat á þróunina og gera tillögur um viðbrögð. Náist ekki samkomulag um viðbrögð getur hvor aðili um sig sagt launalið samkomulags þessa lausu (sic) með tveggja mánaða fyrirvara. Komi til uppsagnar falla síðari áfangahækkanir samningsins niður.“
Af hálfu stefnanda er á því byggt að þær forsendur, sem samningsaðilar hafi gefið sér við undirritun kjarasamningsins, sbr. tilvitnaða grein 16.1.1, hafi ekki staðist. Forsendurnar séu annars vegar þær að stöðugleiki haldist í íslensku efnahagslífi og hins vegar að launabreytingar samkvæmt kjarasamningnum skili auknum kaupmætti á samningstímabilinu. Vísar stefnandi til þróunar launa, verðlags og gengis á samningstímabilinu, þ.e. frá ársbyrjun 2005 til ársloka 2006. Þá vísar stefnandi til 16. gr. almenns kjarasamnings Samtaka atvinnulífsins og aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands, dags. 24. apríl 2004, er sé algerlega sambærilegt greindu ákvæði kjarasamnings aðila. Í þessu sambandi vísar stefnandi og til niðurstöðu svonefndrar forsendunefndar samkvæmt hinum fyrrgreinda kjarasamningi, sbr. samkomulag forsendunefndar ASÍ og SA frá 22. júní 2006, svo og samkomulags stefnanda og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs frá 22. september 2006. Auk greindra málsástæðna byggir stefnandi á því að þar sem stefndi hafi ekki verið reiðubúinn til viðræðna hafi stefnandi verið í fullum rétti að segja upp launalið kjarasamningsins hvað sem liðið hafi forsendum samkvæmt grein 16.1.1 í kjarasamningnum.
Af hálfu stefnda er því mótmælt að stefndi hafi ekki verið reiðubúinn til viðræðna og m.a. vísað til fundargerða samstarfsnefndar aðila frá 7. og 27. nóvember 2006 og 23. janúar 2007 í því sambandi. Mat stefnda hafi hins vegar verið það að ekki væri tilefni til viðbragða. Þá mótmælir stefndi því að grein 16.1.1 í kjarasamningnum sé sambærileg forsenduákvæðum í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Enn fremur sé ekki vísað til slíkra ákvæða í kjarasamningi aðila, eins og raunin sé í kjarasamningi stefnanda við fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs. Varðandi skilning á grein 16.1.1 tekur stefndi fram að þar komi fram markmiðslýsing, en aðeins ein mælanleg forsenda, þ.e. aukning kaupmáttar á samningstímabilinu, án þess þó að tilgreint sé hversu mikil aukningin skuli vera. Telur stefndi að samningurinn hafi skilað auknum kaupmætti svo sem hann rökstyður nánar, en stefnanda beri að sanna hið gagnstæða.
Skilja verður grein 16.1.1 í kjarasamningi aðila svo að þá fyrst geti hvor aðili um sig sagt launalið samningsins lausum með tveggja mánaða fyrirvara þegar samningsaðilar hafa lagt mat á þróunina og gert tillögur um viðbrögð, án þess þó að samkomulag hafi náðst um viðbrögð, enda liggi þá fyrir að tilgreind markmið hafi ekki náðst. Samkvæmt fundargerðum samstarfsnefndar samningsaðila frá 7. og 27. nóvember 2006 er ljóst að viðræður milli aðila hafa farið fram áður en stefnandi greip til uppsagnar á launalið kjarasamningsins hinn 30. nóvember 2006. Verður að draga þá ályktun af fundargerðum þessum og öðrum gögnum málsins að samningsaðilar hafi lagt mismunandi mat á það hvort greindar forsendur kjarasamningsins hafi staðist og stefndi talið að samningurinn hefði skilað auknum kaupmætti. Verður því ekki fallist á það með stefnanda að stefndi hafi ekki verið reiðubúinn til viðræðna um stöðu mála. Að þessu athuguðu verður að taka til úrlausnar hvort efnisleg skilyrði hafi verið til uppsagnar á launalið kjarasamningsins svo sem stefnandi heldur fram. Verður að telja að stefnanda beri að sýna fram á að svo hafi verið.
Ljóst er að umtalsverður munur er á grein 16.1.1 í kjarasamningi aðila og ákvæði um samningsforsendur í almennum kjarasamningum Samtaka atvinnulífsins og aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands. Sama máli gegnir um ákvæði um samningsforsendur í kjarasamningi stefnanda og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, enda er þar beinlínis vísað til forsenduákvæða hinna almennu kjarasamninga. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á það með stefnanda að hér sé um að ræða „algerlega sambærilegt forsenduákvæði“, enda þótt greind ákvæði kunni að skipta máli við túlkun á hinu umdeilda ákvæði í kjarasamningi aðila.
Samkvæmt upphafsákvæði greinar 16.1.1 í kjarasamningi aðila lýsa samningsaðilar sig sammála um það „markmið að stöðugleiki geti haldist í íslensku efnahagslífi“, sbr. og í framhaldinu tilgreiningu á væntingum samningsaðila um að „hagvöxtur og framleiðniaukning muni á næstu árum skapa forsendur fyrir því að launabreytingar samkvæmt samkomulagi þessu skili auknum kaupmætti á samningstímabilinu.“ Nánar er ekki kveðið á um þetta. Verður að taka undir það með stefnda að hér sé fremur um almenna markmiðslýsingu að ræða heldur en eiginlega samningsforsendu, enda er ekki unnt að henda reiður á neinum nánari viðmiðunum, að því undanskildu að ráða má að forsenda samningsins sé að hann skili auknum kaupmætti á samningstímabilinu. Ekki kemur þó neitt fram um það hversu mikil kaupmáttaraukningin skuli að lágmarki vera, eins og áður getur.
Fyrir liggur að mikið ber á milli aðila málsins um það hvort kaupmáttaraukning hafi orðið á tímabilinu frá gildistöku samningsins 1. janúar 2005 þar til launalið hans var sagt upp. Stafar það einkum af því að ágreiningur er með aðilum um það hversu miklar launabreytingar hafi orðið á umræddu tímabili. Af hálfu stefnanda er einkum vísað til gengis- og verðlagsþróunar er sýni að stöðugleika hafi ekki verið fyrir að fara. Þá sé beint samband á milli verðlagsþróunar og kaupmáttar. Á þessum grundvelli byggir stefnandi einkum staðhæfingu sína um rýrnun kaupmáttar. Stefnandi hefur að takmörkuðu leyti fjallað um þær launahækkanir sem kjarasamningurinn hefur skilað. Af hálfu stefnda er hinu gagnstæða haldið fram og m.a. vísað til kannana á hækkun launa, þar á meðal við gildistöku kjarasamningsins. Telur stefndi að kjara- samningurinn hafi leitt til mun meiri launahækkana en sem nemur hækkun á vísitölu neysluverðs á tímabilinu og þar með skilað auknum kaupmætti. Stefnanda hafi ekki tekist að sanna hið gagnstæða og því sé hin umdeilda uppsögn launaliðar samningsins ógild.
Svo sem fram er komið hefur stefnandi einungis með almennum hætti rökstutt þá staðhæfingu sína að kjarasamningur aðila hafi ekki skilað auknum kaupmætti á umræddu tímabili, en ekki lagt fram neina trausta útreikninga máli sínu til stuðnings. Að því virtu þykir stefnandi ekki, gegn andmælum stefnda, hafa sýnt fram á að efnisleg skilyrði hafi verið til hinnar umdeildu uppsagnar á launalið kjarasamningsins. Að svo vöxnu máli þykir bera að sýkna stefnda af kröfu stefnanda í máli þessu. Sú niðurstaða leiðir og til þess að taka ber til greina gagnkröfu stefnda í málinu um viðurkenningu á því að uppsögn stefnanda á launalið kjarasamnings aðila frá 3. mars 2005 sé ólögmæt, eins og nánar greinir í dómsorði.
Rétt þykir að stefnandi greiði stefnda 250.000 kr. í málskostnað.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Samband íslenskra sveitarfélaga vegna Launanefndar sveitarfélaga, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Alþýðusambands Íslands vegna Matvís, Matvæla-og veitingafélags Íslands, í máli þessu.
Viðurkennt er að uppsögn stefnanda, dags. 30. nóvember 2006, á launalið kjarasamnings aðila, sem undirritaður var 3. mars 2005, með vísan til gr. 16. 1.1 í samningnum, sé ólögmæt.
Stefnandi greiði stefnda 250.000 kr. í málskostnað.
Eggert Óskarsson
Gylfi Knudsen
Erla Jónsdóttir
Lára V. Júlíusdóttir
Gísli Gíslason