Hoppa yfir valmynd
24. ágúst 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 34/2011

Miðvikudaginn 24. ágúst 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir eftirfarandi mál nr. 34/2011:

A

gegn

fjölskyldu- og félagsmálaráði Reykjanesbæjar

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR :

A, skaut til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun fjölskyldu- og félagsmálaráðs Reykjanesbæjar um fjárhagsaðstoð með vísun til bréfs fjölskyldu- og félagsmálaráðsins, dags. 9. mars 2011.

 

I. Málavextir.

Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð hjá Fjölskyldu- og félagsþjónustu Reykjanesbæjar með umsókn dagsettri 24. janúar 2011. Samkvæmt bréfi Fjölskyldu- og félagsþjónustu Reykjanesbæjar, dags. 9. mars 2011, var erindi kæranda tekið fyrir 7. mars 2011. Gerð var svohljóðandi bókun:

Umsókn: fjárhagsaðstoð.

Afgreiðsla: Umsókn þín frá 27. janúar sl. um fjárhagsaðstoð er synjað þar sem þú ert yfir kvarða. Einstaklingskvarði með húsnæði er kr. 118.312. Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá RSK eru tekjur umsækjenda kr. 180.387 kr. á mánuði. Umsækjandi er 62.075 kr. yfir kvarða.“

Eftir að kærandi hafði lagt fram kæru sína óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð og gögnum vegna málsins hjá Fjölskyldu- og félagsþjónustu Reykjanesbæjar með bréfi, dags. 29. apríl 2011. Veittur var frestur til að svara til 13. maí 2011. Bréf Fjölskyldu- og félagsþjónustu Reykjanesbæjar er dagsett 5. maí 2011 og það barst 12. maí 2011 ásamt umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð og staðgreiðsluyfirliti ríkisskattstjóra. Í bréfinu kemur fram að umsókn kæranda fyrir tímabilið janúar 2011 hafi verið synjað þar sem hann sé yfir kvarða. Einstaklingskvarði með húsnæði sé 118.312 kr. Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá RSK séu tekjur umsækjanda 180.387 kr. á mánuði. Umsækjandi sé með 62.075 kr. yfir kvarða.

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála sendi kæranda framangreind gögn með bréfi, dags. 18. maí 2011, og veitti honum frest til þess að koma athugasemdum sínum á framfæri. Í bréfinu var fyrir mistök ritað að hann hefði frest til 5. maí 2011 en það átti að vera 5. júní 2011. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda. Af þessu tilefni var kæranda sent annað bréf dags. 9. ágúst 2011, þar sem var gefinn enn frekari kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við nefndina. Kærandi hefur ekki nýtt sér það.

Samkvæmt meðfylgjandi staðgreiðsluyfirliti ríkisskattstjóra, fyrir tekjuár kæranda 2010, fékk hann tekjur bæði úr lífeyrissjóði og frá Tryggingastofnun ríkisins. Í desember 2010 fékk hann 32.760 kr. úr lífeyrissjóði og í nóvember 2010 fékk hann 147.627 greiddar frá Tryggingastofnun ríkisins.

 

II. Málsástæður kæranda.

Kærandi hefur ekki kosið að tjá sig í máli þessu.

  

III. Málsástæður fjölskyldu- og félagsmálaráðs.

Fram kemur af hálfu Fjölskyldu- og félagsþjónustu Reykjanesbæjar að umsókn kæranda fyrir tímabilið janúar 2011 hafi verið synjað þar sem hann sé yfir kvarða. Einstaklingskvarði með húsnæði sé 118.312 kr. Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá RSK séu tekjur umsækjanda 180.387 kr. á mánuði. Umsækjandi sé 62.075 kr. yfir kvarða.

  

IV. Niðurstaða.

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð hjá Reykjanesbæ.

Í máli þessu er ágreiningur um það hvort Fjölskyldu- og félagsþjónustu Reykjanesbæjar beri að greiða kæranda fjárhagsaðstoð í janúar 2011.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í kafla 4.3 í reglum sveitarfélagsins um rétt til fjárhagsaðstoðar, mat á fjárþörf og útreikning fjárhagsaðstoðar segir að við ákvörðun á fjárhagsaðstoð skuli grunnfjárþörf til framfærslu lögð til grundvallar og frá henni dregnar heildartekjur. Í grein 4.3.2 kemur fram að grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til einstaklings 18 ára og eldri geti mánaðarlega numið allt að fullum kvarða einstaklings eins og hann sé hverju sinni, nefndur grunnfjárhæð. Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar taki mið af neysluvísitölu og endurskoðist af fjölskyldu- og félagsmálaráði árlega í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar. Sú fjárhæð, eða það sem kallast einstaklingskvarði, nemur nú 118.312 kr. Eins og fram kemur í gögnum máls þessa nema tekjur kæranda 180.387 kr. á mánuði og eru þannig 62.075 kr. yfir einstaklingskvarða.

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála telur, í ljósi þess sem hér hefur verið rakið, að hin kærða ákvörðun hafi verið í samræmi við reglur sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið að við afgreiðslu á erindi kæranda hafi mat fjölskyldu- og félagsmálaráðs Reykjanesbæjar á aðstæðum kæranda verið málefnalegt og að farið hafi verið að reglum sveitarfélagsins þegar hin hina kærða ákvörðun var tekin.

Vakin skal athygli á því að í bréfi Fjölskyldu- og félagsþjónustu Reykjanesbæjar, dags. 9. mars 2011, er tekið fram að kærandi hafi fjögurra vikna frest til þess að skjóta ákvörðuninni til úrskurðarnefndar félagsþjónustu. Nefndin heitir nú úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir breytingu sem gerð var með lögum nr. 66/2010 sem tóku gildi þann 1. júlí 2010. Málskotsfrestur til nefndarinnar er nú þrír mánuðir eftir breytingu sem gerð var með lögum nr. 152/2010 sem tóku gildi þann 1. janúar 2011.

Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Fjölskyldu- og félagsþjónustu Reykjanesbæjar frá 7. mars 2011 í máli A er staðfest.

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

  

Margrét Gunnlaugsdóttir                                          Gunnar Eydal

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta