Hoppa yfir valmynd
10. ágúst 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 37/2011

Miðvikudaginn 10. ágúst 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 37/2011:

A

gegn

Íbúðalánasjóði

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, ódagsettri en móttekinni 29. apríl 2011, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Íbúðalánasjóðs frá 13. apríl 2011 vegna umsóknar um endurútreikning lána hjá sjóðnum.

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

Kærandi kærði synjun um endurútreikning lána hjá Íbúðalánasjóði sem hvíla á fasteigninni B, í samræmi við samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila.

Samkvæmt endurútreikningi Íbúðalánasjóðs, dags. 10. maí 2011, er mat á íbúð kæranda að B 16.500.000 kr. Í endurútreikningum kemur einnig fram að kærandi á hlutabréf í C að fjárhæð 39.885 kr. og bifreið D að fjárhæð 680.011 kr. Fasteign kæranda miðað við uppreiknað fasteignamat í 110% og aðfararhæfar eignir nema því samtals 18.869.896 kr. Íbúðalánaskuldir kæranda nema samtals 17.856.579 kr.

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála sendi Íbúðalánasjóði bréf, dags. 23. júní 2011, og benti á að kærandi byggði á því að verðmæti fasteignar hennar væri of hátt metið af sjóðnum. Íbúðalánasjóði var bent á að engin gögn væru í málinu um það hvernig sjóðurinn hefði komist að því að verðmat fasteignarinnar væri 16.500.000 kr. Þess var farið á leit að úrskurðarnefndinni yrði gerð grein fyrir ákvörðun sjóðsins og send skjöl þar að lútandi. Íbúðalánasjóður sendi úrskurðarnefndinni bréf, dags. 27. júní 2011, ásamt verðmati löggilts fasteignasala á fasteign kæranda.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar að mál þetta verði endurskoðað. Kærandi heldur því fram að samkvæmt upplýsingum hjá löggiltum fasteignasala fengist ekki fyrir eignina sú fjárhæð sem nemur verðmati, þ.e. 16.500.000 kr. sökum frystingar á markaði. Ef stuðst væri við fasteignamat fasteignar kæranda þá ætti hún rétt á lækkun. Kærandi óskar svara við beiðni sinni sem fyrst.

 

III. Sjónarmið kærða

Íbúðalánasjóður bendir á að samkvæmt lánaákvörðun, dags. 10. maí 2011, sé virði fasteignar kæranda miðað við uppreiknað verðmat í 110% og aðfararhæfar eignir samtals 18.869.896 kr., en íbúðalánaskuldir samtals 17.856.579 kr.

Eignir séu samkvæmt þessu hærri en skuldirnar og forsendur niðurfærslu því ekki til staðar, sbr. gr. 2.2 í samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila frá 15. janúar 2011 svo og með vísan til 1. gr. laga nr. 29/2011 um breytingu á lögum um húsnæðismál. Reglur geri ekki ráð fyrir að sjóðurinn meti í slíkum tilvikum aðstæður kæranda við niðurfærslu á veðkröfum og synjun því að mati sjóðsins í samræmi við gildandi reglur.

 

IV. Niðurstaða

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er m.a. að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.

Kærandi óskar þess að mál hennar verði endurskoðað. Í lið 2.2 í 2. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila frá 15. janúar 2011 kemur fram að lántaki skuli upplýsa kröfuhafa um aðrar aðfararhæfar eignir samkvæmt lögum um aðför nr. 90/1989. Reynist veðrými vera til staðar á aðfararhæfum eignum, á niðurfærsla skulda að lækka sem því nemur. Með aðfararhæfum eignum er átt við allar eignir nema þær séu sérstaklega undanþegnar fjárnámi. Aðfararhæfar eignir eru til dæmis fasteignir, bifreiðir og bankainnistæður. Auk fasteignar sinnar að B á kærandi bifreið og hlutabréf eins og rakið hefur verið. Verðmat á fasteign kæranda byggist á mati löggilts fasteignasala eins og rakið hefur verið og er til grundvallar endurútreikningi Íbúðalánasjóðs.

Það er álit úrskurðarnefndarinnar að Íbúðalánasjóði beri að gæta jafnræðis og samræmis í úrlausn þeirra umsókna sem honum berast. Þá ber Íbúðalánasjóði að fylgja fyrrgreindum reglum og þar er ekki að finna undanþágur. Þar kemur skýrt fram að ef veðrými er á aðfararhæfum eignum lækkar niðurfærsla veðskulda sem því nemur.

Af hálfu kæranda hefur einungis verið á því byggt að verðmæti fasteignar hennar sé of hátt metið og hefur kærandi byggt á því að miða eigi við opinbert skráð fasteignamat fasteignarinnar. Eins og fram hefur komið hefur við mat fasteignar kæranda verið byggt á mati löggilts fasteignasala sem aflað var af hálfu kærða svo sem heimilt er samkvæmt framangreindum reglum, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011 um breytingu á lögum nr. 44/1998. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og samkvæmt ákvæðum í 2. gr. 2.2 í samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila verður því að staðfesta hina kærðu ákvörðun Íbúðalánasjóðs.

Vakin skal athygli á því að í bréfi Íbúðalánasjóðs til kæranda, dags. 13. apríl 2011, er tekið fram að kærandi hafi fjögurra vikna frest til þess að skjóta ákvörðuninni til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála. Þessi frestur er nú þrír mánuðir, eftir breytingu sem gerð var með lögum nr. 152/2010 sem tóku gildi þann 1. janúar 2011.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, varðandi synjun um niðurfærslu lána A, áhvílandi á íbúðinni að B, er staðfest.

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                   Gunnar Eydal

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta