Þátttaka utanríkisráðherra á ársfundi Vestnorræna ráðsins
Málefni hafsins og fríverslun voru efst á baugi í máli utanríkisráðherra á ársfundi Verstnorræna ráðsins í Reykjavík í dag. Vestnorræna ráðið er þingmannavettvangur þjóðþinga Íslands, Færeyja og Grænlands en í ráðinu sitja 18 þingmenn, sex frá hverju landi. Utanríkisráðherrar landanna þriggja tóku auk þess þátt í klukkutíma umræðu á ársfundinum þar sem þeir fluttu árvörp og sátu síðan fyrir svörum.
„Sjávarútvegur og málefni hafsins er mikilvægur málaflokkur fyrir öll þrjú vestnorrænu löndin og hefur efnahagslíf okkar, menning og þjóðlíf um alla tíð litast mjög af sambandi okkar við hafið. Þá höfum við góða reynslu af samstarfi innan ýmissa alþjóðlegra stofnana, til að mynda í Norðaustur-Atlantshafs fiskveiðiráðinu, NEAFC, en lausnir og nálganir sem voru mótaðar á þeim vettvangi hafa haft áhrif víða um heim,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
„Viðskipti á milli vestnorrænu landanna eru talsverð en gætu verið miklu meiri. Fríverslunarsamningur Íslands og Færeyja, Hoyvíkursamningurinn, tók gildi árið 2006 og er enn þann dag í dag víðtækasti fríverslunarsamningur sem Ísland hefur gert. Nú hafa stjórnvöld á Íslandi og Grænlandi lýst yfir vilja til að efla tvíhliða viðskipti landanna og efnahagssamstarf,“ bætir hún við.
Í gær átti Þórdís Kolbrún einnig tvíhliða fundi með Vivian Motzfeldt utanríkisráðherra Grænlands og Høgni Hoydal utanríkisráðherra Færeyja, auk þess sem þau funduðu öll þríhliða. Sameiginlegar áskoranir og tækifæri voru til umræðu á þeim fundum, sem og mikilvægi vestnorrænnar samvinnu, pólitísk mál líðandi stundar og viðskipti.