Hoppa yfir valmynd
8. nóvember 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 321/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 321/2017

Miðvikudaginn 8. nóvember 2017

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 4. september 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 24. ágúst 2017, um synjun á umsókn hennar um fæðingarstyrk námsmanna.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 8. ágúst 2017, sótti kærandi um fæðingarstyrk námsmanna í sex mánuði vegna væntanlegrar fæðingar barns hennar X. Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 24. ágúst 2017, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að hún hefði ekki verið í fullu námi samfellt í að minnsta kosti sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir fæðingu barns. Með tölvupósti sama dag óskaði kærandi eftir endurskoðun á þeirri ákvörðun. Með tölvupósti 29. ágúst 2017 var kæranda tilkynnt að undanþáguákvæði 12. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof ætti ekki við um aðstæður hennar og fyrri ákvörðun stæði því óbreytt.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 4. september 2017. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 20. september 2017, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. september 2017, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda 27. september 2017 og voru þær sendar Fæðingarorlofssjóði til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. september 2017. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi verið í samskiptum við Fæðingarorlofssjóð í maí 2017 vegna væntanlegrar barnsfæðingar X. Kærandi hafi þá greint frá aðstæðum sínum sem við fyrstu sýn hefðu verið þannig að hún fengi hvorki fæðingarorlof né fæðingarstyrk, en hún hafi einungis verið í fullu námi vorið 2017 en ekki haustið 2016. Kærandi hafi tekið fram að ólíklegt væri að hún myndi geta unnið um sumarið vegna mikillar grindargliðnunar. Þá hafi hún fengið þær upplýsingar frá starfsmanni Fæðingarorlofssjóðs að hún ætti mögulega rétt á undanþágu sem námsmaður ef hún fengi vinnutengda sjúkradagpeninga að námsönn lokinni og fram að fæðingu barnsins. Eftir að hafa fengið þær upplýsingar hafi kærandi lifað í falskri von um að fá fæðingarstyrk námsmanna ef hún myndi sækja um sjúkradagpeninga.

Kærandi vísar til þess að ástæða synjunar Fæðingarorlofssjóðs sé sú að hún hafi ekki fengið vinnutengda sjúkradagpeninga. Kærandi bendir á að einungis ein umsókn sé fyrir hendi sem komi til greina þegar sótt sé um sjúkradagpeninga hjá Sjúkratryggingum Íslands. Þá hafi kærandi fengið þær upplýsingar frá stofnuninni að ekki sé talað um vinnutengda sjúkradagpeninga, heldur einungis um sjúkradagpeninga, en miðað sé við hvað einstaklingur hafi verið að gera síðustu tvo mánuði áður en viðkomandi verði óvinnufær og rétturinn metinn út frá því, sbr. reglugerð nr. 1025/2008 um sjúkradagpeninga.

Kærandi gerir athugasemd við að starfsmaður Fæðingarorlofssjóðs hafi bent henni á að sækja um sjúkradagpeninga sé ástæða synjunar sú að hún hafi ekki fengið rétta tegund af sjúkradagpeningum greidda, þrátt fyrir að sama umsókn og upphæð eigi við um bæði námsmenn og launþega. Hefði kærandi fengið réttar upplýsingar frá byrjun, um að hún félli ekki undir undantekninguna þar sem ákveðin undirtegund af sjúkradagpeningum kæmi ekki til greina í hennar tilviki, þá hefði hún pínt sig í 25% vinnu í mánuð til þess að uppfylla skilyrði 12. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 til að fá fæðingarstyrk námsmanna, þrátt fyrir að vera óvinnufær. Að mati kæranda verði að gera þá kröfu til starfsmanna Fæðingarorlofssjóðs að þeir þekki þær reglur og leiðir sem verið sé að benda umsækjendum á. Kærandi tekur fram að það hafi haft mikil neikvæð áhrif á hana að fá synjun tæpum X vikum fyrir settan dag, meðal annars hafi það leitt til mikils stress og svefnleysis. Miklir hagsmunir séu í húfi fyrir hana að fá greiddan fullan fæðingarstyrk námsmanna þar sem muni 100 þúsund kr. á mánuði. Í athugasemdum sínum ítrekar kærandi að hún hafi fengið mjög villandi leiðbeiningar frá byrjun af hálfu Fæðingarorlofssjóðs, þrátt fyrir að hún hafi greint skýrt frá aðstæðum sínum í tölvupóstsamskiptum. Kærandi hafi augljóslega ekki verið að láta af launuðum störfum af heilsufarsástæðum og því undarlegt að benda henni á að sækja um vinnutengda sjúkradagpeninga.

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs er vísað til 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof þar sem kveðið sé á um að foreldrar, sem hafi verið í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma, eigi rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og hafi staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist. Skilgreiningu á fullu námi sé að finna í 4. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008. Þar komi fram að fullt nám í skilningi laganna teljist vera 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem standi yfir í að minnsta kosti sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Barn kæranda hafi fæðst þann X. Við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingardag barnsins sé horft til tímabilsins frá X 2016 fram að fæðingardegi þess. Á vottorði um skólavist frá B komi fram að á framangreindu tólf mánaða tímabili hafi kærandi lokið 7,5 ECTS-einingum á haustmisseri 2016 og 30 ECTS-einingum á vormisseri 2017. Á háskólastigi jafngildi 30 einingar á önn 100% námi og því teljist 22–30 einingar vera fullt nám samkvæmt lögum nr. 95/2000. Með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir liggi um námsframvindu og uppsetningu náms kæranda uppfylli hún ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í að minnsta kosti sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir fæðingardag barns. Kærandi hafi einungis lokið 7,5 ECTS-einingum á haustmisseri 2016 og vormisseri 2017 hafi einungis staðið yfir í fimm mánuði.

Fæðingarorlofssjóður tekur fram að þá komi til skoðunar hvort heimildarákvæði 12. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 geti átt við í tilviki kæranda. Þar komi fram að heimilt sé að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þegar foreldri hafi lokið að minnsta kosti einnar annar námi samkvæmt 1. mgr. og hafi síðan verið samfellt á innlendum vinnumarkaði. Skilyrði sé að nám og starf hafi verið samfellt í að minnsta kosti sex mánuði. Fyrir liggi að kærandi hafi lokið að minnsta kosti einnar annar námi samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laganna, sem sé vormisseri 2017. Við mat á því hvort kærandi hafi síðan verið samfellt á innlendum vinnumarkaði verði að líta til þess hvort hún uppfylli þau skilyrði sem kveðið sé á um í a–e-liðum 2. mgr. 13. gr. a laganna, allt eftir því hvað við eigi. Í 1. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000 komi fram að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla feli í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 2. mgr. 7. gr., eða sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 3. mgr. 7. gr. Fullt starf starfsmanns miðast við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skuli jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljast fullt starf. Í 2. mgr. 13. gr. a. laganna sé síðan talið upp í fimm stafliðum hvað teljist til þátttöku á vinnumarkaði. Óumdeilt sé að kærandi hafi hvorki starfað sem starfsmaður né sjálfstætt starfandi einstaklingur eftir vormisseri 2017. Þar með uppfylli hún ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000. Kærandi hafi lagt fram gögn um að hún hafi fengið greidda sjúkradagpeninga frá Sjúkratryggingum Íslands að loknu vormisseri 2017. Kærandi telji sig þar með uppfylla þau skilyrði sem kveðið sé á um í c-lið 2. mgr. 13. gr. a laganna. Sá áskilnaður sé hins vegar gerður í því ákvæði að þær greiðslur sem þar sé fjallað um þurfi að vera tilkomnar í kjölfar þess að foreldri hafi þurft að láta af launuðum störfum af heilsufarsástæðum. Óumdeilt sé að kærandi hafi ekki látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum heldur hafi hún verið í námi og áunnið sér með þeim hætti rétt til greiðslna sjúkradagpeninga. Í samræmi við það verði ekki séð að kærandi uppfylli það skilyrði stafliðarins að hafa látið af launuðum störfum. Þá verði ekki séð að aðrir stafliðir 2. mgr. 13. gr. a laganna geti átt við í tilviki kæranda.

Fæðingarorlofssjóður fellst ekki á að kæranda hafi verið veittar rangar og/eða ófullnægjandi leiðbeiningar í málinu. Á tímabilinu 8. til 26. maí 2017 hafi kæranda verið leiðbeint í að minnsta kosti 13 skipti um að með hliðsjón af þeim upplýsingum sem hún hefði gefið um aðstæður sínar væri meginreglan að minnsta kosti 25% starf í kjölfar náms, að greiðslur samkvæmt c-lið 2. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000 þyrftu að vera til komnar vegna starfs en ekki vegna náms og að Sjúkratryggingar Íslands myndu veita nánari upplýsingar um réttindi til sjúkradagpeninga. Umsókn kæranda um sjúkradagpeninga til Sjúkratrygginga Íslands sé dagsett 13. júní 2017.

Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað en kærandi eigi þess í stað rétt á fæðingarstyrk samkvæmt 18. gr. laga nr. 95/2000.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja umsókn kæranda um fæðingarstyrk námsmanna.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof eiga foreldrar, sem verið hafa í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma, rétt til fæðingarstyrks. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og staðist kröfur um námsframvindu. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Í 4. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000 segir að fullt nám samkvæmt lögunum sé 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í að minnsta kosti sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms. Almennt teljast 30 ECTS einingar á önn því vera 100% nám við háskóla og fullt nám í skilningi laganna því 22–30 einingar.

Barn kæranda fæddist X. Tólf mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 er því frá X 2016 fram að fæðingardegi barnsins. Kærandi stundaði meistaranám við B og stendur námið yfir í tvö ár. Fullt nám á hverri önn nemur 30 ECTS einingum eða samtals 120 ECTS einingum í heild. Samkvæmt yfirliti frá B, dags. 13. júní 2017, lauk kærandi 7,5 ECTS-einingum á haustönn 2016, sem telst ekki vera fullt nám, og 30 ECTS-einingum á vorönn 2017. Það er því mat úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi hafi ekki fullnægt skilyrði 1. mgr. 19. gr. laganna um að hafa verið í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns.

Í 12. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 kemur fram að heimilt sé að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þegar foreldri hafi lokið að minnsta kosti einnar annar námi samkvæmt 1. mgr. og hafi síðan verið samfellt á innlendum vinnumarkaði. Skilyrði er að nám og starf hafi verið samfellt í að minnsta kosti sex mánuði. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. a laganna felur þátttaka á innlendum vinnumarkaði í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 2. mgr. 7. gr., eða sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 3. mgr. 7. gr. Þá kemur meðal annars fram í 2. mgr. 13. gr. a laganna að til þátttöku á innlendum vinnumarkaði teljist enn fremur sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til sjúkratryggingastofnunarinnar samkvæmt lögum um sjúkratryggingar og lögum um slysatryggingar almannatrygginga, eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum.

Í athugasemdum með 9. gr. frumvarps til laga nr. 74/2008, sem varð að 2. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000, kemur fram að ákvæðið sé efnislega samhljóða þágildandi 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, og feli því ekki í sér breytingar á framkvæmd laganna. Í ákvæði c-liðar 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 kom fram að til þátttöku á vinnumarkaði teldist enn fremur sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, sé á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt lögum nr. 117/1993 um almannatryggingar, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum. Ákvæði c-liðar 2. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000 er þannig samhljóða tilvitnuðu ákvæði c-liðar 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 að því frátöldu að lagaákvæðið var jafnframt látið taka til greiðslna úr sjúkrasjóðum stéttarfélags. Ákvæðið verður því ekki skýrt á annan hátt en þann að sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim, verði aðeins talinn til atvinnuþátttöku í skilningi 2. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000 hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum. Ákvæði c-liðar 2. mgr. 13. gr. a laganna tekur því að mati nefndarinnar ekki til annarra tilvika en þeirra þar sem foreldri sem fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga lætur af launuðum störfum.

Óumdeilt er að kærandi fékk greidda sjúkradagpeninga frá Sjúkratryggingum Íslands vegna óvinnufærni eftir að hún lauk námi á vorönn 2017 við B. Þá er einnig ágreiningslaust að kærandi lét ekki af launuðum störfum vegna heilsufarsástæðna í skilningi c-liðar 2. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000 þegar hún hóf að fá greidda sjúkradagpeninga. Að því virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi uppfylli ekki skilyrði undanþáguákvæðis 12. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 til fæðingarstyrks námsmanna.

Af hálfu kæranda er því haldið fram að hún hafi fengið villandi upplýsingar af hálfu Fæðingarorlofssjóðs þegar henni var bent á að hún gæti átt rétt á fæðingarstyrk námsmanna samkvæmt undanþágureglu 12. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sem að framan er rakin, þegar hún var í samskiptum við sjóðinn í maí 2017. Samkvæmt framlögðum tölvupóstsamskiptum í málinu kemur fram að starfsmaður sjóðsins benti kæranda á, í nokkur skipti, að hún gæti átt rétt til fæðingarstyrks námsmanna að því tilskildu að hún ætti rétt á „vinnutengdum sjúkradagpeningum“ eins og þar er komist að orði. Þá er í framangreindum samskiptum einnig vísað til „atvinnutengdra sjúkradagpeninga“ og sjúkradagpeninga eingöngu.

Úrskurðarnefndin telur að þær upplýsingar sem sjóðurinn veitti kæranda um framangreint atriði hafi mátt útskýra betur þar sem ljóst þykir að aðstæður hennar voru þannig að hún gat ekki uppfyllt framangreint skilyrði c-liðar 2. mgr. 13. gr. a., enda lá fyrir að hún hafði nýlokið námi en var ekki launþegi. Það sé þó ljóst að greinarmunur var gerður á því hvort viðkomandi ætti rétt til greiðslu sjúkradagpeninga vegna atvinnu eða náms, sbr. ummæli í tölvupósti frá 8. maí 2017 um að sjúkradagpeningar þyrftu að vera vinnutengdir en ekki sjúkradagpeningar námsmanna til að hægt væri að telja þá til tekna ef kærandi gæti ekki unnið að loknu námi. Þegar litið er til þess og rökstuðnings sem rakinn er að framan er hin kærða ákvörðun staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 24. ágúst 2017, um synjun á umsókn A, um fæðingarstyrk námsmanna er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta