Betri opinber innkaup í forgangi
Betri nýting skattfjár og hagkvæmni í opinberum innkaupum hefur verið eitt af forgangsmálum Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra. Vinna við að greina og bæta vinnubrögð í innkaupum ríkisaðila hófst þegar vorið 2014, þegar fjármálaráðherra skipaði starfshóp undir forystu Jóns Björnssonar, framkvæmdastjóra til að móta stefnu í innkaupamálum. Umfjöllun Kastljóss um málið 9. mars 2016 byggist að stórum hluta á vinnu þess hóps.
Starfshópur og verkefnastjórn
Fjármála- og efnahagsráðherra skipaði vorið 2014 starfshóp, sem Jón Björnsson veitti formennsku, til að móta stefnu um árangursríka samvinnu ríkis og einkaaðila með áherslu á innkaupamál. Hópurinn lauk störfum í mars 2015 og var meginniðurstaða hans að hægt væri að ná fram umtalsverðum sparnaði í innkaupum ríkisins með því að leggja áherslu á sameiginleg innkaup, örútboð og skuldbindandi viðskipti við færri birgja. Umfang innkaupa ríkisins eru nú 140 ma.kr. á ári en þar af kaupir ríkið vörur og þjónustu fyrir um 88 ma.kr. á ári. Tillögur framangreinds starfshóps miðuðu að því að ná fram 2 – 4 ma.kr. hagræðingu í innkaupum á almennri vöru og þjónustu.
Í kjölfarið var skipuð verkefnisstjórn sem var falið að koma á sameiginlegum innkaupum ríkisstofnana með það að markmiði að nýta stærðarhagkvæmni ríkisins sem kaupanda og ná þannig fram hagræðingu í innkaupum.
Formaður verkefnisstjórnar er Ásbjörn Óttarsson, fyrrverandi þingmaður en í teyminu eru einnig fulltrúar frá Landspítalanum, Fjársýslunni og Ríkiskaupum. Miðað er við að verkefnisstjórnin starfi í 12-18 mánuði og er verkefninu skipt í þrjá áfanga. Fyrsti áfangi er hafinn sem felst í greiningu, undirbúningi áætlanagerðar, söfnun upplýsinga frá stofnunum og tilraunaútboðsverkefnum. Þegar hefur verið ákveðið að öll innkaup stofnana ríkisins á tölvum á árinu 2016 verði framkvæmd í sameiginlegum útboðum eða örútboðum innan gildandi rammasamnings. Hefur fyrsta sameiginlega útboðið á tölvum verið auglýst auk þess sem tvö önnur sameiginleg útboð fyrir stofnanir ríkisins verða auglýst á næstu dögum.
Endurskoðun á löggjöf um opinber innkaup
Heildarendurskoðun á lögum um opinber innkaup er að ljúka og verður frumvarp lagt fram nú á vorþingi. Markmiðið með frumvarpinu er að einfalda núgildandi reglur, auka sveigjanleika í framkvæmd innkaupa og gera innkaupin skilvirkari fyrir opinbera kaupendur og fyrirtæki. Eftir sem áður er markmiðið að lög um opinber innkaup tryggi gagnsæi, jafnt aðgengi og auki samkeppni um opinbera samninga.
Verði frumvarpið að lögum eykst sveigjanleiki í innkaupum hjá opinberum kaupendum auk þess sem sameiginleg innkaup stofnana hér á landi og í öðrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu verða auðvelduð. Slík sameiginleg útboð auka möguleika að ná fram stærðarhagkvæmni ásamt því að afla tilboða frá fleiri fyrirtækjum og stuðla þannig að virkari samkeppni. Allt lýtur þetta að því að gera opinberum aðilum kleift að njóta hámarksávinnings af þeim möguleikum sem felast í sameiginlegum innkaupum og stuðla að betri nýtingu á almannafé og tryggja frekari hagræðingu í innkaupum hins opinbera.
Bætt upplýsingagjöf
Fjármála og efnahagsráðuneytið hefur leitað leiða til þess að ná fram betri upplýsingagjöf um innkaup stofnana í samstarfi við Fjársýsluna og Ríkiskaup. Hefur núverandi staða verið greind og ýmsar tillögur til úrbóta verið lagðar fram. Í ljós hefur komið fjárhagsbókhald ríkisins hentar ekki til þess að greina innkaup heldur þyrfti slík greining að eiga sér stað í sérstöku innkaupakerfi.
Nokkrar heilbrigðisstofnanir nota innkaupahluta Orra, fjárhagsbókhalds ríkisins, til að halda utan um innkaup og geta þær gert ýtarlega greiningu á innkaupum eftir vörutegundum, samningum, tilboðum eða útboðum. Jafnframt er stór hluti innkaupa þeirra gerður á rafrænan hátt. Flestar aðrar stofnanir ríkisins nota hins vegar ekki innkaupahluta Orra. Þessar stofnanir kaupa ekki vörur inn á lager og telja því ekki hagræði í því að innleiða stórt og flókið kerfi um innkaup sín. Ríkiskaup og Fjársýslan hafa nýverið sett fram hugmyndir um rafrænt beiðnakerfi sem gæti auðveldað gerð innkaupagreininga fyrir þessar stofnanir auk þess að beina innkaupum í gegnum rammasamninga. Er verið að skoða hvort þessi lausn gæti reynst heppileg.
Þá er lögð áhersla á að bæta aðgengi að fjárhagsupplýsingum ríkisins í samræmi við stefnu stjórnvalda. Unnið er að því að reikningar úr bókhaldi ríkisins, verði birtir. Gert er ráð fyrir að á fyrri hluta árs verði byrjað að opna fyrir aðgang að upplýsingum á þessum forsendum og að verkefnið verði að fullu komið til framkvæmda fyrir lok ársins.