Hvatningarverðlaun veitt á alþjóðlegum degi fatlaðra
„Við erum samankomin til að fagna því sem vel er gert og vekja athygli á verkefnum sem unnin hafa verið af hugmyndaríku hugsjónafólki sem vill með starfi sínu stuðla að einu samfélagi fyrir alla“ sagði Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, í ávarpi við afhendingu Hvatningarverðlauna Öryrkjabandalags Íslands.
Þetta er mikilvægur dagur, jafnt fyrir fatlað fólk og ófatlað. Þetta er mikilvægur dagur fyrir samfélagið. Hann er enda haldinn hátíðlegur í fjölmörgum löndum og því getum við hugsað til þess að víðsvegar um heiminn er í dag efnt til margvíslegra viðburða til að vekja athygli á aðstæðum fatlaðs fólks, fagna því sem vel er gert og benda á það sem betur má fara“ sagði ráðherra einnig í ræðu sinni.
Þetta var í sjöunda sinn sem Öryrkjabandalag Íslands veitir Hvatningarverðlaun á alþjóðlegum degi fatlaðra 3. desember. Alls voru 39 aðilar tilnefndir til verðlauna sem veitt voru í þremur flokkum og féllu eftirtöldum í skaut:
Í flokki einstaklinga
Margrét M. Norðdahl, fyrir að tengja saman listsköpun fatlaðra og ófatlaðra með listahátíðinni List án landamæra.
Í flokki fyrirtækja/stofnana
GÆS kaffihús, fyrir að koma á fót og standa fyrir rekstri eigin kaffihúss og brjóta múra í vinnumálum þroskahamlaðra.
Í flokki umfjöllunar/kynningar
Sendiherraverkefni, fyrir markvissa kynningu á sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks á vernduðum vinnustöðum, í framhaldsskólum og í félagsþjónustu um allt land.
Verndari verðlaunanna er Forseti Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson. Hönnuður verðlauna er Þórunn Árnadóttir, vöruhönnuður.
- Upplýsingar um þá sem voru tilnefndir til verðlauna
- Umfjöllun og myndir frá afhendingu verðlaunanna á vef Öryrkjabandalags Íslands
- Ávarp Eyglóar Harðardóttur