Hoppa yfir valmynd
11. maí 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 142/2021-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 142/2021

Þriðjudaginn 11. maí 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Erla Guðrún Ingimundardóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 12. mars 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 23. febrúar 2021, um að synja umsókn hans um greiðslur úr sjóðnum.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með tilkynningu um tilhögun fæðingarorlofs, dags. 18. febrúar 2021, sótti kærandi um að nýta rétt sinn til fæðingarorlofs vegna barns síns sem fæddist X 2019. Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 23. febrúar 2021, var kæranda tilkynnt um að hann þyrfti að senda inn nýja tilkynningu um tilhögun fæðingarorlofs þar sem tímabilið, sem hann hafði skráð, hafi ekki náð tveimur vikum.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 12. mars 2021. Með bréfi, dags. 17. mars 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 31. mars 2021, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 7. apríl 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að þann 18. febrúar 2021 hafi hann sent Fæðingarorlofssjóði tilkynningu um tilhögun fæðingarorlofs á þar til gerðu eyðublaði sem aðgengilegt væri á vefsíðu Fæðingarorlofssjóðs. Eyðublaðinu hafi verið skilað á þar til gert svæði á vefsíðu Fæðingarorlofssjóðs. Um hafi verið að ræða umsókn um að nýta restina af þeim réttindum sem kærandi hafi átt vegna fæðingar sonar síns, dags. Xí 2019, en kærandi hafi átt rétt á fæðingarorlofi í 14 vikur og hafði nýtt 12 vikur á tímabilinu 15. júní 2020 til 15. september 2020. Í tilkynningunni á þar til gerðum reit nr. 8 „tilhögun fæðingarorlofs“, hafi komið fram að ætlun kæranda hafi verið að nýta þessar tvær vikur sem hann hafi átt rétt á á tímabilinu apríl til maí 2021 í samfelldu tímabili. Í reit nr. 7 hafi komið fram að upphafsdagur hafi átt að vera 26. apríl 2021. Tilkynning hafi verið undirrituð af vinnuveitanda. Í 2. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 15. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof komi fram að tilkynning um töku fæðingarorlofs skuli vera skrifleg og skuli þar tilgreina fyrirhugaðan upphafsdag orlofsins, lengd þess og tilhögun. Ekki verði annað séð en að tilkynning kæranda hafi verið gild. Í bréfi sem hafi borist kæranda þann 23. febrúar í tölvupósti og undirritað hafi verið af B, starfsmanni Fæðingarorlofssjóðs, hafi umsókninni verið hafnað og óskað hafi verið eftir nýrri tilkynningu frá kæranda. Ástæða fyrir höfnuninni hafi verið sú að í reit 7 á eyðublaði sem heiti „upphafsdagur“ hafi kærandi skráð 26. apríl – 7. maí. Með tölvupósti til B þann 25. febrúar 2021 hafi kærandi hafnað því að tilkynningin væri ekki í samræmi við lög þar sem allar upplýsingar sem 2. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 15. gr. laga nr. 95/2000 kveði á um væri að finna í tilkynningunni. Nánar tiltekið kæmi fram í umsókninni í þar til gerðum reit nr. 7 (26. apríl 2021), lengd í þar til gerðum reit nr. 8 (2 vikur) og tilhögun í þar til gerðum reit nr. 8 (samfellt í 2 vikur frá apríl til maí 2021). Í umsókn kæmi sérstaklega fram að tilgangur kæranda væri að klára það orlofstímabil sem hann hafi átt inni, þ.e. tvær vikur. Í tölvupóstinum hafi kærandi lýst furðu sinni á vinnubrögðum Fæðingarorlofssjóðs við vinnslu tilkynningarinnar með tilliti til þess að tilkynning væri í samræmi við þær kröfur sem fram komi í lögum og einnig í ljósi þess að verulegar takmarkanir gildi um samskipti fólks vegna heimsfaraldursins Covid-19. Að útbúa nýja umsókn kalli á sérstakt umfang og samskipti við annað fólk þar sem vinnuveitandi þurfi að undirrita nýja tilkynningu. Á vinnustað kæranda vinni fólk heima og takmarkanir séu á samskiptum milli samstarfsfólks.

Kærandi hafi óskað eftir endurupptöku málsins og að tilkynningin yrði tekin til afgreiðslu. Ekkert hafi heyrst frá Fæðingarorlofssjóði síðan og komnar væru yfir tvær vikur frá því að óskað hafi verið eftir endurupptöku málsins. Kærandi telji að ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs sé ekki í samræmi við lög og sé því ólögmæt. Kærandi telji málsmeðferð Fæðingarorlofssjóðs einnig vera í ósamræmi við 10. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá telji kærandi að málsmeðferð Fæðingarorlofssjóðs vegna beiðni um endurupptöku í málinu feli í sér brot á 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með kæru fari kærandi fram á að tilkynning um tilhögun fæðingarorlofs, sem kærandi hafi sent Fæðingarorlofssjóði þann 18. febrúar 2021, verði metin fullnægjandi, enda hafi hún verið í samræmi við 2. mgr. 9. gr. og 2. gr. 15. gr. laga nr. 95/2000 og að Fæðingarorlofssjóði beri að afgreiða tilkynninguna.

III.  Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærður sé útreikningur sjóðsins á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Ágreiningur málsins snúi að því hvort heimilt sé að nýta fæðingarorlof með þeim hætti að tímabil þess spanni einungis 12 daga.

Þrátt fyrir að kærandi hafi skráð á tilkynninguna að hann hafi ætlað að klára restina (tvær vikur) hafi það verið talið skýrt við meðferð málsins að kærandi hafi ætlað sér að vera í fæðingarorlofi frá 26. apríl til 7. maí 2021, enda hafi hann tiltekið þær dagsetningar sérstaklega í tilkynningunni. Einnig hafi verið litið til þess að kærandi hafi átt mánuð eftir af fæðingarorlofinu sem hann hafi ekki ráðstafað en ekki tvær vikur. Þá hafi komið fram í tölvupósti frá kæranda, dags. 23. febrúar 2021, að hann teldi að tímabilið sem hann hafi skráð á tilkynninguna væri tvær vikur þar sem tímabilið frá 26. apríl til 7. maí væru tvær vinnuvikur. Með tölvupósti til kæranda, dags. 16. mars 2021, hafi kærandi verið upplýstur um að í 2. mgr. 10. gr. laga nr. 95/2000 kæmi fram að aldrei mætti taka fæðingarorlof skemur en tvær vikur í senn, þ.e. 14 daga. Þá hafi honum einnig verið bent á að hann ætti einn mánuð eftir af fæðingarorlofi sínu vegna barns síns, sem hafi fæðst X 2019, sem hann hafi ekki ráðstafað.

Í 2. mgr. 10. gr. laga nr. 95/2000 segi að aldrei megi taka fæðingarorlof skemur en tvær vikur í senn. Samkvæmt Íslenskri orðabók sé vika sjö daga samfelldur tími. Með vísan til almennrar málvenju séu tvær vikur því 14 dagar. Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóður að ekki hafi verið heimilt að afgreiða tilkynningu kæranda um tilhögun fæðingarorlofs, dags. 18. febrúar 2021, enda hafi tímabilið sem hann hafi skráð á tilkynninguna ekki náð tveimur vikum.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 23. febrúar 2021, um að synja kæranda um greiðslur vegna fæðingarorlofs vegna barns kæranda sem fæddist X 2019.

Kærandi byggir á því að málsmeðferð Fæðingarorlofssjóðs brjóti gegn 9., 10. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 9. gr. laganna kemur fram að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt er. Þar sem leitað sé umsagnar skal það gert við fyrstu hentugleika. Ef leita þarf eftir fleiri en einni umsögn skal það gert samtímis þar sem því verður við komið. Stjórnvald skal tiltaka fyrir hvaða tíma óskað er eftir að umsagnaraðili láti í té umsögn sína. Þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla mála muni tefjast ber að skýra aðila máls frá því. Skal þá upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta. Dragist afgreiðsla máls óhæflega er heimilt að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Í 10. gr. laganna kemur fram að stjórnvald skal sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Þá kemur fram í 12. gr. laganna að stjórnvald skal því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. Af gögnum málsins verður ekki séð að málsmeðferð Fæðingarorlofssjóðs í máli kæranda hafi brotið gegn framangreindum ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt 10. gr. laga nr. 95/2000 á starfsmaður rétt á því að taka fæðingarorlof í einu lagi en með samkomulagi við vinnuveitanda er starfsmanni heimilt að haga fæðingarorlofi á þann veg að það skiptist niður á fleiri tímabil og/eða það verði tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli.

Í 2. mgr. 10. gr. laga nr. 95/2000 kemur fram að aldrei megi taka fæðingarorlof skemur en tvær vikur í senn og að mati úrskurðarnefndarinnar er hér átt við 14 daga samfellt. Kærandi sótti um að nýta fæðingarorlof sitt í 12 daga á tímabilinu 26. apríl til 7. maí 2021 og því bar Fæðingarorlofssjóði að synja umsókn kæranda með vísan til 2. mgr. 10. gr. laganna.

Með vísan til alls framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 23. febrúar 2021, um að synja greiðslum til A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta