Skimun fyrir krabbameini i ristli hefst að ári
Skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi hefst í ársbyrjun 2009. Þetta kom fram í máli heilbrigðisráðherra á Alþingi. Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, svaraði þá fyrirspurn frá Álfheiði Ingadóttur, VG, um málið og kom fram í máli ráðherra að 20 milljónir króna væru til ráðstöfunar í ár vegna undirbúnings. Orðrétt sagði ráðherra: “All mikil vinna hefur verið lögð í undirbúning þessarar skimunar, bæði með starfi hérlendis sem og að fylgjast vel með aðgerðum nágrannaþjóða. Ljóst er að um mjög umfangsmikið verkefni er að ræða, og þýðingarmikið að það takist vel og því mikilvægt að læra af reynslu nágrannaþjóðanna.
Ætlunin er að leitin fari fram á þann hátt að til að byrja með takmarkist leitin við skimun hjá 60 til 69 ára einstaklingum af báðum kynjum. Leiði fyrsta athugun í ljós blóð er viðkomandi boðið að koma til ristilspeglunar þar sem frekari leit verður gerð til að ganga úr skugga um hvort að baki liggi forstigsbreytingar að ristilkrabbameini eða hvort blóðið átti sér saklausari skýringar. Aðrar aðferðir en leit að blóði í hægðum hafa fram að þessu ekki sannað gagnsemi sína en margar rannsóknir standa yfir eða eru fyrirhugaðar til skimunar á einkennalausum aldurshópum. Einnig hafa margar þjóðir farið af stað í skrefum, byrjað með afmarkaða aldurshópa og jafnvel afmarkaða landshluta til þess að skimunin megi fara sem best. Sömuleiðis eru í gangi víða um lönd rannsóknir til að kanna hentugleika annarra aðferða til leitunar eða skimunar að krabbameini í ristli eða endaþarmi, bæði speglanir og lífeindafræðilegar rannsóknir.
Það fjármagn sem heilbrigðisráðuneytinu er ætlað til undirbúnings, þ.e. 20 mkr. Er ætlunin að hefja undirbúningsvinnu innan skamms og kalla til helstu aðila sem þessum málum tengjast, svo sem fulltrúa frá landlækni, Lýðheilsustöð og Krabbameinsfélagi Íslands sem hefur mikla reynslu af skimun eins og kunnugt er. Áformað er að þessum undirbúningi miði þannig, að formleg skimun geti hafist í byrjun árs 2009."