Hoppa yfir valmynd
28. febrúar 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Samstarf um verðlagningu lyfja og greiðsluþátttöku ríkisins

Guðlaugur Þór heilsar sænskum nefndarmönnum
Gudlaugur Þór heilbrigðisráðherra heilsar fulltrúum sænsku lyfjagreiðslunefndarinnar

Fulltrúar sænsku lyfjagreiðslunefndarinnar eru staddir hér á landi og kynna heilbrigðisyfirvöldum breytingar sem orðið hafa á sænska lyfjamarkaðnum.

Svíar státa af hvað lægsta lyfjaverði í löndunum sem Íslendingar bera sig oftast saman við. Af því tilefni og til að kynna sér breytingar sem orðnar eru á sænska lyfjamarkaðnum undanfarin ár fengu heilbrigðisráðuneytið og lyfjagreiðslunefnd fulltrúa frá sænsku lyfjagreiðslunefndina til fundar við sig af því tilefni. Þá hafa verið ræddir möguleikarnir á nánara samstarfi Svía og Íslendinga á sviði lyfjamála og eru þær viðræður liður í stefnu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar heilbrigðisráðherra að opna íslenska lyfjamarkaðinn og stuðla að samnorrænum lyfjamarkaði. Má nefna í þessu sambandi að nú þegar hafa Íslendingar og Svíar tekið upp samstarf sem gengur út á að kanna möguleikana á að gefa út sameiginleg markaðsleyfi fyrir lyf, sem gæti orðið fyrsta skrefið í að opna norrænan lyfjamarkað.

Í Svíþjóð leggja heilbrigðisyfirvöld áherslu á að þegar endurgreiðslur hins opinbera vegna lyfja eru ákvarðaðar, að hver króna í endurgreiðslu skili sem mestu fyrir sjúklinga og skattgreiðendur. Hugmyndanafræðin sem hér liggur að baki er oftast kölluð „verðlagt eftir virði“. Kerfið í Svíþjóð var tekið upp með lagabreytingu árið 2002 og var þá sett á laggirnar lyfjagreiðslunefnd (LFN) til að meta kostnaðarhagkvæmni mismunandi lyfjavalkosta. Samhliða þessu kerfi er síðan virk samkeppni á sænska lyfjamarkaðnum á sviði samheitalyfja.

Þessi hugmynd að “verðleggja eftir virði” hefur verið að breiðast út um hinn vestræna heim og verður í skoðun af hálfu heilbrigðisyfirvalda hér á næstunni. Svíþjóð virðist vera tilvalið samstarfsland þar sem mörg lönd í Evrópu horfa til þeirra sem fyrirmyndar í þessum efnum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta