Hoppa yfir valmynd
17. mars 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 57/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 57/2015

Fimmtudaginn 17. mars 2016

A

gegn

Reykjavíkurborg


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 5. október 2015, kærir A til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála meðferð Reykjavíkurbogar á umsókn hans um félagslegt leiguhúsnæði.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 63. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.


I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um félagslega leiguíbúð hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 8. febrúar 2005. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 21. desember 2005, á þeirri forsendu að skilyrði um þriggja ára samfellda búsetu í Reykjavík væri ekki uppfyllt. Með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 21. ágúst 2006, var kæranda tilkynnt að hann uppfyllti ekki skilyrði um sérstakar húsaleigubætur en hann væri kominn á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði í Reykjavíkurborg. Aðstæður kæranda voru metnar til átta stiga en kærandi hefur enn ekki fengið úthlutað húsnæði.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 5. október 2015. Með bréfi, dags. 10. nóvember 2015, óskaði úrskurðarnefndin eftir gögnum frá Reykjavíkurborg vegna umsóknar kæranda. Afstaða Reykjavíkurborgar vegna kærunnar barst með bréfi, dags. 23. nóvember 2015. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 30. nóvember 2015, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.


II. Málsástæður kæranda

Kærandi greinir frá því að hann sé búinn að bíða í 11 ár eftir félagslegu leiguhúsnæði hjá Reykjavíkurborg og rúmlega þrjú ár hjá Brynju hússjóði. Kærandi gerir ekki sérstakar kröfur í málinu.


III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er farið fram á að máli kæranda verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem hvorki sé ljóst hvert kæruefni kæranda sé né hafi áfrýjunarnefnd velferðarráðs fjallað um mál hans varðandi félagslega leiguíbúð/sérstakar húsaleigubætur og tekið afstöðu í því. Því verði að telja að mál kæranda sé ekki tækt til afgreiðslu hjá úrskurðarnefndinni, sbr. 63. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.


IV. Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa er óljós en skilja verður kæru þannig að kærandi sé ósáttur við að hafa ekki enn fengið úthlutað félagslegu leiguhúsnæði hjá Reykjavíkurborg.  

Í 1. mgr. 63. gr. laga nr. 40/1991 kemur fram að málsaðili geti skotið ákvörðun félagsmálanefndar til úrskurðarnefndar velferðarmála og skal kæra til nefndarinnar lögð fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls barst vitneskja um ákvörðun. Til þess að úrskurðarnefndin geti tekið kæru til efnislegrar meðferðar þarf að liggja fyrir stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvörðun er einungis að ræða hafi stjórnvald tekið ákvörðun um rétt eða skyldu tiltekins aðila í skjóli stjórnsýsluvalds, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga segir að ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, verði ekki kærð til æðra stjórnvalds fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Ákvarðanir sem teknar eru um meðferð stjórnsýslumáls og fela ekki í sér endalok málsins, svokallaðar formákvarðanir, verða því ekki kærðar til úrskurðarnefndarinnar.

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði frá Reykjavíkurborg og hefur verið það frá árinu 2005. Kærandi er ósáttur við að hafa ekki fengið úthlutað húsnæði, en tekið skal fram að það er ekki á valdsviði úrskurðarnefndar velferðarmála að taka ákvarðanir um úthlutun félagslegs húsnæðis. Ekki er að sjá að tekin hafi verið kæranleg stjórnvaldsákvörðun í tilviki kæranda og ekki verið óskað eftir því að áfrýjunarnefnd velferðarráðs tæki slíka ákvörðun. Með vísan til framangreinds er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.


F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

______________________________

Kári Gunndórsson

 

 

 

                                                                    

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta