Hoppa yfir valmynd
14. apríl 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 59/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 59/2015

Fimmtudaginn 14. apríl 2016

A

gegn

Vinnumálastofnun


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Margrét Gunnlaugsdóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni þann 17. september 2015, kærði A, til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar frá 1. júlí 2015.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 11. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 1. maí 2015. Sama dag sótti kærandi um U2-vottorð til að fá greiddar atvinnuleysisbætur í B á meðan hún leitaði sér að vinnu þar. Samkvæmt umsókninni var dagsetning brottfarar frá Íslandi 1. júlí 2015. Umsóknin var samþykkt en kærandi sótti ekki U2-vottorðið til Vinnumálastofnunar. Greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda voru stöðvaðar frá 1. júlí 2015.

Þann 8. september 2015 óskaði kærandi eftir upplýsingum Vinnumálastofnunar um hvers vegna hún hefði ekki fengið greiddar atvinnuleysisbætur. Þann 10. september 2015 var kæranda tjáð að þar sem Vinnumálastofnun hefði ekki borist upplýsingar um atvinnuleit hennar frá B hafi ekki verið unnt að greiða henni atvinnuleysisbætur. Þar að auki hafi hún aldrei sótt U2-vottorðið og farið til útlanda fyrir gildistíma þess.

Kæra barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 17. september 2015. Með bréfi, dags. 17. september 2015, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 4. nóvember 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. nóvember 2015, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur fyrir þá þrjá mánuði sem hún hafi verið erlendis sumarið 2015. Kærandi greinir frá því í kæru að hún hafi sótt um að fá að fara í atvinnuleit erlendis. Áður en hún hafi farið út hafi hún verið beðin um að senda eyðublað þess efnis að hún yrði atvinnuleitandi erlendis frá og með 1. júní. Það hafi verið samþykkt en hún hafi ekki fengið bækling um hvernig standa skyldi að þegar út kæmi. Ekkert hafi borist frá Vinnumálastofnun um að eyðublað hafi vantað.

Hún hafi samviskusamlega ávallt staðfest atvinnuleit sína á réttum tíma og greint réttilega frá því þegar hún hafi fengið vinnu frá 1. september. Eftir að hún hafi farið út hafi hún enga tilkynningu fengið frá Vinnumálastofnun annað en sjálfvirkt svar við staðfestingu á atvinnuleit. Síðar hafi komið í ljós að vegna þess að hún hafi ekki skráð sig sem atvinnuleitanda hjá atvinnumálastofnun í B fái hún ekki greitt. Henni hafi aldrei verið sagt frá þessu þrátt fyrir að hún væri í reglulegu sambandi við Vinnumálastofnun. Þá hafi henni ekki verið tilkynnt um að hún fengi ekki greitt. Hún hafi samviskusamlega leitað að vinnu allt sumarið á eigin vegum og fundið vinnu upp á sitt einsdæmi.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að í c-lið 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um að umsækjandi um greiðslur atvinnuleysistrygginga þurfi að vera búsettur og staddur hér á landi til að teljast tryggður samkvæmt lögunum. Í VIII. kafla laganna sé að finna undanþágu frá framangreindri meginreglu. Í kaflanum sé að finna ákvæði er lúti að atvinnuleit eða atvinnu í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum.

Samkvæmt 42. gr. laganna sé Vinnumálastofnun heimilt að greiða atvinnuleysisbætur til atvinnuleitanda sem sé í atvinnuleit í öðru EES-ríki ef hann uppfylli tiltekin skilyrði.  Í 3. mgr. 42. gr. segi að Vinnumálastofnun gefi út viðeigandi vottorð til staðfestingar á rétti hins tryggða samkvæmt ákvæðinu. Eitt af þeim skilyrðum sem atvinnuleitandi þurfi að uppfylla til að eiga rétt á bótum erlendis sé að hann hafi skráð sig í atvinnuleit hjá vinnumiðlun í því ríki þar sem atvinnuleitin fari fram innan sjö virkra daga frá brottfarardegi. Kærandi uppfylli ekki framangreint skilyrði, enda hafi hún aldrei skráð sig hjá vinnumiðlun í B.

Í kæru sinni til nefndarinnar geri kærandi athugasemdir við að hún hafi ekki fengið nægar upplýsingar um að henni bæri að skrá sig hjá vinnumiðlun erlendis. Kærandi vísi einnig  í málflutningi sínum ítrekað til þess að eyðublað hafi vantað eða ekki borist og hún telji það mistök Vinnumálastofnunar. Staðreyndin sé sú að kærandi hafi aldrei sótt U2-vottorð sitt til Vinnumálastofnunar, enda hafi hún farið utan áður en vottorð hafi verið gefið út og fyrir gildistíma þess. Þá bendi stofnunin á að í umsókn sinni um U2-vottorð staðfesti kærandi að hafa fengið upplýsingar um þær reglur sem gildi um flutning atvinnuleysisbóta á milli EES-landa. Í þeim komi skýrt fram að atvinnuleitandi þurfi að skrá sig á skrifstofu vinnumiðlunar í því landi sem viðkomandi sé að leita að vinnu til að fá greiddar atvinnuleysisbætur. Enn fremur segi að skráning þurfi að eiga sér stað innan sjö daga frá gildistöku vottorðs. Að auki séu ítarlegar upplýsingar um U2-vottorð á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Kæranda hafi því verið veittar nauðsynlegar upplýsingar um útgáfu á U2-vottorði.

Þar sem kærandi hafi ekki skráð sig í atvinnuleit hjá vinnumiðlun í B sé það afstaða Vinnumálastofnunar að kærandi eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum á gildistíma vottorðs eða frá og með 1. júlí 2015. Þar að auki segi í 43. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að Vinnumálastofnun sé heimilt að greiða atvinnuleysisbætur samkvæmt 42. gr. í allt að þrjá mánuði frá brottfarardegi atvinnuleitanda. Ljóst sé að kærandi hafi farið til útlanda áður en heimild samkvæmt U2-vottorði hafi tekið gildi. Vinnumálastofnun hafi greitt henni atvinnuleysisbætur til 1. júlí 2015. Ekki sé ljóst hvenær kærandi hafi farið af landi brott en það liggi fyrir að hún hafi staðfest atvinnuleit sína frá B þann 20. júní 2015. Þá liggi fyrir að kærandi hafi ekki haft samband við Vinnumálastofnun í júnímánuði og hún hafi í tölvupósti og kæru til nefndarinnar sagt að hún hafi óskað eftir því að fara til útlanda í atvinnuleit frá 1. júní. Vinnumálastofnun telji líkur á því að kærandi hafi farið af landi brott í byrjun júní 2015. Kærandi hafi því farið utan fyrir brottfarardag, sbr. 43. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í kæru til kærunefndar og í tölvupósti til Vinnumálastofnunar, dags. 10. september 2015, segist kærandi hafa sótt um að fara til útlanda frá og með 1. júní í atvinnuleit. Sú fullyrðing kæranda sé röng. Í umsókn hennar um U2-vottorð tilgreini kærandi 1. júlí 2015 sem dagsetningu brottfarar. Afrit af umsókn kæranda um U2-vottorð sé meðal gagna í máli þessu.  

Vinnumálastofnun bendi á að kærandi eigi ekki rétt á bótum á meðan hún dvelji erlendis nema undanþága VIII. kafla laganna eigi við. Kærandi eigi því ekki heldur rétt á atvinnuleysisbótum fyrir það tímabil sem hún hafi dvalið erlendis fyrir brottfarardag.  Ákvörðun um endurkröfu á ofgreiddum atvinnuleysisbótum hafi ekki verið tekin í máli kæranda þar sem stofnunin hafi frestað frekari athugun á máli kæranda á meðan kærumál hennar væri til meðferðar hjá nefndinni.  

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda frá 1. júlí 2015 á grundvelli c-liðar 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og VIII. kafla laganna.

Samkvæmt c-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er það eitt af almennum skilyrðum fyrir því að atvinnuleitandi teljist tryggður samkvæmt lögunum að hann sé búsettur og staddur hér á landi.

Í VIII. kafla laga um atvinnuleysistryggingar er að finna undanþágu frá framangreindri meginreglu um búsetu á Íslandi. Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laganna er heimilt að greiða atvinnuleysisbætur til þess sem telst tryggður samkvæmt lögunum og er í atvinnuleit í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamingi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Samkvæmt d-lið 1. mgr. 42. gr. laganna er eitt af skilyrðunum það að atvinnuleitandi skrái sig í atvinnuleit hjá vinnumiðlun í því ríki sem atvinnuleitin fari fram samkvæmt lögum þess ríkis innan sjö virkra daga frá brottfarardegi.

Óumdeilt er að kærandi skráði sig ekki í atvinnuleit hjá vinnumiðlun í B. Kærandi byggir hins vegar á því að hún hafi ekki fengið upplýsingar um að þess þyrfti. Þá gerir kærandi athugasemd við að henni hafi ekki verið tilkynnt um það þegar greiðslur til hennar hafi verið stöðvaðar.

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um U2-vottorð með umsókn, dags. 1. maí 2015. Í umsókninni staðfesti kærandi að hún hefði fengið upplýsingablað um þær reglur sem gildi um flutning atvinnuleysisbóta á milli EES-landa. Framangreint upplýsingablað liggur fyrir í gögnum málsins og þar kemur skýrt fram að atvinnuleitanda beri að skrá sig hjá vinnumiðlun í því ríki sem hann hyggist leita að vinnu. Einnig er að finna ítarlegar upplýsingar á heimasíðu Vinnumálastofnunar um atvinnuleit erlendis þar sem hið sama kemur fram. Úrskurðarnefnd velferðarmála fellst því ekki á að Vinnumálastofnun hafi vanrækt leiðbeiningarskyldu sína.

Fyrir liggur að kæranda var ekki tilkynnt um það þegar greiðslur til hennar voru stöðvaðar. Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal ákvörðun tilkynnt aðila máls nema það sé augljóslega óþarft. Vitneskja málsaðila um efni stjórnvaldsákvörðunar er forsenda þess að hann hafi möguleika á því að taka afstöðu til hennar og haga ráðstöfunum sínum í samræmi við hana. Ákvörðun um að stöðva greiðslur til kæranda var íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun og að mati úrskurðarnefndar var Vinnumálastofnun skylt að tilkynna kæranda um hana. Úrskurðarnefndin beinir þeim tilmælum til Vinnumálastofnunar að gætt sé að framangreindu ákvæði stjórnsýslulaga þegar teknar eru stjórnvaldsákvarðanir hjá stofnuninni.

Hins vegar verður hin kærða ákvörðun ekki felld úr gildi á þeim grundvelli að birtingu hennar hafi verið áfátt. Það er fortakslaust skilyrði samkvæmt d-lið 1. mgr. 42. gr. um atvinnuleysistryggingar að atvinnuleitandi skrái sig í atvinnuleit hjá vinnumiðlun í því ríki sem atvinnuleitin fer fram. Kærandi gerði það ekki og því bar Vinnumálastofnun að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er hin kærða ákvörðun staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, í máli A, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda frá 1. júlí 2015, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta