Mikill árangur af aðgerðum stjórnvalda vegna orkuskipta
Orkuskipti fólksbílaflotans ganga vel. Ísland er meðal fremstu þjóða á heimsvísu í rafbílavæðingu, en stjórnvöld hafa m.a. stutt við kaup á vistvænum bílum með ívilnunum í virðisaukaskatti (VSK). Í fólksbílaflota landsmanna eru hreinorkubílar (rafmagns- og vetnisbílar) og tengiltvinnbílar í umferð nú 11% - þar af 6,5% tengiltvinnbílar og 4,5% rafmagnsbílar.
Í þau nær tíu ár sem stutt hefur verið við kaup á vistvænum bílum hafa æ fleiri keypt slíka bíla og hefur þeim fjölgað mikið á stuttum tíma. Hlutdeild þeirra í nýskráningum jókst úr 22% árið 2019 í 46% á árinu 2020 og á árinu 2021 fór hlutfallið upp í 58%.
11 milljarðar VSK felldir niður vegna kaupa á hreinorkubílum sem auk þess bera engin vörugjöld
Hámark á niðurfellingu VSK fyrir hreinorkubíla er í dag 1.560.000 kr. á hvern bíl. Fyrirkomulagið gildir til 31. desember 2023 og er með samskonar fjöldamörkum og gilda um tengiltvinnbíla. Það þýðir að samkvæmt gildandi lögum verður hætt að veita ívilnanir eftir að samtals 15 þúsund bílum er náð.
Frá upphafi ívilnunarkerfisins, 1. júlí 2012, hefur ríkið fellt niður rúma 11 ma.kr. VSK vegna kaupa á hreinorkubílum, þar af um 5 ma.kr. á síðasta ári. Séu tengiltvinnbílar meðtaldir nemur ívilnunin frá upphafi um 23,5 ma.kr.
Einnig er rétt að minna á að hreinorkubílar hafa ekki borið vörugjald síðastliðinn áratug eða síðan vörugjaldið fór að miðast við losun bíls, en sú skattalækkun skiptir milljörðum og hefur lækkað markaðsverð slíkra bíla verulega.
Eftir hina hröðu þróun á nýliðnu ári eru horfur á að fjöldamörk hreinorkubíla sem fá VSK-ívilnun geti hugsanlega náðst um mitt ár 2022. Ráðuneytið hefur því þegar hafist handa við að skoða gildandi fjöldamörk og möguleikann á hækkun þeirra í ljósi markmiða stjórnvalda um orkuskipti í samgöngum og aðgerðaráætlunar stjórnvalda í loftslagsmálum.
12,4 milljarðar felldir niður vegna kaupa á tengiltvinnbílum
Um áramótin lækkaði hámark á niðurfellingu VSK við kaup á tengiltvinnbíl um helming og fór úr 960.000 kr. í 480.000 kr. á hvern bíl í samræmi við lög nr. 154/2019, um breytingu á lögum um virðisaukaskatt og lögum um tekjuskatt (vistvæn ökutæki o.fl.), sem samþykkt voru á Alþingi í desember 2019. Stuðningskerfið gildir áfram til ársloka 2022 eða uns 15.000 bílar hafa fengið ívilnun. Um miðjan desember sl. hafði virðisaukaskattur verið felldur niður vegna rúmlega 13 þúsund tengiltvinnbíla og má því gera ráð fyrir að 15.000 bíla markinu verði náð í vor.
Frá upphafi ívilnunarkerfisins, 1. júlí 2012, hefur ríkið fellt niður alls um 12,4 ma.kr. VSK vegna tengiltvinnbíla, þar af 3,8 ma.kr. á síðasta ári.
Ísland verði fyrst ríkja óháð jarðefnaeldsneyti árið 2040
Ríkisstjórnin hefur sett sér metnaðarfull markmið um að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja. Til þess að ná settum markmiðum þurfa aðgerðir stjórnvalda að vera markvissar og taka mið af stöðunni hverju sinni.
Með því að láta staðar numið í að niðurgreiða kaupverð tengiltvinnbíla þegar fjöldamörkum er náð hættir ríkissjóður niðurgreiðslu á bílum sem losa gróðurhúsalofttegundir á sama tíma og ívilnanir vegna hreinorkubíla halda áfram.
Þannig verða hreinorkubílar enn hagkvæmari kostur en ella. Þá er samhljómur um það meðal framleiðenda og fagaðila að hreinorkubílar séu varanleg lausn. Áhersla bílaframleiðenda er á hreinorkubíla, gera má ráð fyrir að þeir verði æ samkeppnishæfari í úrvali og verði og VSK-ívilnunin mun styðja það enn frekar að hreinorkubíll verði fyrir valinu.
Í fleiri nágrannaríkjum Íslands er nú einnig dregið úr stuðningi við tengiltvinnbíla en hann hefur óvíða verið jafnmikill og hérlendis. Sé litið til Noregs þar sem hraðast hefur gengið að ná upp hlutdeild rafbíla beinast VSK-ívilnanir eingöngu að hreinorkubílum. Í norsku fjárlögunum fyrir árið 2022, sem voru samþykkt í síðasta mánuði, er kveðið á um fjölþættar breytingar til að ljúka orkuskiptunum og auka tekjur ríkisins af ökutækjum á ný. Norsk stjórnvöld stefna að því að allir nýskráðir bílar verði hreinorkubílar árið 2025.
Við mótun næstu skrefa hér á landi verður sömuleiðis horft til annarra brýnna orkuskiptaaðgerða á komandi misserum. Meðal þeirra er efling hleðsluinnviða, m.a. á landsbyggðinni, rafbílavæðing bílaleiga og stuðningur við þá bifreiðaeigendur sem ekki hafa enn hugað að eigin orkuskiptum. Í því samhengi má nefna tekjulægri heimili sem bera í dag háan rekstrarkostnað af jarðefnaeldsneytisbíl.