Utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins fögnuðu 75 ára afmæli bandalagsins
Í dag, 4. apríl, eru liðin 75 ár frá stofnun Atlantshafsbandalagsins með undirritun Atlantshafssáttmálans árið 1949. Tímamótanna var fagnað á fundi utanríkisráðherra bandalagsins sem fram fór í Brussel í dag.
„Atlantshafsbandalagið er stærra, sterkara og sameinaðra en nokkru sinni fyrr,“ sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri bandalagsins, við hátíðlega athöfn að viðstöddum utanríkisráðherrum bandalagsríkjanna í höfuðstöðvum bandalagsins í morgun. Fundurinn markaði einnig þau tímamót að Svíþjóð tók í fyrsta sinn þátt í ráðherrafundi sem bandalagsríki.
Á fundi ráðherranna voru til umræðu helstu mál á vettvangi bandalagsins í aðdraganda leiðtogafundarins sem fram fer í Washington í Bandaríkjunum í júlí. Ráðherrarnir ræddu málefni Úkraínu og mögulegar leiðir til að efla pólitískan og hagnýtan stuðning við landið til bæði skemmri og lengri tíma litið. Ákveðið var að vinna áfram að þróun tillagna um veigameira hlutverk Atlantshafsbandalagsins við að samhæfa öryggisaðstoð fyrir Úkraínu, þjálfun liðsafla úkraínska hersins, sem og leiðir til að styðja við uppbyggingu herafla landsins til framtíðar. Þá ræddu áðherrarnir sömuleiðis aukinn varnarviðbúnað, viðbragðsgetu og framlög til varnarmála. Loks samþykktu ráðherrarnir nýja stefnu Atlantshafsbandalagsins um konur, frið og öryggi.
Fundað var á vettvangi NATO-Úkraínuráðsins, þar sem rætt var um áframhaldandi stuðning bandalagsríkja við varnir Úkraínu. Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, sat fundinn og upplýsti ráðherrana um stöðuna í stríðinu og stórfelldar loft- og eldflaugaárásir rússneska hersins á borgaralega innviði, þar á meðal orkuver landsins. Hann kallaði eftir auknum stuðningi á sviði loftvarna og annars varnarviðbúnaðar, svo sem með skotfærum.
Þá funduðu utanríkisráðherrar Atlantsafsbandalagsins með samstarfsríkjunum á Indó-Kyrrahafssvæðinu; Ástralíu, Nýja-Sjálandi, Japan og Suður-Kóreu, ásamt utanríkismálastjóra Evrópusambandsins. Þar var fjallað um svæðisbundin og hnattræn áhrif árásarstríðs Rússa í Úkraínu, þ.á.m. stuðning Norður-Kóreu og annarra ríkja við stríðsrekstur Rússa, sameiginlegar öryggisáskoranir, svo sem netvarnir, viðnámsþol, afvopnunarmál og siglingaöryggi. Þá var rætt um áframhaldandi styrkingu á samstarfi bandalagsins og Indó-Kyrrahafsríkjanna við undirbúning á leiðtogafundinum sem sóttur verður af ríkjunum fjórum.
Hermann Ingólfsson, sendiherra og fastafulltrúi Íslands hjá Atlantshafsbandalagsins, tók þátt á fundinum fyrir hönd Íslands.