Hoppa yfir valmynd
25. júní 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Skerðingar afnumdar og frítekjumark hækkað

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra ásamt Ragnheiði Ríkharðsdóttur og Sigrúnu Magnúsdóttur alþingismönnum
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra ásamt Ragnheiði Ríkharðsdóttur og Sigrúnu Magnúsdóttur alþingismönnum

Greiðslur um 7.000 lífeyrisþega munu hækka, frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega hækkar verulega og lífeyristekjur munu ekki lengur skerða grunnlífeyri, verði frumvarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, um afnám ýmissa skerðinga samþykkt. Eygló kynnti efni frumvarpsins á fréttamannafundi í velferðarráðuneytinu í dag en hún vonast til að geta mælt fyrir því á Alþingi í vikunni. Fundinn sátu einnig þingflokksformenn ríkisstjórnarflokkanna; Sigrún Magnúsdóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir.

Árið 2009 voru gerðar ýmsar breytingar á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra sem leiddu til umtalsverðra skerðinga á kjörum aldraðra og öryrkja. Breytingarnar fólust meðal annars í því að fjármagnstekjur voru látnar skerða að fullu tekjutengdar greiðslur í stað 50% skerðingar áður og eins var frítekjumark ellilífeyrisþega vegna atvinnutekna lækkað umtalsvert. Lífeyrissjóðstekjur voru teknar inn í útreikning við ákvörðun grunnlífeyris og gátu þannig skert grunnlifeyrinn.

Hætt verður að skerða grunnlífeyri vegna lífeyristekna

Verði frumvarp félags- og húsnæðismálaráðherra að lögum aukast framlög ríkisins til almannatrygginga um 850 milljónir króna á þessu ári og um 1,6 milljarða árið 2014 þegar áhrif breytinganna eru komin fram að fullu. Greiðslur hækka hjá um 7.000 lífeyrisþegum, þar af eru um 2.500 einstaklingar sem ekki hafa fengið greiðslur að undanförnu vegna tekjuskerðinga en öðlast rétt til lífeyris á ný.

Frumvarp ráðherra er fyrsta skrefið til þess að draga til baka skerðingar frá árinu 2009 í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar. Auk þess er hafin vinna við afnám annarra skerðinga og á það meðal annars við um lækkun skerðingarhlutfalls tekjutryggingar úr 45% í 38,35%. Heildaráhrif af væntanlegum bótahækkunum þegar þær verða að fullu komnar til framkvæmda árið 2014 eru áætluð um 4,6 milljarðar króna.

Helstu breytingarnar sem felast í frumvarpi félags- og húsnæðismálaráðherra til breytinga á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra eru þessar:

  • Frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega við útreikning tekjutryggingar hækkar úr 480.000 kr. á ári í 1.315.200 kr. á ári.
  • Lífeyrissjóðstekjur munu ekki lengur skerða grunnlífeyri almannatrygginga.
  • Eftirlitsheimildir Tryggingastofnunar eru auknar og aðgangur stofnunarinnar að upplýsingum sem taldar eru nauðsynlegar við ákvörðun bóta er rýmkaður. Með því móti er stuðlað að því að greiðslur til lífeyrisþega verði réttari og að draga megi úr bótasvikum.
  • Hækkanir á greiðslum til lífeyrisþega samkvæmt framantöldum breytingum taka gildi 1. júlí næstkomandi og koma til framkvæmda 1. ágúst.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta