Ísland fullgildir samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunar (ILO) um vinnuskilyrði farmanna
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, afhenti í dag Guy Ryder, forstjóra Alþjóðavinnumálastofnunar, skjal til staðfestingar á fullgildingu Íslands á samþykkt Alþjóðavinnumálstofnunarinnar nr. 186 um vinnuskilyrði farmanna. Guy Ryder er staddur hér á landi í tengslum við norræna ráðstefnu um framtíðarskipan vinnumála og breytingar á vinnumarkaði sem haldin er í Hörpu í tilefni af aldarafmæli Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Hann sat sömuleiðis fund Norrænu ráðherranefndarinnar um vinnumál í Safnahúsinu í gær.
Í samþykktinni, sem er frá 2006, er bæði að finna skuldbindandi ákvæði og ákvæði sem fela í sér leiðbeiningar eða ábendingar um framkvæmd. Samþykktin fjallar meðal annars um lágmarkskröfur sem sjómenn þurfa að uppfylla til að mega vinna um borð í skipum, vistarverur þeirra, heilsuvernd, velferð og almannatryggingar.
Guy Ryder fékk skjalið afhent í Hörpu og blasti Reykjavíkurhöfn við í baksýn. Ásmundur Einar sagði það táknrænt fyrir innihald samþykktarinnar.
Hún hefur síðastliðinn áratug verið af og til á dagskrá samráðsnefndar félagsmálaráðuneytisins (áður velferðarráðuneytisins) og helstu samtaka á vinnumarkaði um málefni Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Um hana hefur einnig verið fjallað í sérstökum vinnuhópi samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins (áður innanríkisráðuneytisins). Í ljós kom að íslenskt laga- og reglugerðarumhverfi var ekki í samræmi við þær skuldbindingar sem felast í samþykktinni. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið brást við með því að semja frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna alþjóðasamþykktar um vinnuskilyrði farmanna. Frumvarpið varð að lögum nr. 82 árið 2018 og var hindrunum fyrir fullgildingu samþykktarinnar þar með rutt úr vegi.
Það var orðið aðkallandi að Ísland fullgilti samþykktina. Ísland er aðili að Parísarsamkomulagi um hafnarríkiseftirlit ásamt nítján öðrum ríkjum. Tilgangur þess er að stemma stigu við siglingum skipa sem uppfylla ekki alþjóðakröfur um aðbúnað, öryggi og hollustuhætti áhafna kaupskipa, atvinnuréttindi þeirra og mengun frá skipum. Þar sem Ísland hafði ekki fullgilt samþykktina gátu íslenskir hafnarríkiseftirlitsmenn ekki beitt fullnustuákvæðum hafnarríkiseftirlits hvað varðar þá þætti sem falla undir samþykktina ef þeir urðu varir við brot gegn ákvæðum hennar. Með fullgildingu Íslands er neti Parísarsamkomulagsins lokað gagnvart undirmálsskipum.