Tvær nýjar reglugerðir um húsnæðismál
Félagsmálaráðherra hefur gefið út reglugerð um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf, nr. 522/2004, og reglugerð um lánshlutfall og hámarksfjárhæð ÍLS-veðbréfa, nr. 521/2004. Reglugerðirnar voru gefnar út 5. júní sl. og taka gildi 1. júlí nk.
Reglugerðir þessar koma í stað reglugerðar um húsbréf og húsbréfaviðskipti, nr. 157/2001, með síðari breytingum. Breyting þessi er nauðsynleg vegna breytingar á lögum um húsnæðismál nr. 57/2004 og tilkomu ÍLS-veðbréfa og íbúðabréfa hjá Íbúðalánasjóði þann 1. júlí nk.
Reglugerð um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf, nr. 522/2004
Helstu breytingar þeirrar reglugerðar eru:
I. Varðandi íbúðabréf
Í stað þess að Íbúðalánasjóður gefi út tvær tegundir verðbréfa eins og verið hefur, þ.e. húsbréf og húsnæðisbréf, gefur sjóðurinn framvegis einungis út eina tegund verðbréfa, íbúðabréf.
- Íbúðabréf verða boðin út á almennum markaði. Íbúðabréf, verða ekki með innköllunarákvæði og endurgreidd með afborgunum tvisvar á ári og verða þau tengd neysluverðsvísitölu. Þrír nýir flokkar verða gefnir út í íslenskum krónum, skráðir hjá Kauphöll Íslands.
- Form bréfanna, afborgunarskilmálar og tilvísanir í neysluverðsvísitölu munu verða aðgengilegar á íslenskum og alþjóðlegum upplýsingamiðlum.
II. Varðandi ÍLS-veðbréf
Til að undirstrika að um er að ræða kerfisbreytingu kemur nýtt heiti, ÍLS-veðbréf, í stað núverandi fasteignaveðbréfa sem skiptanleg eru fyrir húsbréf. Hér skulu nefnd nokkur nýmæli er varða ÍLS-veðbréf:
-
ÍLS-veðbréf eru verðtryggð jafngreiðslubréf með fjórum eða tólf endurgreiðslum á ári.
-
Lántakendur fá greidd lán sín greidd út í peningum. Kjör lánanna miðast við fjármagnskostnað Íbúðalánasjóðs í heild, þ.e. vaxtakjör sem ráðast af niðurstöðu útboðs íbúðabréfa og fjármagnskjör vegna uppgreiðslna lána Íbúðalánasjóðs. Vaxtaákvörðun mun byggja á vegnu meðaltali þessara tveggja þátta. Að auki kemur álag sem sjóðurinn bætir við, líkt og nú tíðkast við lánveitingar Íbúðalánasjóðs og sölu hans á húsnæðisbréfum.
-
Lántakendur geta valið um lánstíma til 20, 30 og 40 ára.
-
Lánshæfur byggingarkostnaður af nýbyggingum er miðaður við endurstofnverð íbúðar að viðbættu lóðarmati samkvæmt Landsskrá fasteigna FMR (12. tölul. 2. gr.).
-
Gjalddagi ÍLS-veðbréfa er fyrsti dagur greiðslumánaðar í stað þess fimmtánda áður. Eindagi verður áfram fimmtán dögum eftir gjalddaga (13. gr.).
-
Reglur um útgáfu viðaukabréfa vegna kaupa á notaðri íbúð eru þrengdar. Einungis er gert ráð fyrir einu viðaukabréfi og skal það gefið út eigi síðar en ári frá dagsetningu kaupsamnings (18. gr.).
-
Lánafyrirgreiðsla Íbúðalánasjóðs til íbúðarkaupenda og húsbyggjenda mun takmarkast við að sami aðili geti ekki á sama tíma átt fleiri en tvær íbúðir sem á hvíla lán frá Íbúðalánasjóði. Í undantekningartilvikum getur þó sjóðurinn veitt lán út á þriðju íbúðina enda sé um að ræða sérstakar aðstæður lántaka (21. gr). Breyting þessi hefur ekki áhrif á þegar keyptar eignir.
-
Lánsfjárhæð til endurbóta er miðuð við staðfestan framkvæmdakostnað. Lán verður ekki afgreitt fyrr en framkvæmdum er lokið og eigi síðar en sex mánuðir eru liðnir frá lokum framkvæmda (25. og 26. gr.).
-
Lánstími lána vegna endurbóta getur verið lengri en boðið hefur verið upp á til þessa (13. gr.).
Við endurskoðun reglugerðarinnar var hugað að fleiri atriðum í leiðinni svo sem framkvæmd og jaðartilvikum. Má þar nefna að ekki er lengur gerður áskilnaður um greiðslumat þegar um er að ræða skuldaraskipti vegna andláts maka (10. gr.).
Reglugerð um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf, nr. 522/2004.
Reglugerð um lánshlutfall og hámarksfjárhæð ÍLS-veðbréfa, nr. 521/2004
Farin var sú leið að útbúa sérstaka reglugerð - reglugerð um lánshlutfall og hámarksfjárhæð ÍLS-veðbréfa. Í þeirri reglugerð koma fram hámarks- og lágmarksfjárhæðir ÍLS-veðbréfa. Tekið skal fram að þær fjárhæðir er koma þar fram eru óbreyttar frá eldri reglugerð um húsbréf og húsbréfaviðskipti. Er þetta gert til að einfalda breytingar á lánshlutfalli og lánsfjárhæðum.
Reglugerð um lánshlutfall og hámarksfjárhæð ÍLS-veðbréfa, nr. 521/2004.