Hoppa yfir valmynd
17. september 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 318/2019 Úrskurðir

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 17. september 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 318/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19050024

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 13. maí 2019 kærði […], fd. […], ríkisborgari Víetnam (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. maí 2019, um synjun á dvalarskírteini á Íslandi og að réttur hans til dvalar færi fallinn niður, sbr. 1. og 2. mgr. 92. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Með kærunni er þess óskað að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að umsókn kæranda um dvalarskírteini á Íslandi verði samþykkt. Til vara er þess krafist að málinu verði vísað aftur til Útlendingastofnunar til frekari rannsóknar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins gekk kærandi í hjónaband í Víetnam með […], fd. […], ríkisborgara Svíþjóðar, þann 18. nóvember 2016. Fyrir liggur að maki kæranda er búsett á Íslandi. Í tengslum við umsókn kæranda um vegabréfsáritun inn á Schengen svæðið, dags. 9. júní 2017, óskuðu útlendingayfirvöld í Danmörku eftir því við danska sendiráðið í Víetnam að tekin yrðu viðtöl við kæranda og maka hans, m.a. varðandi það hvort hjúskapur þeirra væri til málamynda, sbr. beiðnir dags. 26. júlí, 8. ágúst og 8. október 2017. Samkvæmt bréfi, dags. 6. mars 2018, frá dönskum útlendingayfirvöldum til danska sendiráðsins í Víetnam, var umsókn kæranda um vegabréfsáritun samþykkt.

Samkvæmt því sem kemur fram í hinni kærðu ákvörðun lagði kærandi fram umsókn til Útlendingastofnunar hér á landi, þann 6. apríl 2018, um dvalarskírteini fyrir útlending sem er ekki EES- eða EFTA-borgari á grundvelli hjúskapar með EES- eða EFTA-borgara. Í málinu liggur m.a. fyrir afrit af skráningu kæranda sem ríkisborgara utan EES vegna fjölskyldusameiningar við EES ríkisborgara, móttekið hjá Útlendingastofnun þann 6. apríl 2018. Með tveimur bréfum Útlendingastofnunar, dags. 1. og 29. október 2018, var óskað eftir frekari gögnum og upplýsingum frá kæranda í tengslum við umsókn hans. Með bréfum frá kæranda og lögmanni hans, dags. 5. nóvember 2018, var þeim fyrirspurnum svarað.

Þann 5. desember 2018 beindi Útlendingastofnun beiðni til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um aðstoð vegna rannsóknar, m.a. á hugsanlegum málamyndunarhjúskap kæranda og maka hans. Þann 12. desember 2018 fór lögreglan að heimili kæranda og maka hans og í málinu liggur fyrir skýrsla lögreglu, dags. 19. desember 2018, sem Útlendingastofnun fékk afhenta degi síðar. Með bréfi frá Útlendingastofnun, dags. 19. mars 2019, var kæranda tilkynnt um hugsanlegan grun stofnunarinnar um að til hjúskapar hans og maka hefði verið stofnað til málamynda, sbr. 2. mgr. 92. gr. laga um útlendinga. Var kæranda veittur frestur til að leggja fram gögn og andmæli. Kærandi lagði fram greinargerð til stofnunarinnar, dags. 3. maí 2019.

Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. maí 2019, var umsókn kæranda um dvalarskírteini synjað og réttur hans til dvalar felldur niður, sbr. 1. og 2. mgr. 92. gr. laga um útlendinga. Kærandi móttók ákvörðunina samdægurs. Kærandi kærði ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála þann 13. maí 2019. Með bréfi, dags. 23. maí sl., féllst kærunefnd á beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa. Þann 28. maí 2019 barst kærunefnd greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum. Þann 12. júní 2019 óskaði kærunefnd eftir frekari gögnum frá Útlendingastofnun og bárust þau samdægurs.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur m.a. fram að við vinnslu umsóknar kæranda um dvalarskírteini fyrir útlending sem væri ekki EES- eða EFTA-borgari á grundvelli hjúskapar með EES- eða EFTA-borgara, dags. 6. apríl 2018, hafi vaknað grunur hjá stofnuninni um að til hjúskapar kæranda og maka hans hefði verið stofnað til málamynda og í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis. Vísaði Útlendingastofnun til og rakti efni bréfs stofnunarinnar til kæranda, dags. 19. mars 2019, þar sem fjallað væri um helstu ástæður fyrir framangreindum grun, og þá var gerð grein fyrir inntaki ýmissa ákvæða í lögum um útlendinga, m.a. 1. og 2. mgr. 92. gr. laganna.

Komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að rökstuddur grunur væri til staðar um að umræddur hjúskapur væri til málamynda. Tiltók stofnunin einkum þrjú atriði í því samhengi. Í fyrsta lagi, að kærandi og maki hans hefðu ekki búið saman fyrir stofnun hjúskapar, í öðru lagi, að þau þekktu ekki til einstakra atriða eða atvika úr lífi hvors annars, og í þriðja lagi, að kærandi ætti ættingja hér á landi, m.a. dóttur og þá byggi fyrrverandi eiginkona hans jafnframt hér á landi en ýmislegt benti til þess að núverandi maki kæranda og fyrrverandi eiginkona hans væru vinkonur. Var umsókn kæranda um dvalarskírteini synjað og dvalarréttur felldur niður, sbr. 1. og 2. mgr. 92. gr. laga um útlendinga.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur m.a. fram að hann hafi kynnst maka sínum í Víetnam árið 2015. Góð kynni hafi tekist á með þeim og þau gengið í hjónaband árið 2016. Maki kæranda sé sænskur ríkisborgari. Kærandi vísar til 70. gr. laga um útlendinga, m.a. 8. mgr. ákvæðisins, sem og 92. gr. laganna. Með 1. mgr. 70. gr. laganna hafi verið lögfest réttindi manna til friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu, sem njóti verndar 71. gr. íslensku stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga, sbr. og 2. mgr. 92. gr. laganna, sé að finna undantekningarákvæði sem feli í sér mikla skerðingu á rétti fólks til einkalífs. Við túlkun á því ákvæði verði að beita þröngri lögskýringu og þar með vernda einstaklinga gegn ómálefnalegri íhlutun stjórnvalda í réttindi þeirra. Kærandi geri ýmsar athugasemdir við þær forsendur sem hin kærða ákvörðun sé reist á.

Meðal annars gerir kærandi athugasemd við framkvæmd viðtala við kæranda og maka hans hjá danska sendiráðinu og að Útlendingastofnun hafi lagt þau viðtöl til grundvallar. Þá telur kærandi að það sjónarmið stofnunarinnar, að kærandi eigi t.d. ættingja hér á landi, geti ekki skipt máli við mat skv. 8. mgr. 70. gr., sbr. og 92. gr. laga um útlendinga. Þá eru gerðar ýmsar athugasemdir við heimsókn lögreglu á heimili kæranda og maka hans þann 12. desember 2018, sem og ályktanir sem stofnunin hafi dregið af lögregluskýrslu um það efni, dags. 19. desember 2018. Þá telur kærandi að þau rök stofnunarinnar að kærandi og maki hans hafi ekki búið saman fyrir giftingu hafi ekki þýðingu og er m.a. vísað til siða og venja í Víetnam í því samhengi. Þá er í greinargerð kæranda m.a. vísað til 10. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í XI. kafla laga um útlendinga er fjallað um sérreglur um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu. Samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laganna gilda ákvæði kaflans um rétt útlendinga sem eru ríkisborgarar ríkis sem fellur undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu til að koma til landsins og dveljast hér á landi. Í 2. mgr. 80. gr. laganna segir að ákvæði kaflans gildi einnig um aðstandendur EES- eða EFTA-borgara sem fylgja honum til landsins eða koma til hans. Í 1. mgr. 82. gr. laga um útlendinga er þá kveðið á um að aðstandandi EES- eða EFTA-borgara sem falli undir ákvæði XI. kafla hafi rétt til að dveljast hér á landi með honum. Með aðstandanda í skilningi ákvæðisins er m.a. átt við maka. Jafnframt er fjallað um rétt til dvalar lengur en þrjá mánuði fyrir aðstandendur EES- eða EFTA-borgara og aðra útlendinga sem eru ekki EES- eða EFTA-borgarar í 86. gr. laganna. Af athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því er síðar varð að núgildandi lögum um útlendinga er ljóst að XI. kafla laganna felur að verulegu leyti í sér innleiðingu á ákvæðum tilskipunar nr. 2004/38/EB um rétt borgara sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsrar fara og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna.

Í málinu liggur fyrir afrit af hjúskaparskírteini, dags. 18. nóvember 2016, en samkvæmt efni þess gengu kærandi og maki hans í hjúskap í Víetnam. Þá liggur fyrir afrit af vegabréfi maka kæranda en af því er ljóst að maki kæranda er ríkisborgari Svíþjóðar. Gögn málsins gefa jafnframt til kynna að maki kæranda sé búsett á Íslandi og stundi atvinnu hér á landi. Kærunefnd telur því ljóst að ákvæði XI. kafla laga um útlendinga eigi við um kæranda enda sé hann maki sænsks ríkisborgara sem hefur nýtt sér rétt sinn til frjálsrar farar og dvalar á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. 1. og 2. mgr. 80. gr. laganna.

Í 1. mgr. 90. gr. laga um útlendinga segir að útlendingur sem dvelst hér á landi skv. 86. gr. í meira en þrjá mánuði skuli fá útgefið dvalarskírteini. Umsóknarfrestur er þrír mánuðir frá komu til landsins og skal Útlendingastofnun gefa út skírteinið að fenginni umsókn, sbr. jafnframt 3. mgr. 90. gr. laganna. Í máli þessu liggur fyrir að Útlendingastofnun synjaði kæranda um útgáfu dvalarskírteinis á þeim grundvelli að dvalarréttur kæranda væri fallinn brott, sbr. 92. gr. laganna.

Í 1. mgr. 92. gr. laga um útlendinga er fjallað um brottfall dvalarréttar EES- eða EFTA-borgara eða aðstandenda hans. Segir m.a. í 1. mgr. ákvæðisins að réttur til dvalar samkvæmt ákvæðum XI. kafla falli niður ef um málamyndagerning að hætti 8. mgr. 70. gr. laganna sé að ræða. Þá kemur m.a. fram í 2. mgr. 92. gr. laganna að heimilt sé að synja um útgáfu dvalarskírteinis ef rökstuddur grunur sé um að til hjúskapar hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis og ekki sé sýnt fram á annað svo óyggjandi sé.

Eins og að framan greinir er í 1. mgr. 92. gr. vísað til 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga sem fjallar um veitingu dvalarleyfis vegna hjúskapar. Þar segir að sé rökstuddur grunur um að til hjúskapar eða sambúðar hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis og ekki sé sýnt fram á annað svo að óyggjandi sé veiti það ekki rétt til dvalarleyfis. Vegna umfjöllunar í ákvörðun Útlendingastofnunar bendir kærunefnd á að orðalag 2. mgr. 92. gr. laga um útlendinga og 1. málsl. 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga er ekki fullkomlega sambærilegt. Að mati kærunefndar verður því ekki lagt til grundvallar að ákvæðin feli í sér mælikvarða sem sé sambærilegur að öllu leyti. Í því sambandi verður jafnframt að líta til þess sem m.a. kemur fram í lögskýringargögnum við 92. gr. laga um útlendinga að ákvæðið sé í samræmi við 35. gr. tilskipunar nr. 2004/38/EB þar sem gert sé ráð fyrir því að aðildarríkin geti gripið til nauðsynlegra ráðstafana til að sporna við misnotkun á þeim réttindum sem tilskipunin mælir fyrir um, t.d. vegna málamyndunarhjúskapar. Við túlkun ákvæðisins verður því að hafa í huga að ákvæðið felur í sér frávik frá þeirri grundvallarreglu að EES- eða EFTA-borgarar sem og aðstandendur þeirra geti, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, nýtt sér rétt til frjálsrar farar og dvalar á Evrópska efnahagssvæðinu, líkt og m.a. er kveðið á um í 80. og 82. gr. gr. laga um útlendinga. Í því ljósi verður að telja að einungis geti komið til beitingar 1. eða 2. mgr. 92. gr. laga um útlendinga í undantekningartilfellum að undagenginni viðhlítandi málsmeðferð þar sem m.a. hefur verið gætt meðalhófs.

Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að til hjúskapar kæranda og maka hans hefði verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla kæranda dvalarleyfis. Af ákvörðun Útlendingastofnunar verður ráðið að þessi niðurstaða stofnunarinnar hafi verið byggð á nokkrum atriðum, t.d. því að kærandi eigi fyrrverandi eiginkonu og dóttur á Íslandi og að lögregluskýrsla, dags. 19. desember 2018, hafi rennt stoðum undir grun stofnunarinnar að hjúskapur þeirra væri til málamynda. Þá þekki kærandi og maki hans ekki til atvika og atburða úr lífi hvors annars og er vísað til viðtala hjá danska sendiráðinu í þessu samhengi. Auk þess hafi kærandi og maki hans ekki búið saman fyrir stofnun hjúskapar, og þá séu núverandi og fyrrverandi eiginkonur kæranda vinkonur líkt og rannsókn stofnunarinnar á samfélagsmiðlinum Facebook hafi leitt í ljós.

Þótt svör kæranda og eiginkonu hans í viðtölum hafi ekki verið fullkomlega samhljóða um öll atriði er það mat nefndarinnar að misræmi milli svara þeirra kunni að eiga sér ákveðnar skýringar. Kærunefnd telur því ekki unnt að fullyrða að kærandi og maki hans þekki ekki til atvika og atburða úr lífum hvors annars. Þá fær kærunefnd ekki séð að gögn málsins renni nægilega styrkum stoðum undir þá ályktun Útlendingastofnunar að núverandi og fyrrverandi eiginkonur kæranda séu vinkonur. Þá tekur kærunefnd ekki undir þau sjónarmið Útlendingastofnunar að lögregluskýrsla styrki grun um að til hjúskapar kæranda hafi verið stofnað til málamynda.

Í ljósi framangreinds er það mat kærunefndar að gögn málsins bendi ekki til þess að rökstuddur grunur sé fyrir hendi um að til hjúskapar hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis, sbr. 2. mgr. 92. gr. laga um útlendinga. Er því ekki fallist á að réttur kæranda til dvalar hér á landi, sbr. 86. gr. laga um útlendinga, sé fallinn brott. Verður því ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferð.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case. 

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                              Anna Valbjörg Ólafsdóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta