Hoppa yfir valmynd
3. desember 2023 Forsætisráðuneytið

1159/2023. Úrskurður frá 8. nóvember 2023

Hinn 8. nóvember 2023 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1157/2023 í máli ÚNU 23080012.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 9. ágúst 2023, kærði A, rannsóknarblaðamaður hjá Radio Free Euro­pe/Radio Liberty í Serbíu, synjun Skattsins á beiðni hans um gögn.

Í erindi kæranda, dags. 2. ágúst 2023, var rakið að hinn 27. júlí 2023 hefði flugvél á vegum flugfélags­ins Ukraine Air Alliance, flug UKL5005, lent á Keflavíkurflugvelli. Vélin hefði lagt af stað frá Kisínev í Moldóvu og haft viðkomu í Belgrad í Serbíu. Kærandi óskaði eftir upplýsingum um tollskrárnúmer þess farms sem hefði verið fluttur með fluginu, auk ítarlegra upplýsinga um eðli farmsins.

Skatturinn svaraði erindi kæranda samdægurs og synjaði honum um aðgang að upplýsingunum með vísan til þagnarskylduákvæðis 188. gr. tollalaga, nr. 88/2005. Upplýsingar þær sem óskað væri eftir féllu undir ákvæðið og því væri óheimilt að veita honum aðgang að þeim. Kæranda var leiðbeint um kæru­heimild til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Í kæru kemur fram að þær upplýsingar sem óskað hafi verið eftir varði almannahagsmuni, ekki aðeins fyrir serbneska borgara heldur líka fyrir borgara í Evrópusambandinu í heild.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Skattinum með erindi, dags. 23. ágúst 2023, og honum veittur kostur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að Skatturinn léti úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.

Umsögn Skattsins og umbeðin gögn bárust úrskurðarnefndinni hinn 6. september 2023. Í umsögninni kemur fram að beiðni kæranda lúti að tollflokkun og nákvæmum upplýsingum um eðli farms flugvélarinnar. Slíkar upplýsingar skuli að mati Skattsins fara leynt með vísan til þagnarskyldu­ákvæðis 188. gr. tollalaga. Upplýsingar um hvort og þá hvaða vörur flutningsaðilar flytji til landsins séu augljóslega upplýsingar sem gefi innsýn í viðskipti fyrirtækja. Þá geti afhending slíkra upplýsinga auk þess gefið vísbendingar um ákveðna innflytjendur.

Umsögn Skattsins var kynnt kæranda með bréfi, dags. 7. september 2023, og honum veittur kostur á að koma á fram­færi frekari athugasemdum. Frekari athugasemdir kæranda bárust ekki. Úrskurðar­nefnd­in óskaði með erindi, dags. 26. október 2023, eftir nánari skýringum frá Skattinum um þau gögn sem deilt er um aðgang að í málinu. Skýringar Skattsins bárust nefndinni daginn eftir. Óþarft er að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda, sem er blaðamaður, til aðgangs að upplýsingum um tollskrár­númer farms og eðli farmsins um borð í flugi UKL5005 flugfélagsins Ukraine Air Alliance, sem lenti á Keflavíkurflugvelli í lok júlí 2023. Réttur kæranda er byggður á 5. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, um upplýsingarétt almennings.

Synjun Skattsins byggist á því að upplýsingarnar séu undirorpnar sér­stakri þagnarskyldu sem mælt er fyrir um í 188. gr. tollalaga, nr. 88/2005, og því sé Skattinum óheimilt að afhenda kæranda gögn sem innihaldi upplýsingarnar. Þau gögn eru nánar tiltekið:

  1. Tölvupóstur frá APA ehf. (Airport Associates) til Skattsins um komu vélar Ukraine Air Alli­ance, flugs UKL5005, til landsins.
  2. Komutilkynning flugs UKL5005.

Í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga kemur fram að sé þess óskað sé skylt að veita almenningi aðgang að fyrir­­liggjandi gögnum sem varði tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. laganna. Hið sama gildi þegar óskað sé aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum.

Í 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, kemur fram að almenn ákvæði laga um þagnar­skyldu takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögunum. Andspænis slíkum ákvæðum eru sér­stök þagnarskylduákvæði, þar sem upplýsingarnar sem þagnarskyldan tekur til eru sérgreindar. Með gagnályktun frá 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga verður talið að sérstök þagnarskylduákvæði geti takmarkað rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum. Það fer eftir efni og orðalagi við­­komandi ákvæðis hvernig það verður skýrt og samræmt ákvæðum upplýsingalaga, sbr. athuga­semd­ir í frumvarpi því sem varð að gildandi upplýsingalögum.

Í 1. mgr. 188. gr. tollalaga kemur fram að starfsmenn tollyfirvalda séu bundnir þagnarskyldu samkvæmt X. kafla stjórnsýslulaga. Þagnarskyldan taki til upplýsinga um einkahagi manna sem eðlilegt sé að leynt fari og upplýsinga um viðskipti einstakra manna og fyrirtækja, þ.m.t. hvers konar vitneskju sem ráða megi af samritum af sölu- og vörureikningum sem tollyfirvöld halda eftir.

Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að gildandi tollalögum kemur fram að vegna eðlis starfa starfsmanna tollyfirvalda þyki rétt að hafa sérstakt ákvæði í tollalögum um þagnarskyldu, um­fram þá almennu þagnarskyldu sem finna megi í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þagnarskyldan nái m.a. til upplýsinga um hvers konar viðskiptamálefni einstaklinga og fyrirtækja, þ.m.t. hvers kyns vitneskju sem ráða megi beint eða óbeint af samritum af sölu- og vörureikningum eða af öðrum skjölum sem látin eru tollstjóra í té.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur slegið því föstu í úrskurðarframkvæmd sinni að 1. mgr. 188. gr. tollalaga teljist vera sérstakt þagnarskylduákvæði að því er varðar upplýsingar um viðskipti ein­­stakra manna og fyrirtækja. Í ljósi orðalags ákvæðisins og athugasemda við ákvæðið verður að líta svo á að undir ákvæðið falli hvers kyns upplýsingar tollyfirvalda um viðskipti einstakra manna og fyrir­­tækja. Ef upplýsingar falla þannig á annað borð undir ákvæðið leiðir það til takmörkunar á aðgangi að þeim án þess að lagt sé mat á hagsmuni viðkomandi manna eða fyrir­tækja af því að við­­komandi upp­lýsingum um viðskipti þeirra sé haldið leyndum, sbr. 9. gr. upplýsingalaga.

Úrskurðarnefndin hefur farið yfir gögnin sem innihalda þær upplýsingar sem Skatturinn synjaði kær­anda um aðgang að. Nefndin telur ljóst að upplýsingarnar varði viðskipti einstakra manna og fyrir­tækja sem falla undir þagnarskylduákvæði 188. gr. tollalaga. Ekki er unnt að lýsa eðli eða inntaki gagnanna án þess að með því skapist hætta á að veittar séu upplýsingar sem nefndin telur að séu háðar sérstakri þagnarskyldu. Verður ákvörðun Skattsins samkvæmt framangreindu stað­fest.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Skattsins, dags. 2. ágúst 2023, að synja A um aðgang að upplýsingum um flug UKL5005 flugfélagsins Ukraine Air Alliance, er staðfest.

Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta