Hoppa yfir valmynd
10. janúar 2012 Heilbrigðisráðuneytið

Viðbrögð stjórnvalda vegna PIP-brjóstafyllinga

Konur sem fengu ígrædda PIP-brjóstapúða á árunum 2000–2010 og eru sjúkratryggðar hér á landi munu fá bréf á næstu dögum þar sem þeim verður boðið að koma sér að kostnaðarlausu í ómskoðun á brjóstum til að kanna ástand púðanna. Reynist púðar lekir tekur ríkið þátt í kostnaði við að fjarlægja þá samkvæmt almennum reglum um greiðsluþátttöku hins opinbera vegna aðgerða. Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra kynnti aðgerðaáætlun heilbrigðisyfirvalda vegna þessa máls á fundi ríkisstjórnar í dag.

Í mars 2010 voru brjóstafyllingar frá franska fyrirtækinu Poly Implant Prothese (PIP) teknar af markaði í Evrópu þar sem gæðum sílikonefnisins í þeim var talið áfátt. Skoðun leiddi í ljós að framleiðandi fyllinganna hafði notað í þær annað efni en það sem hann hafði áður fengið gæðavottað með CE-gæðamerkingu og varan því fölsuð og gölluð. Talið er að þetta eigi við um brjóstapúða sem PIP-fyrirtækið framleiddi og seldi allt frá árinu 2000.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum er það fyrst og fremst einn lýtalæknir hér á landi, sem jafnframt er innflytjandi PIP-brjóstapúðanna, sem hefur notað þá í aðgerðum við brjóstastækkanir á læknastofu sinni. Þeir hafa hins vegar ekki verið notaðir í aðgerðum sem framkvæmdar eru á sjúkrahúsum, til dæmis vegna uppbyggingar brjósta í kjölfar krabbameinsmeðferðar.

Íslensk heilbrigðisyfirvöld eru í beinum samskiptum við hlutaðeigandi yfirvöld og eftirlitsstofnanir í Evrópu og fylgjast grannt með þróun mála varðandi PIP-brjóstafyllingarnar hjá öðrum þjóðum. Áætlun sem velferðarráðuneytið kynnti á fundi ríkisstjórnarinnar í dag um aðgerðir íslenskra stjórnvalda verður endurskoðuð ef þörf krefur, komi fram nýjar upplýsingar um áhrif fyllinganna á heilsu kvennanna sem í hlut eiga.

Velferðarráðuneytið hefur ákveðið að afla lögfræðiálits, meðal annars varðandi ábyrgð vegna innflutnings og dreifingar PIP-brjóstapúðanna og réttarstöðu hlutaðeigandi kvenna samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu nr. 111/2000. Ráðuneytið hefur leitað til ríkislögmanns við undirbúning málsins. Þegar lögfræðiálit liggur fyrir verður tekin ákvörðun um hvort ríkið geri kröfu um endurgreiðslu kostnaðar sem ríkið tekst á hendur vegna þessa máls.

Aðgerðaáætlun stjórnvalda


Skimun

Öllum konum sem fengið hafa PIP-brjóstapúða á árunum 2000–2010 verður sent bréf á næstu dögum þar sem þeim er boðið að koma í ómskoðun á næstu þremur mánuðum til að ganga úr skugga um hvort brjóstapúðarnir leki. Alls eru þetta 440 konur. Ef konurnar eru sjúkratryggðar hér á landi verður skoðunin þeim að kostnaðarlausu.  

Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands mun annast framkvæmd skoðananna og jafnframt veita konunum fræðslu og ráðgjöf, samkvæmt samningi við ráðuneytið sem verið er að leggja á lokahönd. Í einhverjum tilvikum kunna skoðanir að fara fram á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni en þá í samráði við Krabbameinsfélag Íslands. Miðað verður við að konurnar komi til skoðunar á næstu þremur mánuðum.

Brottnám PIP-brjóstapúða

Leiði skoðun í ljós að púðar leki býðst konunum að láta fjarlægja þá. Gildir þá einu hvort leki í púðum kemur í ljós við fyrstu skoðun eða síðar við reglubundið eftirlit. Áætlaður heildarkostnaður við hverja aðgerð er um 200.000 kr. og mun ríkið standa straum af kostnaðinum að undanskildu komu-, skoðunar- og aðgerðargjaldi samkvæmt gjaldskrá sjúkratrygginga sem konurnar greiða sjálfar og nemur 29.500 kr.

Að óbreyttu mun ríkið ekki taka þátt í kostnaði við aðgerðir kjósi konur að láta fjarlægja PIP-brjóstapúða þótt enginn leki hafi verið greindur við ómskoðun.

Reglubundið eftirlit

Embætti landlæknis mun gefa fyrirmæli um það til lýtalækna hvernig reglubundnu eftirliti skal vera háttað á næstu árum með þeim konum sem eru með PIP-brjóstafyllingar.

Áætlaður kostnaður vegna aðgerðanna

Heildarkostnaður ríkisins vegna ómskoðunar sem Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands annast er áætlaður allt að sex milljónir króna. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hefur tíðni leka í PIP-brjóstapúðum verið áætluð um 1–2% en einnig hefur verið nefnt hærra hlutfall eða allt að 7%. Með þessar upplýsingar að leiðarljósi má ætla að nema þurfi brott púða hjá 4–8 konum að lágmarki eða allt að 30 konum sé miðað leka í 7% púðanna. Áætlaður kostnaður við aðgerðir vegna lekra brjóstapúða sem fallið gæti til á næstu árum er því áætlaður á bilinu 800.000–6.000.000 kr.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta