Hoppa yfir valmynd
20. febrúar 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ráðherra heimsækir Barnaverndarstofu

Bragi Guðbrandsson og Ásta R. Jóhannesdóttir
Bragi Guðbrandsson og Ásta R. Jóhannesdóttir

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, heimsótti Barnaverndarstofu í gær og ræddi við starfsfólk sem gerði henni grein fyrir starfseminni og helstu verkefnum stofnunarinnar.

Ástu var meðal annars kynnt sérstaklega starfsemi meðferðarteymis sem sinnir fjölkerfameðferð (Multisystemic Therapy) en notkun þessa meðferðarforms er nýjung hér á landi. Meðferðin snýr að fjölskyldum unglinga með fjölþættan hegðunarvanda og er áhersla lögð á að veita meðferðina í nærumhverfi unglingsins. Fjölkerfameðferð er upprunnin í Bandaríkjunum en hefur öðlast verulega útbreiðslu og er notuð til dæmis í Bretlandi, Hollandi, Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Erlendar rannsóknir á árangri fjölkerfameðferðar hafa sýnt umtalsvert betri langtímaárangur en hefðbundin stofnanameðferð og má ætla að með notkun hennar hér á landi muni draga úr þörf fyrir meðferð barna á stofnunum. Fram kom í máli Braga Guðbrandssonar, forstjóra Barnaverndarstofu, að fjölkerfameðferðin geri mögulegt að veita mun fleiri börnum og fjölskyldum meðferðarþjónustu með minni tilkostnaði en hefðbundin stofnanaþjónusta felur í sér.

Ráðherra ásamt starfsfólki BarnaverndarstofuRáðherra sagði augljóst að verkefni Barnaverndarstofu væru viðamikil, stofnunin bæri mikla ábyrgð og starfsemi hennar væri afar mikilvæg. Þá sagði hún jafnframt að ávallt hefði verið mikilvægt að gæta að hagsmunum barna en aldrei brýnna en nú, þar sem erfiðar aðstæður í samfélaginu gætu ýtt undir ýmis félagsleg vandamál og því nauðsynlegt að vera sérstaklega vel á verði.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta