Hoppa yfir valmynd
17. desember 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 434/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 17. desember 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 434/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20110057

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

 

I.                    Málsatvik

Þann 24. ágúst 2017 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 9. maí 2017 um að synja [...], fd. [...], ríkisborgara Aserbaídsjan (hér eftir kærandi) um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 4. september 2017. Með úrskurði kærunefndar þann 26. október 2017 var beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa í máli hans hafnað. Þann 9. desember 2017 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins. Var þeirri beiðni hafnað með úrskurði þann 4. janúar 2018. Þann 29. október sl. stefndi kærandi íslenska ríkinu og eru kröfur hans þær að ógiltir verði með dómi framangreindir úrskurðir kærunefndar.

Þann 24. nóvember 2020 lagði kærandi fram að nýju beiðni um endurupptöku málsins ásamt fylgigögnum.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða en til vara að honum verði veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. nr. 80/2016.

II.                  Málsástæður og rök kærenda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga en hann telur að ákvörðun í máli hans hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik auk þess sem að atvik hafi breyst verulega frá því úrskurður kærunefndar hafi verið kveðinn upp.

Í beiðni kæranda er í kafla sem nefndur er málsatvik ítarleg umfjöllun um þær deilur sem staðið hafa milli Aserbaídsjan og Armeníu um yfirráð yfir Nagorno-Karabakh héraðinu. Vísað er til þess að héraðið tilheyri Aserbaídsjan en hafi síðan árið 1994 lotið raunverulegum yfirráðum Armeníu. Í beiðninni kemur fram að í lok september sl. hafi stríðsátök brotist út milli Armeníu og Aserbaídsjan um yfirráð yfir héraðsins. Vísað er til þess að átökin séu ekki staðbundin við héraðið en Armenar hafi gert eldflaugaárásir á borgir í Aserbaídsjan, m.a. hafi verið gerð árás á borgirnar Ganja og Mingachevir. Er því haldið fram í beiðni að vegna framangreindra átaka sé ljóst að öryggisástand í Aserbaídsjan verði ótryggt um ófyrirsjáanlega framtíð og að ólíklegt verði að telja að Aserar hafi í hyggju að semja frið. Þá er því haldið fram að vegna þess að asersk stjórnvöld eigi í stríðsátökum við herskáa aðskilnaðarsinna í Nagorno-Karabakh sé stöðu ýmissa þjóðarbrota innan Aserbaídsjan teflt í tvísýnu, en kærandi telji að átökin hljóti að breyta verulega stöðu þeirra þjóðarbrota í landinu sem sýnt hafi sjálfstæðistilburði.

Af beiðni kæranda má ráða að hann telji að þar sem nú hafi brotist út stríðsátök á milli Aserbaídsjan og Armeníu í Nagorno-Karabakh hafi aðstæður og atvik í máli hans breyst verulega síðan kærunefnd hafi kveðið upp úrskurð í máli hans. Kemur fram í beiðninni að þar sem framangreind átök séu einkum á grundvelli þjóðernis og landfræðilegra yfirráða þá megi ætla að afstaða hans til sjálfstæðis og sjálfstjórnar þjóðarbrots hans muni falla í afar grýttan farveg hjá aserskum yfirvöldum. Kærandi telji að þar af leiðandi eigi hann tilkall til dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða hér á landi. Í þessu samhengi vísar kærandi jafnframt til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Kærandi vísar til þess að í ljósi þess að aserski herinn heyi nú stríð gegn herskáum aðskilnaðarsinnum í Ngorno-Karabakh þá sé ljóst að staða Lezgína í Aserbaídsjan hafi versnað til muna og fálega yrði tekið í sjálfstæðistilburði þeirra af hálfu aserskra yfirvalda. Umsókn kæranda um alþjóðlega vernd sé einmitt tilkomin vegna afstöðu hans til sjálfstæðis Lezgína í Aserbaídsjan hann eigi því á hættu að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð.

Einnig byggir kærandi á því að þjóðernishreinsanir hafi verið afar áberandi í átökum í Kákasusfjöllum og vísar hann í því samhengi til fyrri átaka Armena og Asera. Jafnframt hafi armenski herinn ráðist á borgaraleg skotmörk innan Aserbaídsjan. Átökin séu því ekki staðbundin. Kærandi eigi því á hættu að verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki sé greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka verði hann aftur sendur til heimaríkis, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Þá heldur kærandi því jafnframt fram að grundvallarreglan um bann við endursendingu (e. non-refoulement) eigi einnig við í máli hans. Því til stuðnings vísar kærandi til 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Kærandi heldur því fram að með vísan til 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga sé íslenskum stjórnvöldum ekki heimilt að brottvísa honum til heimaríkis. Byggir kærandi á því að hann hafi verið nauðbeygður til þess að snúa aftur til heimaríkis þar sem hann eigi á yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Telur kærandi að miðað við þau gögn sem stjórnvöld hafi sjálf vísað til, gögn sem talsmenn kæranda hafi vísað til við málsmeðferð hans fyrir stjórnvöldum og frásagnar hans sem fái stoð í þeim gögnum, að það megi til sanns vegar færa að slík endursending hans til heimaríkis væri brot á 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, 3. mgr. mannréttindasáttmála Evrópu, 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Með beiðni kæranda um endurupptöku lagði hann fram fylgigögn. Um er að ræða afrit af fjórum fréttatilkynningum af netmiðlum fjölmiðla er lúta að átökum Armena og Aserbaídsjan um yfirráð yfir Nagorno-Karabakh héraðinu og kort af sókn Asera í héraðinu.

III.                Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda þann 24. ágúst 2017. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ætti hann ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga. Jafnframt taldi nefndin, með vísan til umfjöllunar hennar í úrskurði um aðstæður í heimaríki kæranda, að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Í 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að mál verði ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, nema veigamiklar ástæður mæli með því. Beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði kærunefndar frá 24. ágúst 2017 barst kærunefnd þann 24. nóvember 2020 eða rúmum þremur árum eftir að niðurstaða kærunefndar var birt honum. Er því ljóst að veigamiklar ástæður þurfi að mæla með því að mál þetta verði endurupptekið á grundvelli þess að úrskurðirnir hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Af beiðni kæranda um endurupptöku er ekki að finna frekari rökstuðning um það hvaða upplýsingar um málsatvik er fram komu í úrskurði kærunefndar í ágúst 2017 hafi verið ófullnægjandi eða rangar. Verður sú málsástæða kæranda því ekki skoðuð frekar.

Af beiðni kæranda um endurupptöku má ráða að þar sem stríðsátök hafi brotist út á milli Armeníu og Aserbaídsjan um yfirráð yfir Nagorno-Karabkh héraðinu í september 2020 hafi aðstæður hans og atvik í máli hans breyst verulega síðan kærunefnd hafi kveðið upp úrskurð í máli hans í ágúst 2017. Byggir kærandi annars vegar á því að átökin leiði til þess að allir tilburðir þjóðarbrots Lezgína, sem kærandi tilheyri, til sjálfstæðis muni falla í grýttan farveg hjá armenskum stjórnvöldum. Hins vegar hafi atvik í máli hans breyst vegna átakanna þar sem Armenar hafi með eldflaugaárásum herjað á borgir innan Aserbaídsjan. Telji kærandi að þar af leiðandi sé ástandið í heimaríki ótryggt og verði svo um ófyrirsjáanlega framtíð og geti það leitt til þess að kærandi verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki sé greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd hefur yfirfarið beiðni kæranda um endurupptöku ásamt fyrirliggjandi gögnum um heimaríki sem yfirfarin voru við meðferð máls hans hjá nefndinni. Þá hefur kærunefnd kannað nýlegar heimildir um ofangreinda atburði og upplýsingar í nýlegum skýrslum er varða stöðu Lezgi þjóðarbrotsins í Aserbaídsjan. Í gögnum málsins sem varða umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi liggur fyrir að kærandi kvaðst hafa búið í bænum [...] á Gabala svæðinu áður en hann hafi yfirgefið heimaríki sitt. Samkvæmt landfræðilegum upplýsingum sem kærunefnd hefur skoðað er Gabala héraðið um 200 km frá Nagorno-Karabakh-svæðinu. Upplýsingar um landssvæðið gefa til kynna að spenna hafi ríkt á milli Azera og Armena vegna deilna um yfirráð þess frá árinu 1995. Í september á þessu ári hafi átök brotist út þar sem að þúsundir hafi látist og fjölmargir særst. Gerð hafi verið nokkur samkomulög um vopnahlé sem ekki hafi haldið fyrr en samkomulagi var komið á í nóvember sl. Með því samkomulagi samþykktu Armenar að láta af hendi yfirráð í héruðum í kringum Nagorno-Karabakh en héldu yfirráðum yfir höfuðborg svæðisins. Þrátt fyrir þetta friðarsamkomulag hafi þó komið upp einhver atvik af hálfu beggja aðila sem hafi brotið gegn því en átök hafi þó ekki hafist að nýju. Upplýsingar um átökin benda til þess að þau hafi að mestu leyti verið staðbundin við Nagorno-Karabakh svæðið. Ekkert í gögnum málsins gaf, eða gefur til kynna að kærandi eigi sérstök tengsl við Nagorno-Karabakh eða að hann þurfi að ferðast til þess svæðis. Er það mat kærunefndar að þau þær upplýsingar og gögn sem skoðuð hafi verið um fyrrgreind átök bendi ekki til þess að átökin hafi haft slík áhrif í heimaríki kæranda að aðstæður hans verði taldar hafa breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar var kveðinn upp.

Kærandi byggir einnig á því að hann eigi á yfirvofandi hættu á því að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð verði hann sendur til heimaríkis sökum þess að hann tilheyri litlu þjóðarbroti i landinu sem eigi undir högg að sækja vegna sjálfstæðistilburða þess. Kærandi telji að í ljósi þess að hann sé af Lezgi þjóðarbrotinu, sem hafi krafist aðskilnaðar frá Aserbaídsjan, sé hann í hættu við heimkomu og eigi þar af leiðandi tilkall til dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða hér á landi. Í úrskurði kærunefndar frá 24. ágúst 2017 var fjallað um stöðu Lezgi þjóðarbrotsins og stöðu stefnanda sem einstaklings af því þjóðarbroti hvað varðaði málatilbúnað hans. Samkvæmt heimildum er ekki að sjá að staða Lezgi þjóðarbrotsins í Aserbaídsjan hafi breyst með verulega frá því að framangreindur úrskurður kærunefndar var kveðinn upp. Samkvæmt mannréttindaskýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna um Aserbaídsjan fyrir árið 2019 sé aðalumkvörtunarefni þjóðarbrotsins það að stjórnvöld láti hjá líða að hafa í boði opinber kennslugögn á móðurmáli Lezgína. Þá kemur fram í skýrslu Bertelsmann Stiftung frá árinu 2020 að fulltrúar þjóðarbrota eins og Lezgins og Talyshes hafi áður talað fyrir aðskilnaði en þeir séu sem stendur óskipulagðir og friðsamir. Þá verður ekki lesið af gögnum að fyrrgreind átök hafi haft neikvæð áhrif á stöðu annarra minnihlutahópa í landinu en Armena.

Með vísan til alls framangreinds er það mat kærunefndar að atvik í máli kæranda hafi ekki breyst verulega þannig að tilefni sé til endurupptöku málsins á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Þá byggir kærandi á því að íslenskum stjórnvöldum sé með vísan til 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga óheimilt að senda hann til heimaríkis. Telji hann að gögn máls hans á fyrri stigum og frásögn hans renni stoðum undir þá staðhæfingu. Af þeim málatilbúnaði kæranda verður ekki annað ráðið en að hann sé ósammála fyrri niðurstöðu kærunefndar í máli hans. Kærunefnd vekur athygli kæranda á því að það úrræði sem 24. gr. stjórnsýslulaga býður upp varðar heimild stjórnvalds til að kanna hvort atvik hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin eða hvort ákvörðun hafi byggst á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik og hvort þessir þættir leiði til þess að rétt sé að taka aðra ákvörðun, eins og skýrt kemur fram í 24. gr. laganna. Kærunefnd hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu í úrskurði 24. ágúst 2017 að endursending kæranda til heimaríkis myndi ekki fela í sér brot gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Þá hefur kærunefnd komist að þeirri niðurstöðu í úrskurði þessum að ekki séu efni til að fallast á beiðni kæranda um endurupptöku málsins vegna aðstæðna í heimaríki hans, en við það mat var m.a. litið til þess hvort kærandi kynni að verða fyrir meðferð sem gæti fallið undir 37. gr. eða 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt. Kröfu kæranda um endurupptöku máls hans hjá kærunefnd er því hafnað.

 

 


 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine his case is denied.

 

 

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

 

 

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                                                              Bjarnveig Eiríksdóttir


 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta