Nr. 042, 18. maí 1999. Þátttaka Íslands og Noregs í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen gerða
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
________
Nr.042
Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra Íslands, Knut Vollebæk utanríkisráðherra Noregs og Günter Verheugen aðstoðarutanríkisráðherra Þýskalands, undirrituðu í Brussel í dag samning Íslands, Noregs og ráðs Evrópusambandsins um þátttöku Íslands og Noregs í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen gerða. Með samningnum, sem kenndur er við Brussel, er tryggð áframhaldandi þátttaka Íslands og Noregs í Schengensamstarfinu eftir að það rann inn í Evrópusambandið við gildistöku Amsterdamsáttmálans 1. maí sl.
Með Brusselsamningnum er komið á laggirnar samsettri nefnd samningsaðila, utan stofnana Evrópusambandsins, til umfjöllunar um Schengen málefni. Með samningnum er hvorki Evrópudómstólnum né framkvæmdastjórn Evrópusambandsins veitt nokkur lögsaga gagnvart íslenskum málefnum. Samningurinn kveður á um mögulegt samráð fulltrúa þjóðþinga Íslands og Noregs við fulltrúa Evrópuþingsins.
Gildistaka Brusselsamningsins er háð fullgildingu allra samningsaðila. Þingsályktunartillaga um fullgildingu Brusselsamningsins verður lögð fram á haustþingi en í samningnum er kveðið á um að samsetta nefndin skuli starfa tímabundið fram að gildistöku samningsins.
Með Brusselsamningnum eru tryggð skilyrði til þess að hægt sé að viðhalda norræna vegabréfasamstarfinu eftir að Norðurlöndin taka sameiginlega upp framkvæmd Schengen reglna, sem nú er fyrirhugað að verði í október 2000. Ennfremur er tryggður aðgangur íslenskra lögreglu- og tollyfirvalda að víðtæku samstarfi Evrópuríkja til að stemma stigu við fíkniefnasmygli og annarri alþjóðlegri glæpastarfsemi.
Utanríkisráðuneytið veitir nánari upplýsingar um Brusselsamninginn og Schengensamstarfið.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 18. maí 1999.