Hoppa yfir valmynd
15. desember 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 423/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 423/2021

Miðvikudaginn 15. desember 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 18. ágúst 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 20. maí 2021 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta hans vegna ársins 2020.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2020 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 252.474 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 20. maí 2021.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 18. ágúst 2021. Með bréfi, dags. 23. ágúst 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 9. september 2021, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að á árinu 2020 hafi kærandi fengið 1.080.000 kr. í leigutekjur, sem hafi allar komið inn sem fjármagnstekjur, og að skerðing hafi verið reiknuð út frá því. Að mati kæranda hefði verið eðlilegt að reikna 50% af tekjunum sem grunn fyrir skerðingar líkt og hjá Skattinum því að það fylgi kostnaður að eiga íbúð. Hjá Skattinum greiði kærandi 22% fjármagnstekjuskatt af 540.000 kr. Það sé mat kæranda að fjárhæðin í reit 4.3. ætti að vera 540.000 kr.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærður sé endurreikningur tekjutengdra bóta 2020.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, varðandi hvað skuli teljast til tekna. Til tekna samkvæmt III. kafla laga um almannatryggingar teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teljist til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum.

Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem komi fram í skattframtölum.

Um skattskyldar tekjur sé fjallað í II. kafla laga um tekjuskatt. Í 1. tölul. C-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt sé kveðið á um það að leigutekjur og arður af hvers konar lausafé, þar með talin skip og loftför, teljist til skattskyldra tekna.

Í VI. kafla laga um tekjuskatt um tekjuskattsútreikning, afslætti og barnabætur segi í 3. mgr. 66. gr. að tekjuskattur af fjármagnstekjum einstaklinga utan rekstrar skuli vera 22% af þeim tekjum. Til fjármagnstekna teljist í þessu sambandi tekjur samkvæmt 1.-8. tölul. C-liðar 7. gr., þ.e. vextir, arður, leigutekjur, söluhagnaður og aðrar eignatekjur. Þá segi að þó skuli ekki reikna tekjuskatt af 50% af tekjum manns af útleigu íbúðarhúsnæðis sem nýtt sé til búsetu leigjanda og falli undir húsaleigulög.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Á árinu 2020 hafi kærandi verið með örorkulífeyrisgreiðslur allt árið. Uppgjör tekjutengdra bóta ársins hafi leitt til 252.474 kr. ofgreiðslu, að teknu tilliti til greiddrar staðgreiðslu. Ástæða þess að endurkrafa hafi myndast sé sú að við samkeyrslu við tekjuupplýsingar af skattframtali 2021 vegna tekjuársins 2020, hafi komið í ljós að tekjur kæranda hafi reynst hærri en tekjuáætlun hafði gert ráð fyrir. Endurreikningur byggist á upplýsingum úr skattframtölum bótaþega.

Kærandi hafi fengið senda tillögu að tekjuáætlun þann 17. janúar 2020. Samkvæmt tillögunni hafi verið gert ráð fyrir að árið 2020 væru lífeyrissjóðstekjur kæranda 3.380.417 kr. og vextir og verðbætur 43.344 kr. Engar athugasemdir hafi borist frá kæranda vegna þessarar tekjuáætlunar og hafi honum verið greitt eftir henni allt árið 2020.

Við bótauppgjör ársins 2020 hafi komið í ljós að kærandi hafi verið með 190.933 kr. í reiknað endurgjald, 3.362.179 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 17.986 kr. í vexti og verðbætur og 1.080.000 kr. í leigutekjur. Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2020 hafi verið sú að kærandi hafi fengið ofgreitt í bótaflokkunum tekjutryggingu og orlofs- og desemberuppbótum.

Tryggingastofnun sé skylt lögum samkvæmt að framkvæma endurreikning ár hvert þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtist á framtali bótaþega, eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og hafi einnig verið staðfest af dómstólum.

Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2020 hafi verið sú að kærandi hafði fengið greitt á árinu 1.370.233 kr. en hefði átt að fá greitt 981.573 kr. Þessi mismunur hafi leitt til ofgreiðslu að fjárhæð 252.474 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Samkvæmt 7. gr. laga um tekjuskatt sé meginregla II. kafla laganna sú að skattskyldar tekjur teljist vera hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnist og metin verði til peningaverðs og ekki skipti máli hvaðan þær stafi eða í hvaða formi þær séu. Síðan sé talið upp í A-, B- og C-liðum margvíslegar tekjur sem séu skattskyldar. Í 1. tölul. C-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt sé kveðið á um það að leigutekjur og arður af hvers konar lausafé, þar með talin skip og loftför, teljist til skattskyldra tekna.

Í 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar séu tilgreind sérstaklega þau ákvæði laga um tekjuskatt sem taka skuli tillit til varðandi hvað ekki teljist til tekna og koma skuli til frádráttar tekjum. Líta verði svo á að þar sé um tæmandi talningu að ræða, enda sé ekki vísað til ákvæða laga um tekjuskatt til frádráttar frá tekjum í heild sinni.

Í gildi sé sérstök undantekningarregla um að fjármagnstekjuskattur sé ekki reiknaður af 50% tekna manna af útleigu íbúðarhúsnæðis sem nýtt sé til búsetu leigjanda og falli undir húsaleigulög. Þá reglu sé að finna í VI. kafla laganna, nánar tiltekið í 3. mgr. 66. gr. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að taka tillit til þeirrar reglu þar sem hana sé ekki að finna í þeim ákvæðum laga um tekjuskatt sem talin séu upp í 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar.

Ljóst sé af orðalagi 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar, sem og öðrum ákvæðum sömu laga, að ekki sé gert ráð fyrir því að stofnunin hafi heimild til þess að beita undantekningarreglu 3. mgr. 66. gr. laga um tekjuskatt til þess að lækka þann tekjustofn sem Tryggingastofnun miði við í útreikningum sínum. Það ákvæði sé að finna í VI. kafla laga um tekjuskatt en lög um almannatryggingar vísi eingöngu til ákveðinna ákvæða II. kafla laga um tekjuskatt. Þessi framkvæmd Tryggingastofnunar hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og sé þá meðal annars vísað til úrskurða í málum nr. 282/2017, 283/2017 og 290/2018.

Kærð ákvörðun sé í samræmi við lög og reglur sem gildi um uppgjör og endurreikning tekjutengdra bóta. Með vísun til framanritaðs telji Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun sinni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2021.

Kærandi fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun á árinu 2021. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Á grundvelli 7. mgr. þeirrar lagagreinar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum.

Leiði endurreikningur í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim lagaákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Í tillögu Tryggingastofnunar að tekjuáætlun, dags. 17. janúar 2020, var gert ráð fyrir greiðslum frá lífeyrissjóði að fjárhæð 3.380.417 kr. og 43.344 kr. í fjármagnstekjur. Kærandi gerði ekki athugasemdir við þá áætlun. Bótaréttindi ársins voru því reiknuð og greidd út miðað við þær forsendur. Samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda vegna tekjuársins 2021 var kærandi með 190.933 kr. í reiknað endurgjald, 7.632. kr. iðgjald í lífeyrissjóð til frádráttar, 3.362.179 kr. í lífeyrissjóðstekjur og reyndust fjármagnstekjur kæranda á árinu hafa verið samtals 1.097.986 kr., nánar tiltekið 17.986 kr. í vexti og verðbætur og 1.080.000 kr. í leigutekjur.

Í tilfelli kæranda voru það fjármagnstekjur hans sem leiddu til ofgreiðslu á árinu 2020. Fjármagnstekjur eru tekjustofn sem hefur áhrif við útreikning Tryggingastofnunar á bótafjárhæð, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar og einnig C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Þá er í a-lið sömu málsgreinar laga um almannatryggingar fjallað nánar um tengingu fjármagnstekna við bætur almannatrygginga:

Tekjur umfram 90.000 kr. á ári skv. C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skulu teljast til tekna við útreikning á örorkulífeyri, örorkustyrk, aldurstengdri örorkuuppbót og tekjutryggingu skv. 18.–19. gr. og 21.–22. gr. þessara laga. Ef um hjón er að ræða skiptast tekjur skv. 1. málsl. til helminga milli hjóna við útreikning bótanna. Skiptir ekki máli hvort hjónanna er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign er að ræða.“

Með hliðsjón af framangreindu ákvæði er ljóst að fjármagnstekjur kæranda, að teknu tilliti til frítekjumarks, skerða bótaréttindi hans. Frítekjumark fjármagnstekna var 98.640 kr. árið 2020 og fékk kærandi ofgreidda tekjutryggingu, auk orlofs- og desemberuppbóta það ár.

Í máli þessu snýst ágreiningur nánar tiltekið um tekjuviðmið Tryggingastofnunar ríkisins við endurreikning á tekjutengdum bótum kæranda. Kærandi gerir athugasemdir við það að stofnunin hafi notað heildarleigutekjur hans til skerðingar á lífeyri en hafi ekki tekið tillit til kostnaðar eins og gert er hjá Skattinum. Ætla má að kærandi sé að vísa til þeirrar reglu sem kemur fram í 3. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Í nefndu ákvæði segir að tekjuskattur af fjármagnstekjum einstaklinga utan rekstrar skuli vera 22% af þeim tekjum. Til fjármagnstekna teljist í þessu sambandi tekjur samkvæmt 1.-8. tölul. C-liðar 7. gr., þ.e. vextir, arður, leigutekjur, söluhagnaður og aðrar eignatekjur. Þó skuli ekki reikna tekjuskatt samkvæmt 1. málsl. af heildarvaxtatekjum að fjárhæð 150.000 kr. á ári hjá manni og 50% af tekjum manns af útleigu íbúðarhúsnæðis til búsetu leigjanda.

Í 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar segir að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki telst til tekna og tiltekinna frádráttarliða í 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga eða takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum. Í þessu ákvæði er því tilgreint við hvaða tekjur Tryggingastofnun ríkisins skuli miða útreikning og endurreikning bóta og jafnframt eru tilgreindar þær undantekningar sem stofnuninni ber að hafa hliðsjón af við þá framkvæmd. Þar er sú regla, sem kemur fram í áðurnefndum 3. málsl. 3. mgr. 66. gr. laga um tekjuskatt, ekki tilgreind. Úrskurðarnefnd telur því að þrátt fyrir að umrædd regla gildi við meðhöndlun skattyfirvalda á tilteknum fjármagnstekjum kæranda gildi hún ekki þegar kemur að endurreikningi Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum hans.  

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun um endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum kæranda á árinu 2020.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A, á árinu 2020, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta