Hoppa yfir valmynd
18. mars 2010 Heilbrigðisráðuneytið

250 ára afmæli Landlæknisembættisins

Álfheiður Ingadóttir
heilbrigðisráðherra

Hátíðardagskrá í hátíðarsal Háskóla Íslands

í tilefni 250 ára afmælis Landlæknisembættisins

 

Ágætu gestir.

Ég vil byrja á því að óska okkur öllum til hamingju með þetta stórafmæli elsta veraldlega embættis á Íslandi.

Í sögu okkar eru 250 ár langur tími og í raun stórmerkilegt að embætti landlæknis skuli standa óhaggað eftir allar þær breytingar sem orðið hafa á íslensku samfélagi frá því herrans ári 1760 þegar embættið var sett á laggirnar.

Upphaf og aðdragandi landlæknisembættisins á það sameiginlegt svo ótalmörgum framfaraskrefum, að það hvíldi á herðum örfárra einstaklinga. Í dag erum við því ekki síst saman komin til að minnast Bjarna Pálssonar, fyrsta landlæknisins, fyrir það brautryðjendastarf sem hann vann um miðja 18. öldina.

Ævi Bjarna og störfum verða gerð ítarlegri skil hér á eftir, en ég get þó ekki stillt mig um það sem náttúrufræðingur, að víkja nokkrum orðum að honum sem slíkum.

En ásamt félaga sínum og vini Eggerti Ólafssyni var Bjarni fyrsti menntaði náttúrufræðingur landsins og var geysilega afkastamikill náttúrufræðingur áður en hann gerðist læknir. Þeir hófu báðir nám við Hafnarháskóla 1746, Eggert aðeins tvítugur að aldri en Bjarni tæplega þrítugur. Þeir skrifuðu lærðar ritgerðir við Hafnarháskóla, Eggert um jarðfræði, en Bjarni um sölin, gagnsemi þeirra og nýtingu. Það væri ekki ónýtt að rifja upp þau skrif nú þegar söl eru aftur orðin neysluvara og seld í öllum heilsuverslunum.

Þeir Bjarni og Eggert unnu við skráningu bóka í Konunglegu Bókhlöðunni og voru í kjölfar þess sendir til Íslands af yfirvöldum í Kaupmannahöfn að safna gömlum bókum og náttúrugripum sumarið 1750.

Þeir „komust á toppinn“ í þessari ferð í bókstaflegri og óeiginlegri merkingu þess orðs, eins og Kristinn Haukur Skarphéðinsson, kollegi minn á Náttúrufræðistofnun orðaði það í fyrirlestri sem hann hélt um Eggert í júní 1999. Hér vísar hann til þess að þeir Eggert og Bjarni gengu fyrstir manna á Heklutind og sýndu svo ekki varð um villst að þeir voru frábærir náttúrufræðingar.

Íslandsförin 1750 vatt upp á sig, þannig að á árunum 1752 til 1757 var þeim falið að vinna skipulega rannsókn á landinu – Íslandslýsingu – sem gefin var út á dönsku 1772 í Ferðabók Eggerts og Bjarna. Tæpum hundrað árum síðar fetaði annar merkur maður sömu braut að rita Íslandslýsingu: Náttúrufræðingurinn og skáldið Jónas Hallgrímsson, sá sem sagði að náttúrufræðin væri „allra vísinda indælust, og nytsemi hennar harla mikil og margfaldleg“.

Verkefni Eggerts og Bjarna var hluti af allsherjarendurreisn Íslands, sem hófst á þessum tíma, m.a. með Innréttingunum – og var í anda upplýsingarinnar, sem var í óða önn að þoka okkar heimshluta út úr hinum myrku miðöldum. Hlutverk Eggerts og Bjarna var að meta ástandið, kanna ásigkomulag, atvinnuhætti og náttúru landsins svo hægt væri að vinna betur að velferð þjóðarinnar. Árlegar skýrslur þeirra voru lesnar upp í danska vísindafélaginu í Kaupmannahöfn og eftir að Ferðabókin kom út, reyndar að Eggerti þá nýlátnum, rataði hún fljótt um vísindasamfélagið erlendis og hafði mikil áhrif til upplýsingar um land og þjóð.

En eins og sönnum boðbera upplýsingarinnar sæmir, þá nægði Bjarna Pálssyni ekki að vera náttúrufræðingur í fremstu röð – heldur lauk hann fyrstur landa okkar embættispróf í læknisfræði frá Hafnarháskóla árinu áður en hann var skipaður landlæknir.

Þegar Bjarni Pálsson landlæknir flutti að Nesi við Seltjörn 1763, í nýreistan embættisbústað, var það með stærri og myndarlegri byggingum á landinu. Þótt húsrýmið virðist ekki stórt í dag þá rúmaðist innan veggja þess auk heimilis Bjarna og læknastofu, eina sjúkrahús landsins, eina göngudeildin fyrir sjúklinga, eina lyfsalan, eini læknaskólinn, eini ljósmæðraskólinn og svo mætti lengi telja. Þessa sögu ætla ég ekki að rekja frekar, enda munu aðrir gera það hér betur á eftir.

Læknisfræðin sem Bjarni stundaði á ekki mikið skylt við nútíma læknisfræði. Orsakir sjúkdóma, leiðir til að greina þá og leiðir til að bregðast við þeim voru fjarri því sem við þekkjum í dag. Hlustpípuna, tákn margra lækna í dag, var ekki búið að finna upp, orsakir sýkinga óþekktar og það leið heil öld þar til Louis Pasteur tengdi bakteríur við sjúkdóma.

En metnaðurinn var svo sannarlega til staðar, ekki aðeins skyldi hinn nýi landlæknir líkna sjúkum, heldur einnig uppfræða og mennta heilbrigðisstéttir fyrir landið sem í bjuggu 45 þúsund manns, og kenna fæðingarhjálp og lækningar. Þetta voru helstu atriðin í skipunarbréfi Bjarna og þau uppfyllti hann samviskusamlega.

Seinni hluti 18 aldar, embættisár Bjarna Pálssonar, voru mjög erfiðir tímar í sögu íslensku þjóðarinnar. Þegar Bjarni deyr um sextugt, eftir að hafa verið í embætti í um 20 ár, þá dóu um 800 börn af hverjum 1000 fæddum sem er lýsandi tákn fyrir heilsufar þjóðarinnar – þá sem nú þegar ungbarnadauði er óvíða fágætari en hér: 2,5 af hverjum 1000 lifandi fæddum.

Embætti landlæknis hefur þannig lifað með þjóð sinni tímana tvenna. Á embættinu hefur ætíð hvílt mikil ábyrgð og væntanlega ekki alltaf verið auðvelt að rata milliveginn: Að standa vaktina með yfirvöldum, en um leið gegna varðstöðu fyrir sjúklinga og landsmenn alla gegn þessum sömu yfirvöldum þegar og ef á þarf að halda.

Þetta hefur þeim mætu mönnum sem setið hafa í embætti  landlæknis þó tekist vel. Virðing almennings fyrir embættinu hefur alla tíð verið mikil og embættið rekið af sama metnaði og þegar til þess var stofnað fyrir 250 árum enda þótt verkaskipting sé nú öll önnur og fleiri komi að bæði skipulagningu heilbrigðisþjónustunnar og menntun heilbrigðisstétta.

Embættið hefur fylgst vel með í þróun fræðanna allt frá upphafi og hefur að mínu áliti átt stóran þátt í því að heilsufar íslensku þjóðarinnar telst nú með því besta í veröldinni, nokkuð sem okkur hættir til að taka sem sjálfsögðum hlut – og jafnvel telja að þannig hafi þetta alltaf verið eða að það hafi gerst átakalítið.

Nú eru enn upprunnir tímar sem reyna á embætti landlæknis.

Ég er þess fullviss að öflugt starf landlæknisembættisins – alls starfsfólks sem þar hefur unnið í gegnum tíðina og annarra þeirra sem embættið hefur virkjað til góðra verka – mun hjálpa okkur til þess að standa af okkur þann mótvind sem nú blæs.

Íslenska þjóðin setur heilbrigði og heilbrigðisþjónustu í forgang á lista sinn yfir þau verkefni sem hún vill að ríkisvaldið sinni af metnaði og framsýni. Landlæknisembættið þarf hér eftir sem hingað til vera þar í fararbroddi – hvort heldur er með því að standa með sérhverjum þeim sem þarf á heilbrigðisþjónustu að halda eða að aðstoða yfirvöld við að stýra skútunni rétta leið.

Framundan sjáum við einnig eflingu forvarna og heilsuverndar, þar sem embætti landlæknis og Lýðheilsustöð munu taka höndum saman að einu marki, þ.e. að bæta heilbrigði íslensku þjóðarinnar, og í mínum huga leikur enginn vafi á því að þar muni vel til takast, þjóðinni allri til farsældar.

Góðir gestir.

Ég endurtek árnaðaróskir mínar í tilefni dagsins. Landlæknisembættið hefði aldrei haldið upp á 250 ára afmælið hefði það ekki staðið með þjóð sinni og notið virðingar hennar frá upphafi.

Mér er það mikil ánægja að afhenda landlækni, Geir Gunnlaugssyni, eintak af Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar, hátíðarútgáfu sem bókaútgáfan Örn og Örlygur gaf út 1974 með miklum myndarbrag. Þýðinguna gerði Steindór Steindórsson frá Hlöðum á árinu 1942.

Ég óska embættinu og starfsmönnum þess alls hins besta um ókomna tíð.


(Talað orð gildir)


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta