Hoppa yfir valmynd
24. mars 2010 Heilbrigðisráðuneytið

Grunnþjónusta og lífsgæði

Álfheiður Ingadóttir
heilbrigðisráðherra

Grunnþjónusta og lífsgæði
Stefnumót heilbrigðisráðuneytisins við þriðja geirann
á Grand hóteli þann 24. mars 2010


 

Ágætu gestir.

 

Ég vil byrja á því að þakka ykkur öllum fyrir að koma á þetta fyrsta stefnumót við heilbrigðisráðuneytið hér í dag. Það var í lok nóvember á síðasta ári sem ég boðaði til þessa samræðuvettvangs – og hef hlakkað mikið til að komast á þetta deit. Hugmyndin er nú sem þá, að gera stefnumót heilbrigðisráðuneytisins við sjúklinga, aðstandendur og öll samtök önnur í samfélagi okkar sem berjast fyrir bættri heilsu landsmanna, að árlegum viðburði.

Við sendum út boð á 96 félagasamtök notenda og aðstandenda notenda heilbrigðisþjónustunnar. Við buðum þeim að senda inn spurningar og erindi fyrirfram sem beinast að meginþema okkar hér í dag; grunnþjónustu og lífsgæðum.

Alls bárust bréf og erindi frá 35 félögum. Erindin voru margs konar, spurningar af ýmsum toga, ábendingar um það sem betur má gera en líka ábendingar um það sem vel er gert. Kann ég þeim sem skrifuðu bestu þakkir fyrir það. Spurningunum munum við leitast við að svara hér á eftir en þar sem þær eru af svo fjölbreyttum toga getur orðið erfitt að svara þeim öllum hér og nú.

Góðir fundargestir.

Við upplifum nú sérstaka tíma. Tíma samdráttar og hagræðingar beint ofaní tímabil útþenslu og ofgnóttar. Síðan bankarnir hrundu hafa hér á landi orðið miklar breytingar. Við höfum sem þjóð þurft að aðlaga okkur miklum breytingum á skömmum tíma. Við stöndum frammi fyrir því risavaxna verkefni, að koma Íslandi út úr afleiðingum bankahrunsins án þess að það leiði til félagslegrar kreppu og heilsufarslegrar keppu.

Við hrunið varð til á milli 300 og 400 milljarða gat í ríkissjóði, mest vegna tekjutaps en einnig vegna aukinna útgjalda, m.a. í vexti. Ríkisstjórnin valdi að fara blandaða leið með aukinni skattheimtu og niðurskurði í þjónustu. Markmiðið er skýrt – að koma okkur út úr þessum hremmingum á 3-4 árum.

Á síðasta ári var fjárlagahallinn yfir 160 milljarðar króna, á þessu ári 100 milljarðar. Það er bilið sem þarf að brúa. Hér duga sannarlega engin töfraráð en ég hef þá trú að með sameiginlegu átaki og samvinnu heilbrigðisyfirvalda, heilbrigðisþjónustunnar, fagfólks og ykkar úr þriðja geiranum ætti að vera unnt að komast í gegnum þetta niðurskurðartímabil án þess að ganga svo nærri innviðum heilbrigðisþjónustunnar að hún beri skaða af til frambúðar.

Þriðji geirinn er nýtilkomið hugtak í íslenskri tungu yfir þá aðila sem standa utan ríkis, sveitarfélaga og aðila markaðar. Þriðji geirinn eru frjálsu félagasamtökin, þrýsti- og baráttuhóparnir, góðgerðafélögin og allt það góða fólk sem af eldmóði og umhyggju vill láta gott af sér leiða fyrir samfélagið allt. Fyrir okkur öll. Við sem sitjum hér í dag viljum öll hafa áhrif. Þið eruð forsvarsfólk samtaka sjúklinga og aðstandenda þeirra sem nota heilbrigðisþjónustuna Við hin höfum ýmist verið kjörin eða ráðin til starfa ríkisins. Markmið okkar eru þau sömu. Að hafa áhrif á og bæta heilbrigðisþjónustuna svo hún geti þjónað notandanum betur. Það er sá sameiginlegi grunnur sem við þurfum að þekkja og vinna á. Við þurfum að þekkja það sem við eigum sameiginlegt áður en við tökumst á um það sem okkur kann að greina á um. Þið kæru fulltrúar notenda heilbrigðisþjónustunnar eruð mikilvæg félagsauðlind sem og mikilvægir samstarfsaðilar á hagræðingar- og breytingatímum.

„Ekkert um okkur án okkar“.

Þetta slagorð hefur hljómað víða um heim um allnokkurt skeið – og það kom oft fyrir í spurningum þeim og erindum sem ráðuneytinu bárust. Það er einmitt á þessum forsendum sem þessi fundur hér í dag er hugsaður, sem fyrsta skref í þeirri viðleitni okkar í heilbrigðisráðuneytinu að opna í auknum mæli á okkar vinnu er snýr að stefnumótun og áætlanagerð. Þetta er fyrsta stefnumótið okkar – í dag ætlum við að kynnast betur, svo við sjáum hvert það leiðir í framtíðinni.

Grunnhugsunin í samskiptum okkar er stefnumarkandi og skýr: Af okkar hálfu viljum við ástunda lárétta nálgun að svo miklu leyti sem það er mögulegt. Ég tel mikilsvert, nú þegar við sjáum fram á minnkandi fjárframlög næstu misserin, að við skiptumst á skoðunum um hvernig við getum tryggt öryggi sjúklinga og haldið uppi grunnþjónustu. Ég vil því leggja á það mikla áherslu að þið eigið aðkomu að þeirri hagræðingu og breytingum sem framundan eru í heilbrigðiskerfinu. Þið þekkið manna best hvar skórinn kreppir

Það er ákaflega mikilvægt að heilbrigðisþjónustan sé fyrir fólkið en ekki fyrir kerfið. Að heilbrigðisyfirvöld og aðrir starfsmenn heilbrigðiskerfisins séum hér til að þjóna ykkur og að hagsmunir notenda séu í fyrsta sæti. Það er því afar ánægjulegt að taka upp slíka samræðu hér í dag. Það að sjá framan í ykkur hér í dag, mæta augnaráði ykkar og taka í hlýjar hendur skiptir okkur miklu máli. Að því sögðu vil ég bjóða ykkur öll hjartanlega velkomin á deitið.

Gangi okkur vel.

 

(Talað orð gildir)


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta