Hoppa yfir valmynd
25. júní 2010 Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðiskerfið 2015

Álfheiður Ingadóttir
heilbrigðisráðherra


Ávarp heilbrigðisráðherra á ráðstefnunni Heilbrigðiskerfið 2015.

25. júní 2010

 

 

Góðir áheyrendur


Ég þakka fyrir boðið á þessa ráðstefnu um heilbrigðiskerfið 2015 og óska til hamingju með nýstofnað Landssamband heilbrigðisstofnana. Þetta er merkilegur áfangi og mikilvægt að menn þjappi sér saman um þau verkefni sem framundan eru.
 

Það er frábært að fá tækifæri til þess að líta fram á veginn. Mikilvægt er að vita hvert við stefnum í heilbrigðismálum og aldrei mikilvægara en á tímum niðurskurðar.   

Í þessum efnum þykir mér freistandi að horfa jafnvel til lengri tíma en 2015. Það sýnist svo nærri, aðeins eftir 5 ár, ekki síst þegar haft er í huga hvað mikið hefur breyst á síðsutu misserum.  

Bankarnir hrundu og efnahagskerfið riðaði til falls. En heilbrigðiskerfið hrundi ekki og það riðar ekki til falls. Verkefni okkar er að treysta innviði þess þrátt fyrir þann skaða sem bankahrunið olli samfélaginu og vera tilbúin til frekari uppbyggingar og þróunar, þeirra þátta sem kosta viðbótarfjárútlát þegar betur árar.  

Því þetta er tímabundið verkefni sem við stöndum í og við munum komast í gegnum það. 

Ég skal ekki fullyrða að allir efnahagslegir erfiðleikar verði að baki 2015, en væntanlega verður tímabili harkalegs niðurskurðar í heilbrigðis- og velferðarþjónustu lokið og hagvöxtur hafinn að nýju. 

Og þess vegna er  allt í lagi að láta sig dreyma um jafnvel enn betri heilbrigðisþjónustu en við nú höfum, heilbrigðisþjónustu sem fellur  betur að þeirri samfélagsgerð, lífsháttum og íbúasamsetningu á landinu en sú sem við nú höfum og grunnur var lagður að um miðja síðustu öld. 

Íslensk heilbrigðisþjónusta einkenndist lengi af valddreifingu og sjálfstæði stofnana sem stafaði líklega af því að faghópar, frjáls félagasamtök, styrktarfélög og heimamenn á hverjum stað réðu miklu og jafnvel mestu um uppbyggingu og þróun þjónustunnar. 

Frumkvæðið var venjulega hjá mörgum aðilum og það stóð þeim næst sem nutu þjónustunnar að hafa árhif á framkvæmd hennar, þróa hana og bæta. Megin veikleiki þessa fyrirkomulags var hins vegar veik fjármálastjórn og skortur á samhæfingu í uppbyggingu og rekstri þjónustunnar.  

Markviss stefnumótun átti lengi erfitt uppdráttar þar sem stjórn málaflokksins var dreifð og ósamstæð. Það átti bæði við um heildaráætlanir til langs tíma og áætlanir sem snéru að einstökum þáttum heilbrigðisþjónustunnar.  

Í dag hafa aðstæður að mörgu leyti breyst eða eru að breytast.  

Gerðar eru kröfur til þess að heilbrigðisþjónustan móti sér ákveðna framtíðarsýn og að meginhlutverk hennar sé skilgreint.  

Sömuleiðis er þess krafist að heilbrigðisþjónustan setji sér markmið og fylgi skipulegum áætlunum til þess að ná þeim.  

Heilbrigðisáætlun verður m.a. að taka til heilbrigðismarkmiða, þjónustumarkmiða, gæðaþróunar, rannsókna, menntunar, forvarna, fjármála, stjórnunar, skipulags og stefnu í starfsmannamálum. 

Sú heilbrigðisþjónusta sem við höfum í dag er góð á flesta þá mælikvarða sem menn nota: “Öfundsverðir” var einkunnin sem OECD gaf Íslendingum 2007; öfundsverðir af heilbrigðisþjónstunni. 

Við vitum svo sannarlega hvað við höfum, en flest þekkjum við líka gallana, það sem betur má fara, bæði í skipulagningu þjónustunnar og einstaka þjónustuþáttum. 

Við vitum hvað við höfum: Hátæknisvædd sjúkrahús, sem beita nýjustu og bestu lyfjum og læknismeðferðum.

Smærri sjúkrahús sem líta má á sem einskonar héraðssjúkrahús, með þjónustu við aldraða og legusjúklinga en einnig sum hver með skurðstofu og skurðlækna.

Við höfum heilsugæslu, sjúkraflutninga, bráðamóttökur, læknavaktir, hjúkrunarheimili, skólahjúkrun, heimahjúkrun, geðvernd, sjúkra- og iðjuþjálfun, og sálfræðiþjónustu.

Líka fjölþætta þjónustu sérgreinalækna sem reka eigin stofur og jafnvel aðgerðahús.

Ennfremur rafræn samskipti og fjarlækningar.  

Allt þetta höfum við og ekkert viljum við af þessu missa. Við viljum bara bæta þjónustuna á öllum stigum. 

En heilbrigðisþjónustan kostar sitt og á tímum mikilla samfélagsbreytinga hefur komið í ljós að skipulagið er ekki fullkomið. Þannig eru þröskuldar uppi í kerfinu, þar sem þeir ættu ekki að vera og á öðrum stöðum vantar þröskulda til að stýra sjúklingaflæðinu þangað sem þjónustan er fyrir. 

Á tímum niðurskurðar hefur líka komið í ljós að það má nýta betur vel menntaðan mannafla, búnað og fasteignir sem skattgreiðendur hafa fjárfest í á undanförnum áratugum. Það er sárgrætilegt að við séum hér með 7-8 ónýttar skurðstofur á hverjum tíma. 

Það er heilsa þjóðarinnar sem er besti mælikvarðinn á heilbrigðisþjónustuna. 

Og heilsa okkar Íslendinga er almennt góð. Flestir aldurshópar hafa það mun betra nú en fyrir 25 eða 50 árum, eða er það ekki svo?  

Íbúasamsetningin hefur breyst, við erum að eldast, búsetan er líka að breytast, og ekki síst lífsstíllinn. Mataræðið, áreitið, stressið, vímuefnanotkun, svo nokkuð sé nefnt. 

Nýir sjúkdómar verða fyrirferðarmeiri eins og sykursýki og ofurþyngd sem fer vaxandi í flestum aldurshópum. 

En enda þótt nýir sjúkdómar komi fram, og algengi þeirra aukist, t.d. nýgreining krabbameina og hjartasjúkdóma, og astma- og ofnæmissjúkdóma, og þunglyndis, þá hafa lífslíkur þeirra sem eru veikir, batnað til muna og dánartíðnin lækkað í flestum aldurshópum. Afleiðingin er sú að stöðugt fleiri sjúklingar lifa jafnvel áratugum saman með sinn króníska eða langvinna sjúkdóm og þurfa ekki endilega neyðarinnlagnir á hátæknivædd sjúkrahús, heldur góða nærþjónustu, jafnvel heimaþjónustu og heimahjúkrun. 

Þessi lýðfræðilega breyting og breytt sjúkdómatíðni hefur því leitt til nýrra þarfa sem krefjast breytinga á skipulagi heilbrigðisþjónustu og nýja forgangsröðun. 

Við höfum einbeitt okkur að því að lækna sjúkdóma með hátæknilækningum og dýrum lyfjum og við höfum náð miklum árangri. Þessi þáttur heilbrigðisþjónustunnar hefur orðið æ umfangsmeiri hvað útgjöld varðar, orðið sérhæfðari og betri og almennt aukið lífsgæði og bætt lífslíkur. 

Nú þurfum við að einbeita okkur að því að koma í veg fyrir sjúkdóma annars vegar og tryggja öfluga grunnþjónustu við þá sem eru með langvarandi sjúkdóma hins vegar. Þetta krefst eins og ég sagði áðan, nýrrar forgangsröðunar og aðgreiningar á þjónustustigum og meiri stýringar á flæði sjúklinga. 

Grunnur heilbrigðisþjónustunnar er eftir sem áður norrænt velferðarmódel, þar sem þjónustan er kostuð úr sameiginlegum sjóðum og veitt öllum sem á þurfa að halda án aðgreiningar vegna efnahags, búsetu, kyns, eða aldurs. 

Í samstarfsyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar segir að heilbrigðisþjónustan verði tekin til endurskoðunar með heildstæðri stefnumörkun í þeim tilgangi að draga úr kostnaði og nýta fjármuni skynsamlega, ná sátt um örugga heilbrigðisþjónustu um allt land.  

Sérstök áhersla er lögð á að heilsugæslan verði sett í öndvegi sem fyrsti viðkomustaðurinn í heilbrigðiskerfinu. Í samræmi við þau fyrirheit skuli haft víðtækt samráð við fjölda aðila til þess að tryggja samstöðu um framkvæmd þessa verkefnis og fyrrgreindra stefnumiða. 

Þetta er það sem við erum að vinna eftir í heilbrigðisráðuneyti í samvinnu við alla sem hagsmuna eiga að gæta.  

Á Íslandi líkt og í nágrannalöndum okkar standa yfir umfangsmiklar breytingar á þjónustu sjúkrahúsa. Aukin sérhæfing kallar á stærri einingar og samþættingu starfsemi á stórum landsvæðum. Innan fárra ára má væntanlega gera ráð fyrir að aðeins tvö sjúkrahús geti staðið undir nafni sem sérgreina- og hátæknisjúkrahús á Íslandi, þ.e. Landspítali og Sjúkrahúsið á Akureyri (FSA).   

Sem mótvægi við þessari sérhæfingu í sjúkrahúsrekstri er mikilvægt að efla heilsugæslu og öldrunarþjónustu, hvort sem um er að ræða grunnþjónustu í þéttbýli eða dreifbýli. Samtímis er ljóst að leggja verður auknar skyldur og ábyrgð á heilsugæsluna varðandi úrlausnir og ákvarðanatöku innan heilbrigðiskerfisins.  

Ég sé því fram á að á allra næstu árum geti orðið talsverðar skipulagsbreytingar á heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Þær lúta að verkaskiptingu heilsugæslu, sjúkrahúsa og sérfræðilækna.  

Hvort það verður orðið að veruleika 2015 skal ég ekki segja til um en mín sýn á framtíðarskipulagið er eitthvað í þessa veru: 

  1. Öflug heilsugæsla sem byggir á samþættingu heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu sveitarfélaga í nærumhverfi allra, hvar sem þeir búa á landinu. Hér lít ég með öfund til Akureyrarmódelsins.
  2. Heilsugæslusjúkrahús með bráðaþjónustu og hjúkrun fyrir langveika og þjónustu við aldraða, heima og í sjúkrahúsinu.
  3. Þessar heilbrigðisstofnanir hefðu samninga við sérfræðinga, ýmist af sjúkrahúsum eða einkastofum til að þjónusta sig og skjólstæðinga sína eftir þörfum. Þeir kæmu þá þangað.
  4. Tæknivædd sjúkrahúsþjónusta á færri stöðum á landinu en nú er, hugsanlega aðeins LSH og FSA.
  5. Öflugir sjúkraflutningar í lofti og á landi.

Þá þarf alltaf að hafa í huga forvarnir og geðvernd og einnig einstaka hópa, eins og börn og aldraða. 

Efnahagshrunið haustið 2008 lék fjárhag ríkisins grátt og krefst niðurskurðar og skipulagsbreytinga í heilibrigðisþjónustu líkt og í öðrum opinberum rekstri. Það hefur samt sem áður ekki átt sér stað hrun í heilbrigðisþjónustunni. Heilbrigðiskerfið stendur styrkum fótum og hefur alla burði til þess að veita landsmönnum góða þjónustu á næstu árum.  

Engu að síður verðum við leita nýrra leiða í skipulagi og þjónustu til þess að tryggja réttláta dreifingu á gögnum og gæðum heilbrigðisþjónustu, svo koma megi í veg fyrir að íbúar landsins búi við ójafna kosti í heilsufarslegum efnum. 

Á tímum efnahagsþrenginga er jafnframt mikilvægt að þeim sem minna mega sín eða standa höllum fæti í lífsbaráttunni sé tryggð jafngóð heilbrigðisþjónusta og öðrum.

  

(Talað orð gildir)

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta