Samningsafstaða um matvælaöryggi
Samningsafstaða Íslands varðandi matvælaöryggi í samningaviðræðum Íslands og ESB hefur verið birt á vefnum viðræður.is. Samningsafstaðan var send framkvæmdastjórn ESB og aðildarríkjum sambandsins eftir að um hana var fjallað í samningahópi EES I, aðalsamninganefnd Íslands og utanríkismálanefnd Alþingis, og hún samþykkt í ráðherranefnd um Evrópumál og ríkisstjórn. Samningsafstaðan er afrakstur víðtæks samráðs við hagsmunaaðila, þ. á m. Bændasamtök Íslands, og byggir á áliti meiri hluta utanríkismálanefndar Alþingis. Búist er við því að viðræður hefjist á næsta ári.
Löggjöf ESB um matvælaöryggi fellur undir 12. kafla í aðildarviðræðum Íslands og ESB. Hún miðar fyrst og fremst að því að neytendur hafi aðgang að heilnæmum og öruggum matvælum og að meðferð og aðbúnaður búfjár sé góður. Löggjöf Evrópusambandsins á þessum sviðum er umfangsmikil og nær til að mynda yfir opinbert eftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla og fóðurs.
Regluverk ESB um matvælaöryggi fellur að stærstum hluta undir EES-samninginn. Því hefur stærstur hluti regluverks Evrópusambandsins á þessu sviði þegar verið innleiddur á Íslandi. Hins vegar er regluverk sambandsins á ákveðnum sviðum, svo sem á sviði dýraheilbrigðis og dýravelferðar, ekki hluti af íslenskri löggjöf og því viðfangsefni viðræðnanna.
Í samningsafstöðunni er farið fram á að banni á innflutningi lifandi dýra verði við haldið til að koma í veg fyrir að dýrasjúkdómar berist til landsins. Ísland fer auk þess fram á heimildir til að viðhalda banni við innflutningi á fersku kjöti og banni við innflutningi á ákveðnum tegundum plantna svo að dæmi séu nefnd.
Samningaviðræðurnar um aðild Íslands að Evrópusambandinu snúast um 33 kafla í regluverki ESB, auk kafla um stofnanir og önnur mál. Alls hefur 21 samningskafli verið opnaður frá því að efnislegar aðildarviðræður hófust í júní á síðasta ári og er samningum þegar lokið um 10 þeirra. Alls hefur nú samningsafstaða Íslands í 29 köflum verið birt á viðræður.is.