Hoppa yfir valmynd
7. janúar 2014 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 5/2013

Hinn 20. nóvember 2013 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 5/2013:

Beiðni um endurupptöku

hæstaréttarmáls nr. 15/1991;

Kristján S. Guðmundsson

gegn

tollstjóranum í Reykjavík

 

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

I.                   Beiðni um endurupptöku

Með beiðni, sem barst innanríkisráðuneyti með tölvupósti þann 22. mars 2013, og sem komið var á framfæri við endurupptökunefnd 4. júní 2013, fór Kristján S. Guðmundsson þess á leit við endurupptökunefnd að heimiluð yrði endurupptaka máls nr. 15/1991 sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 2. október 1992. 

Með vísan til 34. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Ragna Árnadóttir, Björn L. Bergsson og Þórdís Ingadóttir.

II.                Málsatvik

Hæstaréttarmál nr. 15/1991 varðar kærða lögtaksgerð. Hinn 17. september 1990 gerði fulltrúi yfirborgarfógeta, Jón H. Snorrason, lögtak fyrir skuld vegna virðisaukaskatts í fasteign endurupptökubeiðanda. Kröfur endurupptökubeiðanda fyrir Hæstarétti byggðust í fyrsta lagi á því að hið kærða lögtak hafi verið gert í heimildarleysi þar sem álagning virðisaukaskattsins hafi þá verið úr sögunni. Í öðru lagi hafi gallar verið á framkvæmd lögtaksins þar sem sá er lögtakið gerði hafi verið tengdasonur fyrirsvarsmanns gerðarbeiðanda. Í dómi Hæstaréttar var hin kærða lögtaksgerð ómerkt þar sem dómurinn taldi að Jón H. Snorrason hafi brostið hæfi til þess að fara með málið sem fógeti þar sem hann var mægður fyrirsvarsmanni gerðarbeiðanda að niðjatali, sbr. 3. tölulið 36. gr. þágildandi laga nr. 85/1936 um meðferð einkamála í héraði. Ómerkti Hæstiréttur hið kærða lögtak þegar af þeirri ástæðu.

III.             Grundvöllur beiðni

Af beiðni endurupptökubeiðanda um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 15/1991 má ráða að hann telji skilyrðum 169. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 vera fullnægt til endurupptöku málsins þótt ekki sé vísað til laganna eða ákvæðisins. Endurupptökubeiðandi telur að Hæstiréttur hafi ekki tekið réttilega á málinu og segir meðal annars orðrétt í beiðni hans:

Dómstóllin[n] fékkst ekki til að taka á málinu á grundvelli ólöglegrar skattainnheimtu og falsaðra gagna sem lögð voru fram í málinu. Með úrskurði dómsins var J.H.B.S. dæmdur óhæfur til að annast innheimtuna vegna tengsla við tollstjórann en eftir stóð að fjárkrafan hélt fullu gildi sínu og var ekki dæmd ólögleg þrátt fyrir að enginn lagabókstafur væri á bak við kröfuna.

IV.             Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er leyst úr máli þessu á grundvelli XXVII. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Samkvæmt 1. mgr. 169. gr. laganna getur endurupptökunefnd leyft samkvæmt umsókn aðila að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 167. gr. Samkvæmt 3. mgr. 169. gr. skulu ákvæði 1.-3. mgr. 168. gr. gilda um umsókn um endurupptöku, meðferð umsóknar, ákvörðun um hana og áhrif endurupptöku.

Skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um endurupptöku eru eftirfarandi:
  a. sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,
  b. sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,

  c. önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.

Til að fallist verði á endurupptöku þurfa öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt. Af málatilbúnaði endurupptökubeiðanda verður ráðið að hann er ósammála forsendum Hæstaréttar fyrir þeirri niðurstöðu að ómerkja umrætt lögtak og telur að dómurinn hafi átt að byggja á öðrum forsendum. Fyrir liggur að með dómi Hæstaréttar var lögtaksgerðin ómerkt. Í samræmi við framangreind skilyrði 167. gr. laga nr. 91/1991 kemur endurupptaka ekki til álita þegar beiðni um hana lýtur ekki að því að fá niðurstöðu Hæstaréttar breytt heldur einungis að því að dæma hefði átt málið á öðrum grundvelli. Í ljósi þessa skortir lagagrundvöll til að fallast á beiðni Kristjáns S. Guðmundssonar um endurupptöku í máli Hæstaréttar nr. 15/1991 og er henni því hafnað þegar í stað, sbr. 2. mgr. 168. gr. laga nr. 91/1991.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni Kristjáns S. Guðmundssonar um endurupptöku máls nr. 15/1991 sem dæmt var í Hæstarétti 2. október 1992 er hafnað.

Ragna Árnadóttir formaður

Björn L. Bergsson

Þórdís Ingadóttir

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta