Mál nr. 8/2013
Hinn 20. nóvember 2013 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 8/2013:
Beiðni um endurupptöku
héraðsdómsmáls nr. E-8319/2007
Landsbanki Íslands hf.
gegn
Kristjáni S. Guðmundssyni
og kveðinn upp svohljóðandi
ÚRSKURÐUR:
I. Beiðni um endurupptöku
Með beiðni, sem barst innanríkisráðuneyti með tölvupósti þann 22. mars 2013, og sem komið var á framfæri við endurupptökunefnd 4. júní 2013, fór Kristján S. Guðmundsson þess á leit við endurupptökunefnd að mál nr. E-8319/2007 sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjavíkur 10. júlí 2008 yrði endurupptekið.
Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Ragna Árnadóttir, Björn L. Bergsson og Þórdís Ingadóttir.
II. Málsatvik
Endurupptökubeiðanda var stefnt af hálfu Landsbanka Íslands hf. þar sem krafist var að eftirfarandi ummæli stefnda er birtust í Morgunblaðinu hinn 29. október 2007 yrðu dæmd dauð og ómerk:
a. Eftir yfirtöku á Hf. Eimskipafélagi Íslands svo og Landsbankanum réðust ráðamenn þar í að sölsa undir sig umræddan lífeyrissjóð með slíkri ósvífni að
glæpsamlegt yrði talið í siðmenntuðum heimi.b. Þegar yfirtöku á lífeyrissjóðnum af hálfu Landsbankans hafði náðst þar sem reglugerð sjóðsins var margbrotin hefur framkoma ráðamanna Landsbankans gagnvart eigendum sjóðsins verið með eindæmum. Ósvífni og yfirgangur af hálfu ráðandi afla í Landsbankanum að hunsa alla viðleitni eigenda (eigendurnir eru sjóðfélagar) til að hafa afskipti af rekstri hans er í þá veru að einræðisöfl í Rússlandi eru sem hvítvoðungar í samanburði við það framferði sem sýnt hefur verið af hálfu ráðamanna Landsbankans.
c. Í sambandi við meðferð Landsbankans á Lífeyrissjóði Hf. Eimskipafélags Íslands vaknar sú spurning hvort ekki hafi verið næg hefnd að leggja félagið niður sem slíkt eða breyta um nafn. Varð að fullkomna hefndina með því að eyðileggja Lífeyrissjóð Hf. Eimskipafélags Íslands einnig svo að ekkert minnti á það sem á gekk fyrir um tuttugu árum og láta hefndina ná yfir þá sem störfuðu á þeim tíma fyrir óskabarn þjóðarinnar?
d. Eftir fyrirspurn til stjórnar lífeyrissjóðsins á ársfundi sjóðsins um hvort ekki væri orðið tímabært að eigendur sjóðsins tækju við stjórn hans alfarið risu valdagráðugir menn upp á afturlappirnar og ákváðu að kveða í eitt skipti fyrir
öll niður allt tal um afskipti hinna einu og sönnu eigenda að sjóðnum og sölsa
undir Landsbankann framtíðar ráðstöfunarrétt yfir því mikla fjármagni sem í
sjóðnum er.
Auk ómerkingar ummælanna krafðist Landsbanki Íslands hf. þess að endurupptökubeiðanda yrði refsað fyrir brot sín.
Málið var þingfest 13. desember 2007. Á dómþingi 17. janúar 2008 lagði endurupptökubeiðandi fram greinargerð og fylgiskjöl. Jafnframt krafðist hann þess að dómari viki sæti í málinu. Var þeirri kröfu hafnað með úrskurði héraðsdóms 13. mars 2008. Hæstiréttur staðfesti þá niðurstöðu með dómi uppkveðnum 16. apríl 2008 í máli nr. 189/2008. Varðandi framhald málsins segir í dómi héraðsdóms sem kveðinn var upp 10. júlí 2008:
Þegar niðurstaða Hæstaréttar lá fyrir boðaði dómari til nýs þinghalds í málinu sem halda átti 26. maí 2008. Neitaði stefndi þá að veita fyrirkalli dómsins viðtöku. Mætti stefndi ekki til þinghaldsins greindan dag né boðaði forföll. Í samræmi við ákvæði 3. mgr., sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ákvað dómari þá að veita stefnanda kost á að skila skriflegri sókn í málinu til að svara vörnum stefnda. Að henni fram kominni var málið síðan tekið til dóms hinn 9. júní sl. Er málið því dæmt eftir fram komnum kröfum, gögnum og sókn stefnanda með tilliti til þess sem hefur komið fram af hálfu stefnda.
Með dóminum voru ummæli endurupptökubeiðanda dæmd ómerk. Endurupptökubeiðanda var ekki dæmd refsing vegna málsins.
III. Grundvöllur beiðni
Af beiðni endurupptökubeiðanda um endurupptöku máls nr. E-8319/2007 má ráða að hann telji skilyrðum 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 vera fullnægt til endurupptöku málsins þótt ekki sé vísað til laganna, ákvæðisins eða einstakra liða þess. Endurupptökubeiðandi telur að hann hafi ekki fengið að koma að vörnum í málinu.
Í enduruppökubeiðni segir m.a.:
Vegna afstöðu dómarans í að hunsa að boða undirritaðan í þinghald þrátt fyrir ábendingar þar um var málið rekið af dómaranum á fölsuðu skjali. Dómarinn sagðist hafa boðað með bréfi en bréfið var aldrei borið út eins lög gera ráð fyrir. Fyrir hendi er skrifleg afsökunarbeiðni frá Íslandspósti til Póst og fjarskiptastofnunar en málið var kært þangað. Fram kemur að vegna mistaka af hálfu póstþjóns við útburð bréfsins hafi því ekki verið komið til skila.
Málið er að Íslandspóstur var að taka í notkun búnað til rafrænnar undirskriftar við móttöku á pósti og var neitað að afhenda bréfið þar sem ekki var samþykkt að skrifa á hinn rafræna fölsunarbúnað eftir að skrifað hafði verið undir á fylgibréf er fylgdi póstinum (bréfinu).
IV. Niðurstaða
Af hálfu endurupptökunefndar er leyst úr máli þessu á grundvelli XXVI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Samkvæmt 1. mgr. 167. laganna getur endurupptökunefnd orðið við beiðni um að mál sem dæmt var í héraði, sem hefur ekki verið áfrýjað, og áfrýjunarfrestur er liðinn, verði endurupptekið ef skilyrðum ákvæðisins er fullnægt. Í 2. mgr. 168. gr. laganna segir að ef beiðni er bersýnilega ekki á rökum reist synji endurupptökunefnd þegar í stað um endurupptöku.
Skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála um endurupptöku eru eftirfarandi:
a. sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,
b. sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,
c. önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.
Til að fallist verði á endurupptöku þurfa öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt. Við meðferð máls nr. E-8319/2007 fyrir héraðsdómi lagði endurupptökubeiðandi fram greinargerð og í dómi héraðsdóms er gerð grein fyrir málsástæðum og lagarökum beggja málsaðila. Þá kemur fram í dómi og endurupptökubeiðni að endurupptökubeiðandi hafi neitað að taka við boðun í þinghald. Endurupptökubeiðandi mætti ekki til þinghalds og var málið því tekið til dóms á grundvelli 3. mgr. 96. gr. laga um meðferð einkamála. Með vísan til framangreinds er skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr. laganna ekki uppfyllt. Þegar af þessari ástæðu skortir lagagrundvöll til að fallast á beiðni Kristjáns S. Guðmundssonar um endurupptöku máls nr. E-8319/2007 og er henni því hafnað þegar í stað, sbr. 2. mgr. 168. gr. laga um meðferð einkamála.
ÚRSKURÐARORÐ
Beiðni Kristjáns S. Guðmundssonar um endurupptöku máls nr. E-8319/2007 sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjavíkur 10. júlí 2008 er hafnað.
Ragna Árnadóttir formaður
Björn L. Bergsson
Þórdís Ingadóttir