Hoppa yfir valmynd
3. desember 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 48/2013.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 3. desember 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 48/2013.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 10. maí 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum 19. apríl 2013 fjallað um fjarveru hennar á boðað námskeið. Vegna þess að kærandi uppfyllti ekki mætingarskyldu á námskeiðið var réttur hennar til atvinnuleysisbóta felldur niður

frá og með 10. maí 2013 þar til hún hafi starfað í að minnsta kosti 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði. Ákvörðunin var tekin á grundvelli 58. gr., sbr. 4. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 17. maí 2013. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 1. júní 2012. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 19. júlí 2012, var kæranda tilkynnt að umsókn hennar um atvinnuleysisbætur væri samþykkt en með vísan til starfsloka hennar hjá Sandgerðisbæ væri réttur hennar til atvinnuleysisbóta felldur niður í tvo mánuði, sbr. 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 4. desember 2012, var kæranda tilkynnt að vegna þess að hún fékk greidda sjúkradagpeninga samhliða atvinnuleysisbótum á tímabilinu 31. maí til 31. júlí 2012 væri bótaréttur hennar felldur niður frá og með 4. desember 2012 í þrjá mánuði, sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir, skv. 1. mgr. 59. gr., sbr. 1. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Um þriggja mánaða niðurfellingu bótaréttar væri að ræða vegna þess að kærandi hafði áður sætt niðurfellingu bótaréttar 1. júní 2012 vegna starfsloka hennar hjá Sandgerðisbæ. Því sé um að ræða niðurfellingu bótaréttar öðru sinni og valdi það ítrekunaráhrifum fyrri ákvörðunar skv. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Vinnumálastofnun barst tilkynning frá Starf vinnumiðlun og ráðgjöf um að kærandi hefði ekki uppfyllt mætingarskyldu á námskeið á vegum Starfs. Með fylgdi undirritað eyðublað frá kæranda, en kærandi hafi skrifað undir eyðublaðið 22 febrúar 2013, þar sem hún staðfesti skráningu sína á námskeiðið. Á eyðublaðinu kemur fram hvaða námskeið var um að ræða, tímasetningar á námskeiðinu, að það væri mætingarskylda og ef hún væri ekki uppfyllt gæti það leitt til missis bótaréttar skv. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Með undirskrift kæranda hafi hún staðfest að hafa lesið skráningareyðublaðið og að hún myndi mæta á námskeiðið og fara eftir reglum sem myndu gilda um það.

 

Með bréfi Vinnumálstofnunar, dags. 15. mars 2013, var kæranda tilkynnt að stofnuninni hafi borist upplýsingar um að hún hefði ekki sinnt mætingarskyldu á námskeið á vegum starfsleitarstofu Starfs á tímabilinu 25. febrúar til 7. mars 2013. Með bréfinu hafi kæranda verið veittur sjö daga frestur til að skila inn skýringum á fjarveru sinni.

 

Kærandi skilaði inn skýringum á fjarveru sinni með tölvupósti 27. mars 2013. Í skýringarbréfi sínu tók kærandi fram að hún hefði áður farið á umrætt námskeið í Keflavík hjá MMS og því hafi hún ekki mætt á námskeiðið. Í kjölfarið var mál kæranda tekið fyrir á fundi Vinnumálastofnunar 19. apríl 2013 og með bréfi stofnunarinnar, dags. 10. maí 2013, var kæranda tilkynnt um hina kærðu ákvörðun.

 

Kærandi greinir frá því í kæru að þar sem einungis sé um að ræða niðurfellingu hjá henni í annað sinn en ekki fjórða eins og fram komi í hinni kærðu ákvörðun fari hún fram á að ákvörðun Vinnumálastofnunar verði endurskoðuð.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 28. júní 2013, kemur fram að málið lúti að 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta tveggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Í greinargerð er fylgdi frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé efni 58. gr. laganna nánar skýrt. Þar segi að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og að litið sé svo á að þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins sé skylt að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum. Þá sé jafnframt tekið fram í greinargerðinni að bregðist hinn tryggði þeirri skyldu leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

 

Samkvæmt g-lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar felist virk atvinnuleit meðal annars í því að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum er standi til boða.

 

Í 13. gr. laga um vinnumarkaðsúrræði, nr. 55/2006, komi einnig fram skylda þess sem teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum sem Vinnumálastofnun bjóði upp á.

 

Vinnumálastofnun bendir á að kærandi hafi undirritað eyðublað 22. febrúar 2013 þar sem hún staðfesti skráningu sína á starfsleitarstofu hjá Starf og að hún hefði lesið eyðublaðið og myndi fara eftir þeim reglum sem giltu um það. Á eyðublaðinu var tekið fram að ef mætingarskylda væri ekki uppfyllt gæti það leitt til viðurlaga skv. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ekki sé unnt að sjá að kærandi hafi gert tilraun til að tilkynna um fjarveru sína á námskeiðið fyrir fram og hvergi í samskiptasögu kæranda hjá Vinnumálastofnun sé að sjá að hún hafi tekið fram áður en hún skrifaði undir eyðublaðið að hún hafi áður setið námskeiðið. Það hafi ekki verið fyrr en kærandi var beðin um skýringar á fjarveru sinni á námskeiðinu að hún taki fram að hún hafi áður setið námskeiðið í Keflavík. 

 

Í ljósi þess að rík skylda hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum sé það mat Vinnumálastofnunar að skýring sú er kærandi færir fram í bréfi sínu til stofnunarinnar geti ekki réttlætt fjarveru kæranda í boðaðri vinnumarkaðsaðgerð á vegum stofnunarinnar og að með fjarveru sinni hafi kærandi brugðist skyldum sínum skv. 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Þar sem kærandi hafi tvisvar áður sætt niðurfellingu bótaréttar vegna starfsloka sinna hjá B og vegna ótilkynntra greiðslna sjúkradagpeninga, hafi verið um að ræða niðurfellingu bótaréttar til handa kæranda í þriðja sinn. Þá greinir Vinnumálastofnun frá því að ranglega sé greint frá því í hinni kærðu ákvörðun að kærandi hafi fjórum sinnum sætt niðurfellingu bóta. Vinnumálstofnun bendir á ákvæði 1. mgr. 61. gr. um atvinnuleysistryggingar sem fjallar um ítrekunaráhrif þegar kærandi sæti viðurlögum eða biðtíma í þriðja sinn.

 

Þá bendir stofnunin á að í 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um skilyrði þess að atvinnuleitandi samkvæmt lögunum geti öðlast nýtt tímabil skv. 29. gr. laganna áður en fyrra tímabili sé lokið. Til þess þurfi atvinnuleitandi að hafa starfað samfellt í 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði. Samkvæmt orðalagi 4. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar séu viðurlög við því að atvinnuleitandi sé látinn sæta viðurlögum eða biðtíma í þriðja sinn þau að hann missi þann rétt sem hann eigi ótekinn af líðandi greiðslutímabili skv. 29. gr. og þurfi að starfa samfellt í 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann eigi rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta aftur.

 

Þar sem um hafi verið að ræða niðurfellingu bótaréttar kæranda í þriðja sinn eigi regla 4. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar við í málinu. Kærandi eigi því ekki rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hún hafi starfað samfellt í 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 2. júlí 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 17. júlí 2013. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

 

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 12. ágúst 2013, var kæranda tilkynnt að mál hennar myndi tefjast hjá nefndinni sökum gríðarlegs málafjölda.

 

 

2.

Niðurstaða

 

Mál þetta lýtur að 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 21. gr. laga nr. 134/2009 og 13. gr. laga nr. 142/2012, en hún er svohljóðandi:

 

„Sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma skv. 6. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr.“

 

Í athugasemdum við 58. gr. með frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og hinir tryggðu njóti faglegrar ráðgjafar sérfræðinga stofnunarinnar og sé litið svo á að hinum tryggðu sé skylt að taka þátt í slíkum úrræðum. Bregðist hinn tryggði þessum skyldum sínum leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

 

Þá segir í 2 mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að hinn tryggði skuli uppfylla skilyrði laga þessara á viðurlagatímanum skv. 1. mgr. Hafni hann aftur að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum á þeim tíma getur komið til ítrekunaráhrifa skv. 61. gr.

 

Í 1. málsl. 1. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 24. gr. laga nr. 134/2009 og 15. gr. laga nr. 142/2012, greinir að sá sem hefur sætt viðurlögum skv. 57.–59. gr. eða biðtíma skv. 54. og 55. gr. og eitthvert þeirra tilvika sem þar greinir á sér stað að nýju á sama tímabili skv. 29. gr. skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að þremur mánuðum liðnum frá þeim degi er ákvörðun Vinnumálastofnunar um ítrekunaráhrif liggur fyrir enda hafi hann fengið greiddar atvinnuleysisbætur skemur en samtals 30 mánuði á sama tímabili skv. 29. gr. Í 3. mgr. 61. gr. greinir á hinn bóginn að endurtaki atvik sig sem lýst er í 1. málsl. 1. mgr. á sama tímabili skv. 29. gr. skuli hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr.

 

Í 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um að nýtt tímabil skv. 29. gr. hefjist þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Að öðru leyti gildi ákvæði III. og IV. kafla um skilyrði atvinnuleysistryggingar hins tryggða eftir því sem við getur átt.

 

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi látin sæta biðtíma skv. 1. mgr. 54. gr., sbr. 56. gr. laga um atvinnuleysistryggingar vegna starfsloka hjá B hinn 19. júlí 2012 og var það tilkynnt henni með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 19. júlí 2012. Kærandi var einnig látin sæta viðurlögum skv. 1. mgr. 59. gr., sbr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar með ákvörðun Vinnumálastofnunar 4. desember 2012 þar sem hún hafði fengið greidda sjúkradagpeninga samhliða töku atvinnuleysisbóta á tímabilinu 31. maí til 31. júlí 2012. Var kæranda tilkynnt um ákvörðunina með bréfi, dags. 4. desember 2012. Með vísan til þessa, og þeirra röksemda sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun, verður hún staðfest.


Úrskurðarorð

 

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 10. maí 2013 í máli A þess efnis að fella niður bótarétt hennar þar til hún hefur starfað í a.m.k. 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði, er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

 

 

            Hulda Rós Rúriksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta