Áhersla á mikilvægi nýfjárfestinga og nýsköpunar
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra setti í dag ráðstefnu í Tókýó um nýsköpun og fjárfestingar en ráðstefnan var skipulögð af íslenska verslunararáðinu í Japan, sendiráði Íslands í Tókýó og íslenska sprotafyrirtækinu Cooori.
Í ávarpi sínu lagði Gunnar Bragi áherslu á mikilvægi nýfjárfestinga og nýsköpunar. Ísland byði upp á hagstætt umhverfi fyrir nýjar erlendar fjárfestingar og að stefna ríkisstjórnar Íslands væri að bæta það umhverfi enn frekar. Benti ráðherra t.d. á þéttriðið net fríverslunarsamninga, hátt menntunarstig, staðsetningu landsins og sterka innviði. Hann hvatti japanska fjárfesta til að skoða sérstaklega þá kosti sem Ísland hefði upp á að bjóða í mati sínu á staðsetningu fyrir nýjar fjárfestingar.
Meðal þeirra sem tóku til máls á ráðstefnunni var Adachi Toshihisa, forstjóri ITOCHU Technology Ventures, fjárfestingasjóðs sem sérhæfir sig í fjármögnun sprotafyrirtækja, en hann fjallaði m.a. um mikilvægi samstarfs milli landa í uppbyggingu betra umhverfis fyrir frumkvöðla. Þá ræddi Ken Yasunaga, frá Innovation Network Corporation of Japan (INCJ) um japanska frumkvöðlaumhverfið auk þess sem Íslandsstofa var með kynningu og frumkvöðlarnir Árni G. Hauksson, stjórnarformaður sprotafyritækisins Amivox og dr. Arnar Jensson stofnandi og framkvæmdastjóri sprotafyritækisins Cooori tóku til máls.
Í lok ráðstefnunar var utanríkisráðherra viðstaddur undirritun samstarfssamnings Háskólans í Reykjavík og Tokyo Institute of Technology, sem er á meðal fremstu tækniháskóla heims. Samningurinn snýst um skiptinám, með áherslu á tölvufræði, en Japanir hafa einnig áhuga á námsbrautum er tengjast sjálfbærri orkunýtingu, s.s. jarðhita.