Auður – nýr barna og ungmennabókasjóður: fyrsta úthlutun 2019
„Eitt það mikilvægasta sem við getum gert til að efla læsi í landinu til framtíðar er að standa vörð um tungumálið okkar og tryggja aðgengi barna og ungmenna að bókum við þeirra hæfi,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra af því tilefni.
Ein kveikjan að stofnun sjóðsins var ábending frá ötulum hópi ungra lesenda sem buðu mennta- og menningarmálaráðherra á málþing bókaráðs Hagaskóla í fyrravetur. Þar var meðal annars mikið rætt um skort á unglingabókum á íslensku.
Sjóðurinn er hýstur hjá Miðstöð íslenskra bókmennta sem sér alfarið um rekstur hans. Sótt var um styrki til útgáfu 60 bóka en þær 20 sem dómnefnd valdi að þessu sinni eru af ýmsu tagi, allt frá myndskreyttum smábarnabókum upp í langar textabækur fyrir ungmenni. Styrkirnir nema frá 250-500 þúsund kr. hver.
Ákveðið var að gefa sjóðnum nafn sem væri lýsandi fyrir hlutverk hans og tilgang. Fyrir valinu varð nafnið Auður.
„Auður er nafn sem felur í sér ýmsar vísanir,“ sagði mennta- og menningarmálaráðherra, „í okkar hugum vísar Auður til hins raunverulega ríkidæmis þjóðarinnar og eins mesta fjársjóðs hennar, bókmenntanna. Mig langar í dag að nefna tvær konur sem bera nafnið. Annars vegar Auði Sveinsdóttur, húsfreyju í Laxnesi og nánasta samverkamann nóbelskáldsins Halldórs Laxness. Í sumar sem leið var opnuð sýning helguð lífshlaupi og listsköpun þeirrar merku konu sem oftar en ekki sinnti sínu bak við tjöldin. Það er ljóst af sögum af Auði að hún lagði sig fram við að liðsinna öðrum, hún skapaði samfélag í kringum sig og var einkar lagin við að láta fólki líða vel. Hún var réttnefndur fjölfræðingur, fljót að tileinka sér nýja hluti og þekkingu. Önnur Auður, og eldri, sem einnig er gott að taka sér til fyrirmyndar er landnámskonan Auður Ketilsdóttir, Auður djúpúðga eða hin vitra. Auður átti magnaða ævi, hún var brautryðjandi að mörgu leyti, kona sem fór ótroðnar slóðir og bar með sér ímynd styrkleika og sjálfstæðis, áræðni og virðingar.“