Fréttapistill vikunnar 10. - 16. apríl
Stefnt að fjölgun samheitalyfja á markaði til að lækka lyfjaverð á Íslandi
Lyfjaverðsnefnd hefur ákveðið að heimila tímabundið allt að 20% hærra heildsöluverð á nýjum samheitalyfjum hér á landi en tíðkast í viðmiðunarlöndunum: Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Þetta er gert í því skyni að freista innflytjenda til þess að fjölga lyfjum á markaði og lækka þannig lyfjaverð. Ríkisendurskoðun hefur nýlega gefið út skýrslu um lyfjamarkaðinn á Íslandi. Þar er ein meginskýringin fyrir háu lyfjaverði hér á landi talin sú að ekki séu flutt inn ódýr samheitalyf sem aðgengileg eru í nágrannalöndunum, heldur flytji menn fyrst og fremst inn dýr frumlyf.
46% hærri meðalkostnaður lyfja á hvern Íslending miðað við nágrannaþjóðir
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar, Lyfjakostnaður. Notkun, verð og framboð lyfja á Íslandi, kemur fram að árið 2003 hafi Íslendingar keypt lyf fyrir um 14. milljarða kr. (með vsk.). Sé borin saman lyfjanotkun hvers Íslendings að meðaltali við meðaltal lyfjanotkunar Dana og Norðmanna kemur fram að Íslendingar nota heldur minna af lyfjum. Aftur á móti er kostnaður á hvern landsmann um 46% hærri en að meðaltali í hinum löndunum. Í skýrslunni segir einnig: ,,Ef lyfjakostnaður hérlendis væri hlutfallslega sá sami og í Danmörku og Noregi hefði hann lækkað um 4,4 milljarða kr. árið 2003 og farið úr 14 milljörðum í 9,6 milljarða kr. Ef virðisaukaskatti er sleppt er munurinn um 3,5 milljarðar kr.? Skýrsla Ríkisendurskoðunar er aðgengileg á heimasíðu stofnunarinnar.
Athyglisverðar en óútskýrðar sveiflur á notkun svefnlyfja og róandi lyfja
Skrifstofa lyfjamála í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu hefur tekið saman upplýsingar um notkun landsmanna á svefnlyfjum og róandi lyfjum síðustu 26 ár. Þar má sjá gífurlega sveiflu í notkun svefnlyfja, frá um 32 dagskömmtum (DDD) árið 1980 þegar notkunin var í lágmarki, í 60 dagskammta árið 1986 þegar notkunin náði algjöru hámarki á 25 ára tímabili (1978 ? 2002). Eftir uppsveifluna á árunum 1983 ? 1986, snarminnkaði notkunin aftur og fór niður í um 36 dagskammta árið 1991. Frá þeim tíma hefur notkun svefnlyfja aukist jafnt og þétt. Notkunin var í fyrra komin yfir 60 dagskammta og ekki fyrirséð hvort notkunin heldur áfram að aukast.
Nánar...
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
16. apríl 2004