Gildistöku reglugerðar og viðmiðunarverðskrá lyfja með sambærileg meðferðaáhrif frestað
Fréttatilkynning nr. 12/2004
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur ákveðið að fresta um 3 mánuði gildistöku reglugerðar og viðmiðunarverðskrár lyfja með sambærileg meðferðaráhrif sem áttu að taka gildi þann 1. maí næst komandi. Eins og kunnugt er er gert ráð fyrir 450 milljón króna lækkun á lyfjaútgjöldum Tryggingastofnunar ríkisins á árinu 2004 og kynnti ráðherra þríþætta aðgerð þann 1. apríl sl. til að mæta forsendum fjárlaga. Reglugerðin sem og upptaka viðmiðunarverðskrá lyfja með sambærileg meðferðaráhrif ásamt því samkomulagi lyfjaverðsnefndar við fulltrúa heildsala lyfja um lækkun lyfjaverðs voru liðir í því að ná tilsettri sparnaðarkröfu.
Í gagnlegum viðræðum síðustu daga við fulltrúa lyfjaheildsala, smásala og hérlendra lyfjaframleiðenda hefur komið fram eindreginn vilji aðila til að ná tilætluðum sparnaði þessa árs með almennri lækkun á lyfjaverði og hefur ráðherra því ákveðið að fresta gildistöku reglugerðar og viðmiðunarverðskráarinnar til 1. ágúst 2004 svo að ráðrúm gefist til að ná samningum. Lyfjaverðsnefnd hefur þegar kynnt samkomulag sitt við fulltrúa lyfjaheildsala og í bígerð er samkomulag við fulltrúa smásala og innlendan lyfjaframleiðanda. Jafnframt hafa aðilar lýst yfir vilja til að fara rækilega yfir hvaða leiðir séu fyrir hendi til að ná niður þeim mun á lyfjakostnaði sem greinilega kom í ljós í nýútkominni skýrslu Ríkisendurskoðunar um lyfjamál þar sem bent var á að hefði lyfjakostnaður hérlendis verið hlutfallslega sá sami og í Danmörku og Noregi hefði hann verið 4,4 milljörðum kr. lægri árið 2003 og farið úr 14 milljörðum kr. í 9,6 milljarða kr.
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra bindur vonir við að þær viðræður sem nú standa yfir geri heilbrigðisyfirvöldum kleift að mæta sparnaðarkröfu fjárlaga og leiði til varanlegrar lækkunar lyfjaverðs sem komi sjúklingum, skattgreiðendum og ríki til góða. Einnig hefur ráðherrann lýst því yfir að í vor verði sett á laggirnar starfshópur sem hafi það verkefni að endurskoða lyfjalögin og mun hann óska eftir samstarfi við þá hagsmunaaðila sem að því máli koma.
Nánari upplýsingar gefur Sæunn Stefánsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra, í síma 545 8708 eða 892 8835.
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
28.04.2004