Hoppa yfir valmynd
6. apríl 2018 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru - ákvörðun tollstjóra um ógreidd þing- og sveitarstjórnargjöld

 

[…]
[…]
[…]

Reykjavík 6. apríl 2018
Tilv.: FJR18020033/16.2.3

Efni: Kæra [A], kt. […], vegna úrskurðar tollstjóra.

Hinn 9. febrúar 2018 barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra [A], kt. […] (hér eftir „kærandi“). Þess er krafist að úrskurði tollstjóra hinn 2. febrúar 2018 verði breytt á þann veg að dráttarvextir vegna ógreiddra þing- og sveitarsjóðsgjalda verði felldir niður.

Málavextir og málsástæður.
Í kæru kemur fram að forsaga málsins sé sú að eiginkona kæranda, Steina Steinarsdóttir, sendi tollstjóra fyrir hönd kæranda erindi þann 25. janúar 2018 þar sem farið var fram á að felldir yrðu niður dráttarvextir vegna vangreiddra þing- og sveitarsjóðsgjalda kæranda. Fram kemur að eiginkonu kæranda hafi verið bent á þann möguleika, fyrir 20 árum, að sækja um niðurfellingu eða lækkun dráttarvaxta ef skuldin væri greidd í einu lagi. Það hafi ekki komið til greina þá, en kærandi og eiginkona hans sjá í dag fram á þann möguleika að geta greitt skuldina niður.

Með bréfi, dags. 2. febrúar 2018, synjaði tollstjóri beiðni kæranda um niðurfellingu dráttarvaxta. Fram kemur að í 1. mgr. 114. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sé kveðið á um greiðslu dráttarvaxta til ríkissjóðs af því sem gjaldfallið er af skatti sé hann ekki greiddur innan mánaðar frá gjalddaga. Jafnframt segir í ákvörðun tollstjóra að ríkissjóður sé bundinn af jafnræðisreglu stjórnsýslu- og skattaréttar hvað varðar álagningu og innheimtu skatta. Til að heimilt sé að veita einstaka gjaldendum ívilnanir á borð við það að fella niður dráttarvexti verði að vera til staðar sérstakar heimildir í skattalögum. Eins og máli þessu sé háttað sé ekki að finna slíkar lagaheimildir hvað varðar dráttarvexti.

Umsögn tollstjóra.
Þann 12. febrúar 2018 óskaði ráðuneytið eftir umsögn tollstjóra vegna kröfu kæranda um niðurfellingu dráttarvaxta. Með bréfi, dags. 12. mars 2018, barst umsögn tollstjóra vegna máls kæranda. Fram kom að eiginkona kæranda hafi haft samband og óskað eftir að fá fellda niður dráttarvexti vegna skulda kæranda. Skuldin sé vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda áranna 2012 til 2017, en undirrituð af kæranda greiðsluáætlun og fjárnámsgerð 13. júní 2016 hafi rofið fyrningu kröfunnar og sé hún því ófyrnd.

Þá kemur fram í umsögn tollstjóra að skv. 2. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 skuli það vera stefna við innheimtu á tekjuskatti að allir gjaldendur, sem eins stendur á um við innheimtu, vanskil og nauðungaraðgerðir, skuli hljóta samskonar meðferð. Þær kröfur sem um ræðir í málinu séu réttilega álagðar og hafi ekki orðið ágreiningur um þær. Samkvæmt 1. mgr. 114. gr. laga nr. 90/2003 hafi dráttarvextir lagst á kröfuna og hafi innheimtumaður ekki lagaheimild til að fella þá niður eða veita aðrar ívilnanir til lækkunar þeirra.

Með vísan til framangreinds taldi tollstjóri að staðfesta bæri hina kærðu ákvörðun.

Forsendur og niðurstaða.
Með hliðsjón af 6. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og 7. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, telur ráðuneytið einungis heimilt að fella niður dráttarvexti ef unnt er að sýna fram á að um mistök hafi verið að ræða af hálfu innheimtumanns eða ríkisskattstjóra sem leitt hafi til þess að dráttarvextir hafi fallið á skattkröfu. Í greinargerð með 13. gr. frumvarps sem varð að vaxtalögum nr. 25/1987 (nú 7. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu), sbr. þingskjal 564 á 109. löggjafarþingi 1986-87, er m.a. að finna eftirfarandi umfjöllun: „Í þessu ákvæði er lagt til að skuldara verði ekki gert að greiða dráttarvexti ef um viðtökudrátt af hálfu kröfuhafa er að ræða. Til þess að um viðtökudrátt geti verið að ræða þarf skuldari að hafa bæði vilja og getu til að greiða og hann þarf að hafa gert kröfuhafa löglegt greiðslutilboð eða lagt féð inn á geymslureikning skv. lögum nr. 9/1978. Ákvæði þetta tekur einnig til þeirra tilvika er skuldara er rétt að halda að sér höndum um greiðslu, t.d. vegna vanefnda, eftir atvikum fyrirsjáanlegra vanefnda, af hálfu kröfuhafa.“

Samkvæmt framangreindu á slíkt ekki við í tilfelli kæranda og með vísan til þess að gæta ber jafnræðis við innheimtu skattskulda, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, telur ráðuneytið að ekki séu skilyrði til niðurfellingar dráttarvaxta í málinu.

Úrskurðarorð.
Ákvörðun tollstjóra, dags. 2. febrúar 2018, um að hafna kröfu um niðurfellingu eða lækkun dráttarvaxta er staðfest.



Fyrir hönd ráðherra




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta