Hoppa yfir valmynd
24. janúar 2024 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 119/2023 Úrskurður 24. janúar 2024

Mál nr. 119/2023                  Eiginnafn:     Emír (kk.)

 

 

 

Hinn 24. janúar 2024 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 119/2023 en erindið barst nefndinni 24. nóvember.  

 

Til þess að heimilt sé að samþykkja nýtt eiginnafn þurfa öll skilyrði 5. gr. laga, nr. 45/1996, um mannanöfn að vera uppfyllt. Skilyrðin eru:

 

  1. Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli.
  2. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi.
  3. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
  4. Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

 

 

Eiginnafnið Emír (kk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Emírs, brýtur ekki í bág við íslenskt málkerfi og er ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Í máli þessu reynir hins vegar hugsanlega á 2. mgr. 5. gr. laganna um að eiginnafn megi ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

Emír er tignarheiti, eða titill sem á uppruna í arabísku amir eða emir, þýðing er fursti, konungur, einvaldur, leiðtogi, höfðingi, herra, páfi eða drottinn. Amir al Bahr eða höfðingi hafsins er talið vera uppruni orðsins aðmíráll (flotaforingi) og mun þannig hafa orðið fyrir áhrifum úr latínu (admiratio).

Skv. Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er elsta dæmi orðsins emír í íslensku í Almennri landaskipunarfræði Gunnlaugs Oddsen, Gríms Jónssonar og Þórðar Sveinbjarnarson sem út kom á árunum 1821-1827. Það er e.t.v. kunnast úr þýðingum Steingríms Thorsteinssonar frá því um miðja 19. öld á ævintýraritinu Þúsund og einni nótt og er þar í upphafsmerkingu sinni, titill en ekki nafn.

Þetta vekur þá spurningu hvort það kunni að vera nafnbera til ama að bera tignar- eða heiðurstitil sem ekki er fenginn með öðrum hætti en sem eiginnafn við nafngjöf. Titlar eins og faraó, keisari, konungur, fursti, vesír, herra, riddari, forseti, hátign, páfi eða drottinn eru e.t.v. sambærilegir til hliðsjónar og kynnu að vera til ama sem eiginnöfn í íslensku menningarumhverfi. Þá má og nefna sem íhugunarefni í þessu samhengi að aðalstign er bönnuð í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

Aftur á móti liggur fyrir að eiginnafnið Emir er á mannanafnaskrá og Emír aðlagað ritháttarafbrigði þess. Þegar af þeirri ástæðu er nafnið samþykkt.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Emír (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta