Hoppa yfir valmynd
20. apríl 2004 Dómsmálaráðuneytið

Dómsmálaráðherra kynnir skýrslu um málefni vegalausra barna

Starfshópur um málefni erlendra vegalausra barna hér á landi, sem dómsmálaráðherra skipaði þann 9. janúar 2004, hefur lokið störfum. Skýrsla starfshópsins var kynnt af ráðherra á ríkisstjórnarfundi í morgun

Fréttatilkynning
Nr. 2/ 2004

Starfshópur um málefni erlendra vegalausra barna hér á landi, sem dómsmálaráðherra skipaði þann 9. janúar 2004, hefur lokið störfum. Skýrsla starfshópsins var kynnt af ráðherra á ríkisstjórnarfundi í morgun.

Starfshópnum var ætlað að gera drög að aðgerðaráætlun um hvernig við skuli bregðast þegar erlend börn eru hér á landi án umsjár, þ. á m. hvaða stjórnvöld eða félagasamtök beri ábyrgð á umönnun þeirra hér á landi á hverju stigi og aðgerðum til að koma þeim til síns heima með öruggum hætti. Skýrsla sem starfshópurinn hefur skilað dómsmálaráðherra hefur að geyma tillögur um aðgerðaráætlun og tillögur um breytingar á reglugerð um útlendinga, nr. 53/2003 til samræmis við þær. Í starfshópnum áttu sæti fulltrúar frá dómsmálaráðuneytinu, félagsmálaráðuneytinu, sýslumanninum á Keflavíkurflugvelli, Útlendingastofnun, Ríkislögreglustjóra, Barnaverndarstofu og Rauða krossi Íslands. Á undanförnum árum hefur þess orðið vart í vaxandi mæli í nágrannaríkjum okkar að erlend börn, sem eru ein síns liðs, óska hælis eða finnast þar óskráð. Ýmislegt bendir til þess að sama þróun gæti orðið hér á landi en tilvik af þessu tagi eru þó fá enn sem komið er. Þótt flest barnanna virðist vera í leit að betri lífsgæðum en þeim standa til boða í heimalandi sínu, fer ekki hjá því að grunsemdir hafa vaknað um að flutningar barnanna geti í einhverjum tilvikum verið hluti af skipulagðri glæpastarfsemi og börnin séu í raun nauðug og sé ætlað að taka þátt í vændi eða glæpum.

Um þetta vandamál hefur m.a. verið fjallað í samstarfi á vegum Eystrasaltsráðsins sem Ísland á aðild að. Utanríkisráðuneytið hefur í því samstarfi tilnefnt dómsmálaráðuneytið til að hafa af Íslands hálfu yfirumsjón með því að viðbragðsáætlun sé fyrir hendi hér á landi um umönnun foreldralausra útlendra barna sem leita hælis eða eru án forsjár og til að annast samskipti við slíka aðila í öðrum ríkjum og veita þeim upplýsingar. Ekki eru nú fyrir hendi skýrar reglur hér á landi eða samræmd áætlun um hvernig með slík mál skuli farið, en leyst hefur verið úr þeim málum, sem komið hafa upp, á grundvelli gildandi útlendinga- og barnaverndarlöggjafar og í samvinnu þeirra aðila sem að málunum hafa komið. Í skýrslu starfshópsins til dómsmálaráðherra kemur fram að lögð er áhersla á að nota þau úrræði og verkferla sem til eru hér á landi og laga að þeim sérstöku þörfum sem fyrir hendi eru í þessum málum. Haft var að leiðarljósi að beitt yrði einstaklingsbundnum aðferðum og að þarfir barnanna sætu í fyrirrúmi. Í tillögum hópsins felst jafnframt að fara skuli með sama hætti með mál barna sem finnast dvalarleyfislaus hér á landi án foreldra eða forsjáraðila og þeirra sem sækja um hæli á grundvelli Flóttamannasamningsins.

Í þeirri aðgerðaráætlun sem kynnt er í skýrslunni er ítarleg greining á hlutverkum og ábyrgð þeirra aðila sem að ferli hvers máls koma. Það eru lögregla, Útlendingastofnun, barnaverndarnefndir og Rauði kross Íslands, auk félagsþjónustu Reykjanesbæjar sem tekið hefur að sér umönnun þeirra sem sækja um hæli hér á landi og mun einnig taka að sér umönnun barnanna samkvæmt aðgerðaráætluninni. Í skýrslunni kemur fram að meginverkefni stjórnvalda varðandi erlend börn sem stödd eru hér á landi án foreldra eða forsjáraðila, sé að finna uppruna þeirra og sameina þau fjölskyldu þeirra í heimalandi með öruggum hætti. Nauðsynlegt sé að meðferð málanna taki eins skamman tíma og nokkur kostur er á og að varanlegar lausnir á ráðstöfun barnanna komi til framkvæmda eins fljótt og auðið er. Ef ekki reynist unnt að sameina barn og fjölskyldu þess í heimalandinu á ný, þarf að finna því viðeigandi frambúðarheimili hér á landi. Lagt er til að það verði í höndum barnaverndaryfirvalda en Útlendingastofnun getur veitt barni dvalarleyfi af mannúðarástæðum við slíkar aðstæður eða hæli ef barn á rétt á hæli á grundvelli Flóttamannasamningsins. Starfshópurinn leggur til að kostnaður af slíkri fósturráðstöfun til lengri tíma greiðist úr ríkissjóði, en til þess þarf að gera breytingu á barnaverndarlögum, nr. 80/2002.

Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
20. apríl 2004.

Skýrsla starfshóps um vegalaus börn (PDF) 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta